12 ára barn fær hótun frá Creditinfo um að verða sett á vanskilaskrá

Mynd tekin af síðu mbl.is

Kæri viðtakandi, þetta bréf er viðvörun um vanskilaskráningu, ef ekkert verður aðhafst innan 14 daga frá dagsetningu þessa bréfs getur skráningin varað í allt að 4 ár.

Það verður að segjast eins og er að ég var heldur hissa þegar ég kom heim í gær eftir annars frábæran dag og opnaði bréf sem var stílað á 12 ára dóttur mína merkt Creditinfo.

Ég byrjaði aftur efst, þetta var stílað á dóttur mína, nafn og heimilisfang en engin kennitala. Nú var ég farin að skima eftir mínu nafni, eða mannsins míns þar sem við erum jú forráðamenn hennar og hún náttúrulega ekki fjárráða, en nei ekki voru þau tekin fram.

Ég las þetta aftur og jú, þetta var hótun þess efnis að hún ætti ógreidda skuld sem hún yrði að gera grein fyrir innan þessa tímamarka annars færi hún á vanskilaskrá. Fyrstu viðbrögðin voru, bíddu, skulda ég eitthvað? Gleymi ég að borga eitthvað tengt henni?

HVAÐ gat þetta verið?

Í svona stöðu er náttúrulega alveg frábært að geta ráðfært sig við lögfróðari menn en mig. Í ljós kom að í alla staða væri þetta auðvitað hið fáránlegasta mál, því þó svo að ég skuldaði eitthvað eða maðurinn minn, sem við gerum ekki, og þó svo að það væri eitthvað tengt henni, sem það er ekki, þá væri náttúrulega skandall að senda svona bréf stílað á ólögráða og þ.a.l ófjárráða einstaklinga, hvað þá 12 ára.

Í smá tíma var ég ekki viss um hvort ég ætti að hlægja eða grenja. Gærkvöldið fór í miklar vangaveltur um hvað gæti orsakað þetta og bið eftir póstbílnum með það birtingarvottorð sem tekið var fram í bréfinu að hún ætti að fá!

Birtingarvottorðið kom þó aldrei og samkvæmt svörum Creditinfo í morgun þá var um skelfileg mistök að ræða, einhverskonar tæknileg mistök. Ég kemst nú samt ekki frá þeirri hugsun, hvað ef barnið hefði opnað þetta bréf? Og hvernig í ósköpunum geta svona mistök átt sér stað?

Ég vona svo sannarlega að þetta séu í það minnsta ekki algeng mistök og þrátt fyrir að Creditinfo sé jafnvel fínt fyrirtæki þá langar mig afskaplega lítið að frá bréf frá þeim, hvað þá stílað á 12 ára dóttur mína.

Ingibjörg Elín Halldórsdóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir