Bara af ţví bara

Sú iðja að binda saman skópör á reimunum og hengja upp á áberandi stöðum virðist vera iðkuð víðsvegar um heiminn. Samkvæmt þjóðsögum sem ganga um á netinu getur merking þess verið af margvíslegum toga. Algengustu skýringarnar eru þær að skórnir séu notaðir af glæpagengjum til að merkja sér svæði eða gefa til kynna hvar megi nálgast eiturlyf og vændi. Einhverjar skýringar ganga jafnvel svo langt að segja að skórnir séu af fórnarlömbum sem hafa verið myrt í gengjastríði og eru þá hengdir upp á áberandi stað til að ögra óvinagenginu. Ekki eru þó allar þjóðsögurnar tengdar glæpastarfsemi þar sem margar þeirra halda því fram að um táknræna athöfn eða hefð sé að ræða sem framkvæmd sé í tengslum við einhvern ákveðinn atburð. Ein útgáfan gengur út á að verið sé að fagna próflokum, önnur að um yfirlýsingu sé að ræða frá aðila sem misst hefur sveindóminn og sú þriðja segir að það tíðkist meðal hermanna sem eru nýkomnir heim úr stríði að hengja upp skóna sína opinberlega til að segja skilið við stríðsminningarnar og snúa sér aftur að hversdagslegu lífi.

Í ljósi þeirra fjölmörgu þjóðsagna sem til eru um tilgang þessa athæfis vakti það forvitni undirritaðrar að komast að því hver hefði komið fyrir skópörunum sem hanga nú á besta stað í bænum yfir Listagilinu og þá aðallega til að geta spurt út í merkingu þess. Við eftirgrennslan á málinu kom í ljós að ýmsar kenningar voru uppi um bæði tilurð og tilgang gjörningsins. Haft var samband við ýmsa aðila sem á einhvern hátt tengdust menningar- og listageiranum á Akureyri og voru flestir þeirra ánægðir með framtakið þar sem það þótti setja svip á Listagilið. Einhverjir voru jafnvel búnir að ljá atburðinum dýpri merkingu og þóttust geta lesið það út úr athæfinu að viðkomandi hefði með því verið að vekja fólk til umhugsunar en hver sú merking ætti að vera virtist nú eitthvað vera á reiki. Fáir höfðu þó áttað sig á þeim alþjóðlegu tilvísunum sem hægt væri að finna með gjörningnum og var einhverjum þeirra brugðið við að heyra af tengingu sumra þeirra við glæpastarfsemi. Eftir margar fyrirspurnir þar sem hver vísaði á annan, fóru böndin að berast að ákveðnum listamanni, Margeiri Dire Sigurðarsyni, sem áður hefur skilið eftir sig spor á ólíklegustu stöðum um bæinn með svokölluðum felulistaverkum. Það var því með ákveðinni eftirvæntingu sem undirrituð setti sig í samband við listamanninn þar sem leyndardómar athæfisins yrðu loksins uppljóstraðir. Vonbrigðin voru því óneitanlega mikil þegar Margeir viðurkenndi að það lægi bara alls engin sérstök pæling bakvið verknaðinn eða eins og hann orðaði það sjálfur: „Ég var einfaldlega kominn heim til Akureyrar eftir langa fjarveru, þar sem ég bý erlendis. Ég ákvað eftir góða kvöldstund með vinum að það væri skynsöm ákvörðun að fleygja þessum glænýju skóm þangað upp svo, sama hvernig færi, gæti ég alltaf snúið aftur og átt nýtt skópar heima á Akureyri. En ekki veit ég hvort þetta eru fyrstu skópörin, né þau síðustu sem hafa ratað á þessa snúru, en að öllum líkindum þau dýrustu.‟

Margeir var með athæfi sínu ekki að fagna því að hafa átt notalega kvölstund með fögru fljóði, hann var ekki að halda upp á próflok, hann er mér vitanlega ekki meðlimur í glæpagengi og var því skóparinu ekki ætlað að skírskota til glæpastarfsemi og hann hefur aldrei barist sem hermaður í stríði. Verknaðinum var heldur ekki ætlað að þjóna sem listrænum gjörningi sem með alþjóðlegri skírskotun sinni myndi vekja okkur til umhugsunar um tilgang lífsins. Margeir ákvað í góðra vina hópi að það gæti verið sniðugt að fleygja nýju dýru skónum sínum upp á vír bara af því bara. Stundum er nefnilega lífið ekkert flóknara en svo.


Hildur Friðriksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir