Ég hef áhyggjur af þessu


Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist grein sem fjallar um uppgang strangtrúaðra hópa í Ísrael. Þar segir að bókstafstrúaðir gyðingar séu vaxandi hópur í landinu. 


Í bænum Beit Shemesh, vestur af Jerúsalem, þar sem búa um 80 þúsund manns er flestir íbúar strangtrúaðir gyðingar. Þar er núna herferð í gangi fyrir aðskilnaði kynjanna, konur mega til dæmis ekki ganga sömu megin og karlar á götu og í strætisvögnum eiga konurnar að sitja aftast. Ein birtingarmynd þessarar aðskilnaðarstefnu er að konur skuli hylja sig með öllu. Konan á í raun að hverfa af almannafæri og stúlkur allt niður í átta ára aldur verða fyrir aðkasti ef þær klæða sig ekki af nægilegri hógværð.

Í þessari grein segir að þeir stangtrúuðu, sem kallast Haredar, séu í flestum tilvikum undanþegnir herþjónustu og flestir þeirra án atvinnu. Samt sem áður eru margir úr þeirra röðum á þingi, þeir eiga rúman þriðjung af þingmannaliði stjórnarinnar og áhrif þeirra í hernum eru einnig umfram höfðatölu. Margt í þessari grein minnir á stjórnarfar Talebana í Afghanistan og þá þróun sem hefur orðið í Írak og fleiri arabalöndum undanfarinn áratug eða svo. Hún vekur upp spurningar um hvað eiginlega sé að gerast í heiminum og hvað það sé sem orsakar þróun mála í þessa átt. Miðað við viðtekinn hugsunarhátt hér um slóðir er þessi þróun í áttina aftur til fornaldar. Er þetta ef til vill eitthvað sem fleiri kristin þjóðfélög þurfa að takast á við á næstu árum eða áratugum? Gæti það hugsanlega gerst einhvern tíma í framtíðinni að íslenskir karlmenn fari að gera kröfur um að konur hylji sig frá toppi til táar og fari með veggjum?

Hér eiga vel við hin fleygu orð Steingríms Hermannssonar heitins, fyrrverandi forsætisráðherra okkar Íslendinga, sem sagði einhvern tíma: „ Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það“.

Borghildur Kjartansdóttir

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir