„Ég þarf að vita nánast allt um allt í kringum mig“

„Alla tíð hefur það verið þannig með mig að ég þarf að vita nánast allt um allt í kringum mig. Hvað fjöllin heita, bæirnir, landslagið, plönturnar, hvað fjöllin eru há o.s.frv. Má kalla þetta fróðleiksfýsn eða bara forvitni! Mætti kalla mig grúskara.“ 

Um leið og ég flutti í bæinn fór ég að hafa áhuga á húsunum í kring. Þetta var eitt af eldri hverfum bæjarins (Oddeyrin) og ég bjó svo vel að vera í 500m færi frá Amtsbókasafninu- sem ég fór að stunda mikið og hef verið þar fastagestur síðan. Þar komst ég í bókina Oddeyri; Húsakönnun og þar gat ég séð öll byggingarárin á nágrannahúsunum. Það gerði umhverfið mikið meira spennandi að vita hvað húsin voru gömul, hvaða kall byggði þau o.s.frv. Svo komst ég í sams konar bók um Innbæinn. Þá hef ég á hverju einasta sumri frá 1997 farið í sögugöngur sem Minjasafnið stendur fyrir um þessa bæjarhluta.“ Þetta sagði Arnór Bliki Hallmundsson 25 ára Akureyringur þegar fréttamaður Landpóstsins spurði hann hver drifkrafturinn væri bakvið bloggsíðu hans sem skoða má með því að smella hér. En hvernig atvikast það að áhugi verður að svona fróðleikssafni?

„2006 eignaðist ég „almennilega“ stafræna myndavél og datt í hug að fara að mynda eitthvað af þessum gömlu og sögufrægu húsum sem ég var búinn að kynna mér undanfarinn áratug. Svo var það í júní 2009 að ég átti orðið dágott myndasafn og hugsaði hvort ekki væri um að gera að deila þessari vitneskju sem ég hafði sankað að mér og myndunum um leið- þannig að ég sló til og byrjaði á þessari síðu. Hafði reyndar sett einhverjar myndir á vegg á Facebook mánuðinn áður en ákvað að víkka þetta út. Kalla pistlana "Hús dagsins" þó þeir séu langt frá því daglegir, oftast hafa liðið 3-4 dagar, stundum meira en vika en stundum hafa komið pistlar nokkra daga í röð.“

Þar sem ein aðal kveikjan að þessum skrifum Arnórs voru sögugöngur Minjasafnsins á Akureyri þá setti fréttamaður Landpóstsins sig í samband við Hönnu Rósu Sveinsdóttir, sérfræðing á húsverndunarsviði og ræddi aðeins við hana varðandi þessa síðu hans Arnórs:

„Ég hef skoðað bloggsíðuna hans Arnórs Blika Hallmundssonar og haft gaman af. Hann virðist gera þetta af metnaði og einlægum áhuga fyrir húsakosti/byggingarsögu bæjarins og virðist vera orðinn vel að sér í helstu straumum og stefnum í islenskri/akureyskri byggingarlist. Ef viðkomandi hús eru "gúggluð" kemur bloggsíða hans mjög oft upp sem einn af fyrstu valkostum í leitinni þannig að hún ætti að hafa töluverða útbreiðslu.“

Hvað með sagnfræðilegt gildi í svona vinnu eins og Arnór er að leggja á sig?

“Hvað varðar sagnfræðilegt mikilvægi þá er það nú svo að í allri sagnfræðilegri/byggingarsögulegri umfjöllun er vísun í heimildir undirstaðan. Það er hinsvegar spurning um hvort gera eigi þær kröfur til bloggsíðu Arnórs. Hann gefur sig ekki út fyrir að vera sérfræðingur í þessu efnum heldur gerir þetta sér og öðrum til skemmtunar og um leið fræðslu.”


Fréttamaður Landpóstsins tekur undir orð Hönnu Rósu að hér sé á ferð áhugaverð síða sem gaman er að lesa og skorar jafnframt á Akureyringa, sem og auðvitað aðra, að renna í gegnum síðu hans því að allir hafa gott af því að fræðast aðeins um sögu síns nánasta umhverfis.


Bloggsíða Arnórs

Minjasafnið á Akureyri


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir