"Ég vildi fara í fangelsi!"

"Ég vildi fara í fangelsi!" segir María Sigurrós Ingadóttir, 21 árs gamall hjúkrunarfræðinemi við Háskólann á Akureyri, sem þann 20. apríl 2007 var sakfelld fyrir líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn VaXon í Bolungarvík. Þar veittist hún að stúlku, sem stuttu áður hafði veitt henni hnefahögg inn á dansgólfi, og lamdi hana með krepptum hnefa á höfuðið. Dómur Héraðsdóms Vestfjarða er sem hér segir:

"Refsing hennar ákveðst sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 40.000 krónur og komi fangelsi í fjóra daga í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms að telja. Einnig ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað, sem nemur 10.000 krónum vegna áverkavottorðs."

María ákvað að borga ekki sektina og sitja þess í stað í fangelsi í 4 daga. En aldrei barst tilkynning um hvenær hún ætti að hefja afplánun sína. Þess í stað var henni tilkynnt þann 14. október 2008 s.l. að gert yrði fjárnám hjá henni fyrir sektinni. María hafði hvorki fjárráð né tíma til að standa í stappi við yfirvöld um þann rétt að fá að sitja í fangelsi þannig að hún borgaði sektina. En María er ekki sátt við þessi málalok.

"Ég vildi fara í fangelsi, ætlaði sko ekki að borga þessa sekt, það er ekkert mál að sitja í 4 daga í fangelsi!"

Þykir Maríu það afar undarlegt að henni hafi aldrei verið gert það ljóst að hún ætti það á hættu að gert yrði fjárnám ef sektin yrði ekki greidd. Taldi hún öruggt að hún myndi fara í fangelsi ef hún borgaði ekki og var hún meira að segja búin að búa sig undir það andlega og líkamlega.

Blaðamaður reyndi að leita svara hjá kennurum við lagadeild Háskólans á Akureyri um hvort brotið hafi verið á Maríu sem sakborningi. Svör hafa þó ekki enn borist en um leið og þau berast mun Landpósturinn birta þau svör ásamt viðbrögðum Maríu Sigurrósar við þeim.

Hægt er að nálgast dóminn í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir