„Hann var frábćr félagi ekki síđur en góđur pabbi“

Inga Dagný Eydal

Þeir eru fáir sem ekki hafa heyrt minnst á Ingimar Eydal. Hann var meðal þekktustu og vinsælustu tónlistarmanna landsins frá því upp úr miðri síðustu öld og héldust þær vinsældir óskertar á meðan hæfileika hans naut við. Síðastliðið haust hefði Ingimar orðið 75 ára og af því tilefni stóð Inga Dagný, dóttir hans, ásamt vinkonu sinni Margréti Blöndal, fyrir röð tónleika til að minnast hans.

Inga Dagný Eydal er Akureyringur í húð og hár, dóttir Ingimars Eydal og Ástu Sigurðardóttur. Hún á einn son, Ingimar Björn og er gift Böðvari Eggertssyni. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt, en stundar nú framhaldsnám í kennslufræðum við HA.

Inga hefur lengi verið viðloðandi tónlist, enda hefur hún ekki langt að sækja það. Hún byrjaði tónlistarferil sinn með hljómsveit Ingimars Eydal og starfaði með henni í 14 ár og svo með eigin hljómsveit í 6 ár. Í dag eru hennar aðaláhugamál einföld – „að eiga skemmtilegt og gott líf!“

Eins og Landpósturinn fjallaði um í vikunni, verður hinsta sýning Fjölskylduferðar á Skódanum sýnd á föstudaginn langa.

Aðspurð um hugmyndina að tónleikunum, er Inga meira en til í að segja frá. „Við Margrét Blöndal fórum að spjalla saman um væntanlegt 75 ára afmæli pabba í fyrra og komumst að því að okkur langaði til að heiðra minningu hans með því að deila gleðinni sem okkur fannst tengjast honum svo mjög. Okkur þótti því við hæfi að halda tónleika þar sem góð tónlist og skemmtilegar minningar færu saman og að fólk gæti um leið kynnst persónunni Ingimari svolítið betur“. Öll samsetning tónleikanna er í höndum Ingu og Margrétar, en mamma Ingu var þeim þó alltaf innan handar og aðstoðaði þær stöllur mikið við undirbúninginn.

Frá byrjun voru þær Inga og Margrét með hugmyndir um ákveðna flytjendur og má segja að allir þeirra draumar um það hafi ræst. „Sigurður Flosason leikur t.d. á blásturshljóðfæri af stakri snilld og okkur dugði ekkert minna en tveir píanóleikarar, Karl Olgeirsson og Gunnar Gunnarsson. Toppurinn er svo auðvitað að fá bæði Helenu Eyjólfsdóttur og Þorvald Halldórsson í lið með okkur, en þau fara á kostum í sýningunni“.

En hvaðan kemur yfirskriftin Fjölskylduferð á Skódanum? Svarið er sáraeinfalt; „Pabbi átti Skódabíla alla sína tíð og hélt mikið upp á þessa bílategund“. Síðasti skódinn sem var í notkun Ingimars er nú kominn á dvalarheimili gamalla bíla á Samgönguminjasafninu að Ystafelli, samkvæmt Ingu. „Hann nýtur þar elliáranna og verður varla í umferðinni í bráð. Hann heimsótti reyndar Akureyri í haust og aldrei að vita hvað gerist um páskana.“

En ætli allar þessar minningar hafi ekki kveikt á tárakirtlunum? „Jú, tárvotu augnablikin hjá okkur komu kannski eftir á þegar við fengum að sjá upptökur af tónleikunum, það var einfaldlega of mikið að gerast á meðan á þeim stóð, hjá okkur sem vorum á sviðinu. Mér skilst hins vegar að fólk í salnum hafi átt sín tárvotu augnablik, en þar var líka mikið hlegið!“

Samband Ingu og Ingimars var mjög gott. Þau voru miklir vinir og unnu lengi saman. „Við gátum hlegið ómælt saman að alls kyns vitleysu en svo var líka rætt um alvarlegri hliðar tilverunnar. Hann var bara frábær félagi ekki síður en góður pabbi“.

Að lokum er Inga spurð um móttökurnar í haust. „Móttökurnar voru vægast sagt frábærar, við fylltum Hof, þrisvar sinnum og allir virtust brosa út að eyrum að tónleikum loknum. Við hlökkum mikið til að endurtaka leikinn nú um páskana“.

Mæðgin að syngja


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir