"Móðir hvar er barnið þitt?"

Ég las skemmtilega smásögu sem vinur minn samdi.  Mér datt í hug að deila henni með ykkur.

Móðir hvar er barnið þitt?“ – Höfundur: Þorsteinn Haukur Harðarson

     Klukkan var orðinn eitt, Guðríður leit á klukkuna og hugsaði með sér að nú væru komnar 72 klukkustundir síðan að síðast spurðist til Jóhönnu, fimmtán ára gamallar dóttur hennar. Guðríður hafði gert lögreglu viðvart um hvarf dótturinnar kvöldið áður en lögregla hafði enn sem komið var ekki haft hendur í hári Jóhönnu. „Hvert gæti hún hafa farið?“ hugsaði Guðríður, sambandið milli þeirra mæðga hafði alltaf verið gott og það var ekki líkt Jóhönnu að láta sig hverfa.

     Á endanum gafst Guðríður upp á því að reyna að sofna og fór fram og fékk sér sígarettu. Í því hringdi síminn og Guðríður svaraði skjálfhent, „Afsakið hvað ég hringi seint“ sagði karlmannsrödd í símanum og hélt áfram „ég hringi hérna frá lögreglunni. Skólataska dóttur þinnar fannst hérna rétt hjá Hlemmi, og hún virðist þakin blóði, geturu komið og borið kennsl á töskuna?“ Guðríður missti símann í gólfið, hún hafði hingað til reynt að útiloka hugsanir um að eitthvað slæmt hafi komið fyrir dóttur sína en nú gat hún það ekki lengur, hún klæddi sig í flýti og keyrði upp á Hlemm.
        
     Þegar Guðríður kom að Hlemmi sá hún hvar þrír lögreglu bílar voru lagðir við bílastæði skammt frá. Nokkrir lögreglumenn stóðu fyrir utan bílanna og þegar að Guðríður nálgaðist sá hún að þeir stóðu yfir fallegri hvítri skólatösku. Það fór ekki á milli mála að þetta var skólataskan hennar Jóhönnu, hún hafði fengið hana að gjöf frá frænku sinni sem bjó erlendis og því átti enginn annar á landinu svona tösku. Guðríður rak upp skelfingarvein þegar hún sá fallegu hvítu skólatöskuna útataða í blóði „hvar er dóttir mín?“ hrópaði hún í gegnum tárin. Lögreglumennirnir gerðu hvað þeir gátu til þess að hughreysta Guðríði og sögðu henni að ekki væri vitað með vissu að blóðið væri úr Jóhönnu, taskan yrði send í rannsókn daginn eftir.
     Eftir að Guðríður kom aftur heim í blokkaríbúðina sína í vesturbæ Kópavogs lá hún lengi í rúminu og hugsaði. Henni fannst íbúðin svo einmannaleg þegar að Jóhanna var ekki á svæðinu. Þær höfðu búið þarna bara tvær saman síðan að eiginmaður Guðríðar og faðir Jóhönnu hafði látist langt fyrir aldur fram af völdum krabbameins þegar að Jóhanna var einungis tveggja ára. Að lokum náði Guðríður að sofna.

     Þegar hún vaknaði laust fyrir klukkan 11 morguninn eftir fékk hún sér morgunmat og sá sér til mikillar undrunar frétt um hvarf dóttur hennar á netmiðli þar sem einnig kom fram að taska hennar hafi fundist. „Þetta helvítis fréttapakk ber enga virðingu fyrir neinu og er strax komið með nefið í málið,“ blótaði Guðríður með sjálfri sér. Guðríður sat lengi og velti fyrir sér hvað hún ætti að gera yfir daginn, hún vildi ekki sitja ein heima og bíða eftir hringingu frá lögreglunni en hún treysti sér heldur ekki í vinnuna. Að lokum ákvað hún að kíkja í heimsókn til vinkonu sinnar.

     Hún var nýsest inn í bílinn og keyrð af stað þegar að síminn hringdi. Númerabirtirinn gaf til kynna að símtalið væri frá rannsóknarlögreglunni og Guðríður dró djúpt andann og svaraði „Sæl vertu þetta er Sigurður hérna frá rannsóknarlögreglunni, rannsókn fór fram á töskunni í morgun og ég er hræddur um að ég hafi bæði góðar og slæmar fréttir.“ Hugur Guðríðar fór á fullt á meðan hún beið eftir að lögreglumaðurinn héldi áfram „Þannig er mál með vexti að blóðið er ekki úr dóttur þinni, þetta er dýrablóð. En það fannst aftur á móti miði í töskunni sem við teljum vera skilaboð um að dóttir þín hafi verið numinn á brott.“ Guðríður sat stjörf í bílnum og kom varla upp orði „Ertu hérna ennþá?“ spurði lögreglumaðurinn. Hún svaraði honum og spurði hvað hafi staðið á miðanum. Lögreglumaðurinn sagði að líklega væri best að hún kæmi upp á lögreglustöð og skoðaði miðann sjálf.

     Hún brunaði eins og hratt og hún gat niður á lögreglustöð og þegar þangað var komið tók lögreglumaðurinn sem talað hafði við hana í símann á móti henni. Hann ákvað að aðvara hana áður en hún myndi lesa miðann „Miðinn er texti úr dægurlagi og því þarf ekki endilega að vera að hann tengist hvarfinu beint, en textinn finnst okkur vera grunsamlegur.“ Hann rétti henni miðann og við henni blasti texti úr þekktu lagi eftir Bubba Morthens.

„Móðir hvar er barnið þitt svona seint um kvöld. Móðir hvar er barnið þitt, þokan er svo köld.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir