,,Niðurskurðurinn er reiðarslag fyrir skólann

Sviðsett mynd af niðurskurði
Þingpallar Alþingis voru þéttsetnir af vísindamönnum síðastliðinn mánudag sem mótmæltu niðurskurði fjárlaga til Rannís, sjóði sem fjármagna vísinda- og rannsóknarstarf á Íslandi. 147 vísindamenn hafa skrifað undir ályktun sem send var á fjárlaganefnd þar sem niðurskurðinum er mótmælt. Samkvæmt frumvarpinu er skorið niður um 215 milljónir á næsta ári og verður meiri á hverju ári til ársins 2016. Rannís stýrir m.a. Rannsóknarsjóði, Tækniþróunarsjóði, Nýsköpunarsjóði námsmanna og hefur umsjón með fjölmörgum samstarfssjóðum á erlendum vettvangi.

,,Niðurskurðurinn er reiðarslag fyrir skólann, rétt eins og fyrir aðrar stofnanir sem leggja stund á grunnrannsóknir. Styrkir úr Rannsóknasjóði Rannís eru helsta fjármögnunarleið grunnrannsókna hérlendis, og raunar sú eina sem veitir styrki af þeirri stærðargráðu sem dugar til að fjármagna meistara- og doktorsverkefni frá upphafi til enda.“ segir Oddur Vilhelmsson prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri í samtali við Landpóstinn. 

Oddur Vilhelmsson
Oddur segir samkeppni vísindamanna í styrki sjóðanna sé veruleg og árangurshlutfall hafa verið milli 15 til 20% síðastliðin ár. ,,Ef niðurskurðurinn nær fram að ganga sýnist mér augljóst að Rannsóknasjóður muni ekki geta fjármagnað nema ef til vill fáein ný verkefni. Árangurshlutfallið, og þar með líkurnar á því að hljóta styrk í nýtt verkefni jafnvel þótt umsókn hafi verið metin fyrsta flokks, myndi því lækka enn frekar.“ segir hann og bætir við að þetta komi sér mjög illa fyrir Háskólann á Akureyri þar sem nú sé verið að efla starfið í kringum rannsóknartengt framhaldsnám.
 
,,Við viljum geta stundað rannsóknir sem fyllilega standast alþjóðlegan samanburð og þær eru óhjákvæmilega dýrar. Einkum í raun- og náttúruvísindum þar sem efnis- og aðfangakostnaður getur hæglega hlaupið á milljónum í einu sæmilega metnaðarfullu framhaldsnámsverkefni.“ segir Oddur en breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu liggja nú fyrir þinginu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra bindur vonir sínar við að niðurskurðurinn komi efnahagslífinu af stað svo fjárfestingar aukist sem hafi góð áhrif á hagvöxt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir