„Þetta er bara komið“

Menningarhúsið Hof. Mynd: menningarhus.is
Litla fjölskyldan mín skellti sér í  Menningarhúsið Hof í gærkveldi til að horfa á úrslit Útsvars í ár. Það var óneintanlega gaman að þessi tvö norðlensku lið skyldu vera komin alla leið í úrslitin og frábært að hafa möguleika á að sjá keppnina með eigin augum hér fyrir norðan.


Eins og sönnum Þingeyingi sæmir, hef ég alltaf verið ákaflega stolt af norður-þingeyskum uppruna mínum, svo tærum að þótt leitað sé aftur í aldir er helst að tilbreytingu í blóðnu sé hægt að rekja vestur í Suður-Þingeyjarsýslu en hreint ekki lengra en það. Ég hlakkaði því mikið til að sjá „litlu“ frænku mína og liðsfélaga hennar keppa fyrir hönd Norðurþings í þessum skemmtilega spurningaleik. Þrátt fyrir að hafa búið á Eyjafjarðarsvæðinu í rúman áratug, reiknaði ég einfaldlega með að sitja hjá frændfólkinu og hvetja okkar þingeyska fólk. Börnin mín eru meiri Þingeyingar en Eyfirðingar. Svona líka hreinræktuð í móðurættina og auk þess fengu þau fjórðung frá föður sínum svo það fer ekki á milli mála. Þessu hef ég haldið mjög á lofti allt frá fæðingu þeirra, en  í gærkveldi kom berlega í ljós að blóðbönd og saga vega ekki endilega þyngra en átthagatengslin....

Við mættum í Hof á tilsettum tíma og þar blasti við röð út undir dyr. Starfskona hússins stóð þar brosmild og kurteis meðan hún vísaði til vegar: „Þetta er Akureyrarröðin og Norðurþingsröðin er inni“. Ég tók stímið inn ganginn til að leita að frændfólkinu, en krakkarnir mínir stoppuðu og þurftu ekki lengra inn í hús -  þau höfðu fundið sína röð. Hmmm. Þetta var ekki alveg í samræmi við það sem ég hafði hugsað mér. Reyndi að sannfæra þau: „Amma er örugglega í hinni röðinni krakkar“. Og? Ekki sáu þau nokkurt samhengi í því að þótt amma þeirra væri í vitlausri röð að þau þyrftu að vera þar líka. Þau voru tvö, ég var ein og atkvæðagreiðslan hafði farið fram. Akureyrarröðin skyldi það vera. Eins og það væri ekki nóg þá höfðu krakkarnir fengið hvatningarspjöld við innganginn. Skyndilega fann ég mig því sitjandi Akureyrarmegin í salnum og mér á hvora hönd voru glaðbeitt afkvæmi mín sem þrátt fyrir allt sitt þingeyska blóð veifuðu spjöldum sem á stóð: Áfram Akureyri.
Ja, lengi skal manninn reyna!

En að þessari ættfræðilegu nálgun slepptri, sem og hálfkæringslegu gríni um nágrannaríg, þá varð þetta hið mesta dásemdarinnar kvöld. Nágrannar standa nefnilega alltaf saman þegar á reynir og Hilda Jana  Akureyrarmær hitti algjörlega naglann á höfðuðið þegar hún sagði áður en keppnin hófst að stemningin hér fyrir norðan væri svolítið á þann veg að fólk segði einfaldlega: „Þetta er bara komið“.

Norðausturland vann Útsvar í ár. Þannig var það bara. Áhorfendur klöppuðu fyrir því sem vel tókst til hjá báðum liðum og samúðarsúkk fór einnig um salinn þegar eitthvað gekk ekki upp. Til dæmis var leikur Akureyringanna frábær og snilld að sjá skælbrosandi Norðurþingskeppendur klappa fyrir þeim, eftir að hafa sjálfum gengið brösuglega við leikinn.

Það er alltaf gaman að vera Þingeyingur og frábært að fulltrúar þessa landmikla en fámenna sveitarfélags í Þingeyjarsýslum skyldi sigra Útsvarskeppnina í ár en í gærkveldi var þó mest af öllu ótrúlega gaman að vera Norðlendingur.


Þórný Barðadóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir