A – B – C eða L –M - N -O- P. Hvað á að kjósa?

Alltaf gott að kunna stafrófið!
Í gær, á næst síðasta degi vetrar, fór ég að kjósa.  Það er svo sem ekkert  merkilegt við það að fara að kjósa, og þó, auðvitað er það stórmerkilegt að nýta atkvæðisrétt sinn, í lýðræðisþjóðfélagi, sem oftast er bara á fjögurra ára fresti til


sveitastjórnakosninga, það er alltaf fastbundið og eins á það að vera með alþingiskosningar, nema þingið sé rofið, eins og gerðist núna í janúar s.l.
Eins og allir vita þá verða kosningarnar núna á næsta laugardag, þann 25. apríl, ekki nema þrír dagar þangað til, en það varð ekki ljóst fyrr en síðasta föstudag, hvort Lýðræðishreyfingin, listi Ástþórs Magnússonar, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, með listabókstafinn P, fengi að bjóða fram í Reykjavíkurkjördæmunum, en hann hefur staðið í miklu stappi vegna þess að það var álitamál, hvort listar hans væru gildir.  En sem sagt Lýðræðishreyfingin mun því bjóða fram í öllum sjö kjördæmunum eins og hinir flokkarnir sex, en það eru gömlu góðu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Framsóknarflokkur, Frjálslyndiflokkur og Vinstrihreyfing-grænt framboð og annar nýr flokkur, Borgarahreyfingin með listabókstafinn O.  Þar er í forsvari Herbert Sveinbjörnsson, en sá  sem þekktari er, er Þráinn Bertelson, rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri.  Hann hefur komið fram fyrir Borgarahreyfinguna í fjölmiðlum.  Þetta er það sem boðið er uppá og það er ekki seinna vænna en að fara að ákveða sig, en það hefur heldur ekki mátt vera miklu fyrr sem hægt hefur verið að kjósa utankjörstaða, þegar það var svona lengi óvíst með öll framboðin og stafina.
Þegar kosið er utankjörstaða,  því að ég var auðvitað að kjósa þannig, af  því að ég verð í Borginni í fermingu um helgina, þá eru ekki kjörseðlar með öllum flokkunum, og nöfnum þeirra sem á  listunum eru og það gefur augaleið að þá er heldur ekki hægt að raða nöfnum upp á nýtt eða strika einhver nöfn út, en það má kjósandi gera við þann flokk sem hann ætlar að kjósa og kýs.  Þó ég segi sjálf frá, þá hef ég gert það og fengið heljar “kikk” út úr því, þótt það hafi dugað ansi skammt.
Nú hafa fregnir borist af því að margir ætla að sýna óánægju sína með flokka og fólkið í stjónmálunum með því að skila auðu á kjördag og það er svo sem alveg sjónarmið út af fyrir sig og  í raun miklu betra og sterkara finnst mér að mæta og skila þá auðum kjörseðli heldur en að sitja aðgerðarlaus heima og kannski enn fúlli út í allt og alla.  Að mínu mati er kjósandinn samt að nýta kosningarétt sinn og það er eitt að grunnréttindum samfélagsins að hafa kosningarétt og nota hann þegar það má.
En það eru allir þessir bókstafir sem kjósandinn þarf að kunna skil á til að kjósa utankjörstaða.
Ég hef nú einhvern tíman áður kosið utankjörstaða og mig minnti að það væri mikið mál.
Núna var það alveg nóg mál.  
Fyrst er farið í biðröð og þegar röðin er komin að viðkomandi er persónuskilríkjum framvísað og nú  er nóg að hafa einhvers konar kort, Debetkort eða jafnvel Kreditkort og það er tekið gilt, og svo er samt smá tækni tekin með í dæmið, eins og t.d. er prentað út úr tölvu eyðublað með nafni og fleiri upplýsingum um einstaklinginn og  síðan á kjósandinn að skrifa undir  og staðfesta það að hann er að kjósa utan kjörstaða og fær þá umslag sem á að skrifa á bæði að framan og að aftan, þá færir stúlkan,  í dag var þarna stúlka, kannski eru stundum karlmenn í þessu starfi líka, upplýingarnar af blaðinu  inn í bók, eins og gamaldags fundargerðarbók og þá loksins  fær kjósandinn atkvæðaseðilinn og annað umslag, í gær var tvennt af öllu, því að kjósa á um sameiningu Akureyrar og Grímseyjar.  Þegar hér er komið sögu er farið inn í kjörklefann og þar á einstaklingurinn í baráttu um hvað á að kjósa, þótt ég gefi ekkert upp hvernig ég  kaus í gær, þá var það  alveg nógu erfitt að átta sig á öllum stöfunum.  Þarna eru stimplar með þeim bókstöfum sem allir flokkar sem eru í framboði hafa á sínum listum og við eigum að taka viðkomandi staf og stimpla á kjörseðilinn, þá er um að gera að hafa réttan staf í hendi.  Þá er bara best að hafa yfir í huganum gömlu  góðu vísuna sem við lærðum í bernsku, þegar við vorum að læra stafrófið og oft er líka notuð þegar verið er t.d. að leita í símaskrá  og raulað  við geysifallegt lag eftir sjálfan Mozart,
Stafrófsvísu:
A, b, c, d, e, f, g;
eftir kemur h, í, k,
l, m, n, ó, einnig p,
ætla ég q þar standi hjá.
 
R, s, t, u, v eru þar næst,
x, ý, z, þ, æ, ö.
Allt stafrófið er svo læst
í erindi þessi lítil tvö.
(Gunnar Pálsson í Hjarðarholti)

Á hinn kjörseðilinn eigum við annað  hvort að segja, ég meina skrifa,  já eða nei eftir því hvort þú vilt sameiningu eða ekki.
Þarna er alls ekki gott að eyða of miklum tíma, sérstaklega þegar svona margir eru í biðröðinni eins og  var í gær og margir stafir að velja, þegar ég  með valkvíða á háu stigi.  En eitt verð ég að nefna, það er hálfgert listaverk á borðinu inn í kjörklefanum, þar hefur fólk verið að æfa sig að stimpla, því að þarna eru bókstafir stimplaðir út um allt og í öllum “stellingum” ef svo má segja.  Virkilega flott og kjósandann langar bara til að bæta um betur og auka við listaverkið.
Svo þegar átakastundinni í kjörklefanum er lokið er komið fram  og þá á að setja réttan kjörseðil í rétt umslag að skrifstofustúlkunni sjáandi, líma aftur umslagið, vel og vandlega og loksins er komið að því að stinga umslaginu – atkvæðinu - í kjörkassann.  Vá þá er þetta búið!  Vonandi er eitthvað vit í þessu öllu.   

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir