Ábyrgð og virðing

Mynd af redbubble.net

Af hverju langar þig í gæludýr?

Hefurðu efni á því að eignast gæludýr? Ertu til í að binda þig dýrinu næstu árin? Ertu í húsnæði sem býður upp á dýrahald? Ertu tilbúin/nn í að passa upp á heilbrigði dýrsins með reglubundnum læknisheimsóknum o.s.frv.? Þú ættir að spyrja þig allra þessara spurninga og fleiri til ef þú ert að hugsa um að fá þér dýr.

Þegar þú færð þér dýr, ertu að binda þig næstu árin. Ef þú færð þér búrdýr, þá eru það hugsanlega ekki nema 2-7 ár, en ef þú kýst að fá þér kött eða hund ertu að binda þig til næstu 9-15 ára, jafnvel lengur. Það er þín ákvörðun að taka að þér þetta ábyrgðarhlutverk og það er á þína ábyrgð að sinna því sem skyldi. Dýrin biðja ekki um að koma inn í þennan heim og biðja ekki um að flytja til þín. Það eina sem þau biðja um er ást og umönnun og það er skylda okkar, sem tökum þessa ákvörðun, að uppfylla þessar grunnþarfir þeirra. Það má heldur ekki gleyma því hve mikið dýrin gefa okkur.

Það virðist vera mjög algengt að fólk fái sér dýr í hugsunarleysi. Það var bara svo krúttlegt...... allavega á meðan það var lítið, svo var það ekkert krúttlegt lengur og eiginlega bara frekar erfitt að hugsa um það.

Ef farið er inn á www.dyrahjalp.is eru þar yfir 50 dýr sem vantar ný heimili og það bara á þessari einu síðu, svo það er ekki einu sinni hægt að ímynda sér hversu mörg þau eru í raun. Því miður eru þetta allt of mörg dýr og ekki líklegt að þau komist öll á ný heimili og því miklar líkur á að stórum hluta þeirra verði lógað, jafnvel ungum og hraustum dýrum.

Það er sorgleg staðreynd, að á Íslandi getur hver sem er fengið sér gæludýr og er eftirlit með gæludýraeigendum lítið sem ekkert.

Það þykir ekkert tiltökumál að fá sér sætan hvolp og eiga hann í nokkra mánuði. Eftir þann tíma er hann orðinn frekar fyrirferðamikill og hugsanlega kostnaðarsamur og hvað er þá gert? Annað hvort er „auðvelda“ leiðin farin og hundinum hreinlega lógað, eða að  sett er inn auglýsing á netið um hund í heimilisleit, sem leiðir okkur aftur inn á www.dyrahjalp.is.

Það er ekki nema um einn og hálfur mánuður síðan  fjölmiðlar birtu frétt um hund sem fannst dauður á Þingeyri. Ekki var um að villast að hann hafði verið pyntaður og hann skilinn eftir til að deyja hægum dauðdaga. Hann fannst á floti í höfninni, bundinn við tvær bílfelgur og uppblásin dekk, þannig að hann gat haldið sér upp úr sjónum í einhvern tíma áður en hann hefur gefist upp og drukknað. Árni Stefán Árnason, sérfræðingur í dýrarétti segir að hundurinn hafi þjáðst mánuðum saman og yfirvöld fengið tilkynningar um það, en ekki brugðist við. Sinnuleysi er svo mikið og alvarlegt hér á landi, að fjöldi dýra þjást að ástæðulausu, eins og Árni bendir á. Það sem verra er, er að vísbendingar benda til þess að þessi einstaklingur sé kominn með nýjan hund og er mjög hætt við því að sá hundur fái að upplifa sömu kvalir og forveri hans.

Vonandi eru margir sem láta sig dýravernd varða og er þeim bent á að kynna sér Dýraverndunarsambandið, en ,,það er sameiginlegur vettvangur þeirra sem vilja stuðla að velferð dýra, villtra og taminna, búfjár og gæludýra“, eins og segir á heimasíðu þeirra, www.dyravernd.is.

Hugsið ykkur vel um áður en þið fáið ykkur gæludýr og ef þið eruð í þeirri stöðu að verða að gefa frá ykkur eða selja gæludýr, í guðanna bænum, kynnið ykkur þann sem ætlar að taka við þeim!

Katrín Eiríksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir