Ađ byrja í háskóla

Mynd: www.haskoladagurinn.is

Ég er nemandi á fyrsta ári í nútímafræði og hef verið plataður tvisvar til að taka þátt í kynningu á minni deild fyrir hönd Háskólans á Akureyri. Það er allt gott og blessað en þegar ég var að kynna í seinna skiptið og það var lítið að gera hjá mér (það eru því miður fáir sem spyrja út í nútímafræði) þá fór ég að pæla í háskólakynningum og hvernig það er að byrja í háskóla.

Ég hef byrjað tvisvar í háskóla, haustið 2010 byrjaði ég í mannfræði í HÍ og svo seinasta haust byrjaði ég í HA. Ég fór á háskóladaginn áður en ég útskrifaðist úr menntaskóla en hafði litla hugmynd um hvað ég vildi læra, ég held að ég hafi samt verið búinn að ákveða að það myndi vera einhver félagsvísindi. Þannig að ég er að rölta um HÍ með vinum mínum á háskóladeginum að spjalla um verðandi lífsákvarðanir þegar ég sé guðdómlega sjón. Ég man ennþá augnablikið þegar ég kom á aðra hæð Odda þar sem félagsvísindadeild HÍ var að kynna nám sitt og ég bar augum mennska gyðju sem stóð hjá skilti sem á stóð 'Mannfræði'. Ég skildi vini mína eftir og dreif mig til hennar (ég gæti hafa hrint konu sem var að kynna bókasafnsfræði úr vegi mínum, ég er ekki stoltur af því) og ég náði að tala aðeins við hana um mannfræði. 

Ég byrjaði sem sagt í mannfræði af því að það var svo falleg stelpa að kynna námið. Nei ég er ekki sá gáfaðasti. 


En þetta var smá útúrdúr en hann sýnir samt að þessar háskólakynningar skipta máli. Þegar ég var að kynna HA á háskóladeginum núna í ár áttum við að deila út allskyns dóti eins pokum, lyklakippum og blöðrum en þó aðallega bæklingum svo að fólk gæti kynnt sér námið við HA. Einn bæklingurinn bar heitið 'Háskólanemi í einn dag'. Þessi bæklingur var að kynna þá leið sem er í boði fyrir verðandi nema við HA þar sem þeir geta setið tíma, talað við kennara og nemendur og kynnst skólanum áður en þeir byrja í námi. Þetta hljómar rökrétt og sniðugt. Ég verð hinsvegar að vera á móti þessu.


Þegar maður byrjar í háskóla þá á maður að vera hræddur. Maður á að vera villtur. Maður á ekki að þekkja neinn. Maður á að vera stressaður í nokkra daga áður en maður mætir og maður á að spá of mikið í hverju maður ætlar að vera fyrsta daginn. Maður á að mæta í kynningu þar sem það eru tvö sæti milli allra. 

Þessi ótti er nauðsynlegur því að vonandi gerir þessi ótti þig nógu berskjaldaðan til að heilsa einhverjum. Á fyrstu vikum í háskóla myndast oft vináttur sem endast að eilífu og ég tel að það sé að einhverjum hluta þessum ótta að þakka. 

Boðskapur þessa pistils er þá svohljóðandi:

Ekki fara í nám bara af því að það er falleg stelpa eða strákur að kynna það(auðvitað væri samt alveg gaman að lesa pistil eftir tvö ár þar sem einhver segir frá hávaxna stráknum með taglið sem kom viðkomandi í nútímafræði, manni má dreyma).

Ekki kynna þér háskólann sem þú ert að byrja í of mikið. Manni líður ekki vel í háskóla nema að maður vinni fyrir því. Mættu, lærðu að rata og eignastu vini.


Aðalsteinn Hugi Gíslason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir