Að hlusta eða ekki hlusta

Vinur í raun (Mynd: HA)
„Mamma, þú ert ekkert að hlusta á mig, meir að segja kötturinn er að hlusta á mig, en ekki þú.“ Ég rankaði við mér og leit upp úr blaðinu og horfði yfir eldhúsborðið á fjögurra ára son minn sem sat þar fremur brúnaþungur. Mikið rétt, kötturinn sat á næsta stól og horfði stóreygur á drenginn, hann hafði greinilega verið að hlusta með meiri athygli en ég.

 

Ég fann hvernig samviskubitið náði tökum á mér. Auðvitað vill maður hlusta á börnin sín, en í dagsins önn vill það oft verða svo að maður er ekki alveg að standa sig í því hlutverki. Ég held ég sé orðin einhverskonar sérfræðingur í því að hlusta á börnin mín með öðru eyranu á meðan ég reyni að jamma og jánka á réttu stöðunum. En þessi taktík mín er greinilega ekki að virka neitt sérlega vel fyrst að jafnvel yngsti sonurinn sér í gegnum þetta hjá mér.


Samviskubitið virðist vera fastur fylgifiskur foreldrahlutverksins. Ég hugsa að ég sé ekki ein um það að fá samviskubit yfir ýmsum hlutum hvað varðar foreldrahlutverkið og samskipti við börnin mín. Maður gerir sitt besta en vill alltaf standa sig betur og er duglegur við að velta sér upp úr einu og öðru sem betur mætti fara. Kannski ætti maður frekar að taka annan pól í hæðina og horfa fremur á það sem vel hefur tekist.


Það væri satt best að segja ekki svo vitlaust að hugsa þetta á sama hátt og ég er alltaf að reyna að brýna fyrir syni mínum að gera; maður getur ekki gert betur en sitt besta.


Og á meðan svo er ætti ég kannski að vera þakklát fyrir köttinn, hann hlustar þó alla vega þegar ég er ekki að standa mig.

Hlíf Arnbjargardóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir