Af hverju ekki að valhoppa?

Mynd: ialoap.com
Það er gaman að valhoppa. Ég hef aldrei séð mann sem valhoppar þegar hann er reiður, sár eða vonsvikinn. Við tengjum valhopp við hamingju og sakleysi og þar liggur styrkur valhoppsins. Í samfélagi okkar í dag er hinsvegar litið niður á valhopp. Maður kemst upp með það í leikskóla og kannski fyrstu bekkina í grunnskóla ef maður er nógu sætur. Síðan er farið að líta niður á þessa hegðun þegar maður eldist, en af hverju? Hefur þú valhoppað upp á síðkastið? Ég prófaði það nýlega eftir langa pásu frá valhoppi og það var dásamlegt. Ég ætla að reyna að lýsa ferlinu og hugsanagangi mínum á meðan þetta stóð yfir.

Undirbúningur fyrir fyrsta valhopp: Er ég að fara að gera þetta? Kannski er ég ekki valhoppari, jæja prófum þetta.

Eftir fyrsta valhoppið: ..Þetta var gaman. Og auðvelt.

Þriðja valhopp: Af hverju er ég farinn að brosa?

Fimmta valhopp: Djöfull er ég góður í þessu. Tilhvers að vera að labba?


Eftir fimmta valhoppið missti ég mig algjörlega og get ekki lýst hugsanagangi mínum betur en að þetta hafi verið hrein ánægja.


Ég mæli hiklaust með því að fleiri fari að temja sér að valhoppa. Ég ábyrgist að það mun verða ca. 25% aukning í hamingju fólks þegar fólk kemur þessu í vana.
Auk þess sem mannleg samskipti myndu byrja á mun jákvæðari nótum. Í staðinn fyrir að labba hokinn í baki að vini sínum til að heilsa, hvernig væri það ef vinir myndu valhoppa að hvor öðrum til að heilsast?Samskiptin myndu byrja á brosi og fólk væri með smá blóð í æðunum, það hlýtur að vera betra.


Ég geri mér þó grein fyrir því að allir munu ekki byrja að valhoppa á morgun en við getum unnið þetta í smærri skrefum.

Næst þegar ég sé einhvern valhoppa þá ætla ég að samgleðjast viðkomandi í staðinn fyrir að líta niður á hann eins og samfélagið segir að sé ásættanlegt, hvað með þig?


Aðalsteinn Hugi Gíslason
Valhoppari

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir