Af hverju er ég skyldug í sjálfboðavinnu? Um FTG0170

mynd: inmagine.com

Stundum spyrja krakka foreldra sína erfiðra spurninga um af hverju þau þurfa að gera hitt og þetta. Til dæmis: af hverju þarf ég að fara út með ruslið? eða af hverju á ég að vaska upp? Stundum svara foreldrarnir: af því að ég segi það! eða af því að þú hefur gott af því að læra heimilisstörfin. Bæði svörin eru að sjálfsögðu rétt því börn eiga að gera það sem foreldrarnir segja þeim og börn hafa gott af því að læra heimilisstörfin.

Ég held þó að réttasta svarið við þessum spurningum sé: vegna þess að þegar margt fólk býr saman á heimili gengur það best fyrir sig ef allir hjálpast að og leggja sitt af mörkum. Þannig verður heimilið eins gott og mögulegt er.

Þegar ég spurði sjálfa mig spurningarinnar: af hverju þarf ég að mæta á félagsvísindatorg án þess að fá það metið til eininga? varð fátt um svör. Netið gaf mér svarið: af því að við erum að hjálpa þér við að velja námsleið og velta fyrir þér hugsanlegu framtíðarstarfi. 

Það svaraði ekki spurningu minni enda er ég alvön því að fólk út um allar trissur ætli að „hjálpa“ mér með hitt og þetta. Sérstaklega fólk sem er að selja eitthvað, það ætlar ótrúlega oft að hjálpa mér að líta betur út eða líða betur. Ég er ekki vön því að taka þessum tilboðum um hjálp án fyrirvara svo ég ákvað að kanna málið aðeins betur.

Næsta skref var að senda tölvupóst til Ágúst Þórs Ágústssonar, umsjónarmanns félagsvísindatorgsins, og biðja hann um að segja mér hver væru rökin fyrir því að ég ætti að mæta þarna í það sem ég túlka sem sjálfboðavinnu. Ágústi vafðist ekki fingur um lyklaborð og sendi mér um hæl afrit af bréfi deildarforseta til nemenda sem hafði verið sent nemendum 26. september s.l. Þar segir að tilgangurinn með torgunum sé sá að nemendur fái tækifæri til að fræðast um margvíslegar og oft óvæntar hliðar á þeim fræðum sem þeir leggi stund á og þeim störfum sem fólk með svipaða menntun gegnir ásamt því að fá tækifæri til að spyrja og taka þátt í umræðum. Torgin veiti þessi tækifæri gegn þeirri einu kröfu að mæta.

Ég verð að viðurkenna að þetta svaraði heldur ekki spurningunni minni sem snérist um það hvers vegna ég þyrfti að mæta en ekki af hverju ég hefði gott af því að mæta. Svari Ágústs fylgdi einnig boð um viðtal á skrifstofunni skyldi ég hafa þörf fyrir að ræða þetta mál betur. Það boð þáði ég með þökkum og skoppaði af stað stuttu seinna. Þar tók Ágúst vel á móti mér og sýndi fullan skilning á því að ég þyrfti að fá svörin betur útlistuð.

Fyrst útskýrði hann fyrir mér að það væri alls ekki svo að ég gæti litið á einkunnir mínar, einingar og að lokum B.A gráðu sem laun fyrir þá vinnu sem ég væri að inna af hendi. Þannig virkaði það kannski á framhaldsskólastiginu en þegar á háskólastig væri komið horfði málið öðruvísi við. Með því að taka þá ákvörðun að hefja nám við skólann hefði ég gengist inn á það að sækja þau námskeið sem skólinn teldi mér fyrir bestu að sækja, óháð einingum. Skilningur minn er semsagt sá að gráðan sem ég útskrifast með ber ekki aðeins vitni um að ég hafi lokið 90 einingum í einhverjum ákveðnum fögum heldur einnig að ég hafi hlotið akademískt uppeldi.

Ég var nú ekki alveg að átta mig á þessu og fannst svarið, sem hljómaði í mínum eyrum dálítið eins og „af því að ég segi það“, ekki vera nógu fullnægjandi svo ég bað Ágúst að útskýra þetta aðeins betur fyrir mér. Þá fór hann yfir það með mér hvað það er gott fyrir fólk í háskólanámi að fá aðgang að gæðafyrirlestrum á borð við þá sem HA býður upp á og hvernig þetta styrkir mann á allan hátt í námi. Ég mótmælti því alls ekki og sagði að ég hefði sjálf mikinn áhuga á, og væri vön því í mínu undangengna háskólanámi að sækja fyrirlestra utan námskeiða eins mikið og tíminn leyfði. En hins vegar skildi ég ekki hvers vegna ég væri skikkuð til að sækja ákveðna fyrirlestra í stað þess að hafa val um það sjálf hvernig ég nýtti mér þau tækifæri sem það að vera nemi í háskóla býður mér upp á.

Þá var það sem ég og Ágúst fórum virkilega að skilja hvort annað. Hann útskýrði það fyrir mér hvernig það að byggja upp háskóla í jafn litlum bæ og Akureyri væri flókið og krefjandi verkefni. Það væri eitt að hafa háskóla en annað að hafa góðan háskóla sem er lifandi og gefandi akademískt samfélag. Eitt af því sem gerir háskóla að góðum háskóla eru fyrirlestrar á borð við þá sem HA býður upp á í nokkuð miklu magni. Í upphafi skólans voru fyrirlestrarnir örfáir og þeir sem sóttu þá einnig sárafáir. Staðreyndin er sú að fyrirlesurunum er ekki greitt fyrir framlag sitt því ekki fæst til þess fjárveiting. Það er hreinlega ekki hægt að bjóða þeim upp á að halda fyrirlestrana fyrir aðeins örfáar hræður enda er þá ólíklegt að margir hefðu áhuga á að taka þátt.

Þarna var ég loksins komin með svarið við spurningunni minni. Ástæðan fyrir því að ég er skyldug til að mæta á félagsvísindatorgið er sú að þannig legg ég mitt af mörkum til þess að byggja upp akademískt samfélag við HA. Þegar ég skrái mig til náms í skólanum gengst ég inn á það að vera hluti af háskólasamfélaginu og í því felst annað og meira en það að ná fimm í öllum námskeiðum.

Af því að það er nú oft svoleiðis að góð svör leiða af sér enn fleiri spurningar er ég strax komin með næstu spurningu í hugann sem líklega verður þó erfiðara að finna svar við en þessari síðustu. Hún er sú, hvort nemendum í háskóla sé virkilega ekki treystandi til að vilja nýta menntunartækifæri sín til fulls og leggja sitt af mörkum til háskólasamfélagsins án þess að þeim sé skipað fyrir verkum eða að þau fái borgað fyrir það? 

Svari nú hver fyrir sig! 

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir