Áfram Ísland í blíðu og stríðu

Íslenska handbolta landsliðið hefur lokið þátttöku sinni á EM í Noregi. Niðurstaðan er 11. sæti.

Það er skemmst frá því að segja að liðið olli gríðarlegum vonbrigðum fyrir áhugamenn um handbolta landsliðið, sem höfðu gert sér vonir um að Ísland kæmist í undanúrslit og myndi spila til verðlauna.

Markmiðið hjá Alfreði og strákunum var einmitt það að ná verðlaunasæti og það var alveg raunhæfur möguleiki en því miður gekk það ekki upp að þessu sinni. Hverju eða hverjum er um að kenna veit ég ekki og ég er ekki nógu mikill sérfræðingur til að fara að þykjast að geta sagt til um hvað fór úrskeiðis, því læt ég aðra um það. En ég hef alls ekki misst trúna á landsliðinu og geri það seint, ég veit hvað þessir strákar geta og þeir hafa gefið mér margar ótrúlega góðar stundir og margar erfiðar, en svona er boltinn, stundum ganga hlutirnir upp, stundum einfaldlega ekki.

En það er enginn ástæða til að örvænta og leggjast í volæði. Ísland er komið í forkeppni fyrir Ólympíuleikana í sumar, þar leika þeir í sterkum riðli í Póllandi ásamt heimamönnum Pólverjum, Argentínu, og annaðhvort Noregi eða Svíþjóð. Tvö efstu liðin fara áfram og komast á Ólympíuleikana í sumar sem haldnir verða í Kína. Því er ljóst að verkefnið framundan er erfitt, finna þarf nýjan landsliðsþjálfara og liðið þarf að fara að smella saman og spila sem ein heild og ekki væri verra að menn fengu að spreyta sig meira með sínu félagsliði en raun ber vitni. En þetta er vel hægt, íslenska liðið getur á góðum degi unnið öll þessi lið og vel það, á slæmum degi eigum við að vinna Argentínu örugglega. Það má ekki gleyma því að þó árangurinn á þessu móti sé slakur, þá var sama lið hársbreidd frá undanúrslitum á HM í Þýskalandi í fyrra, þar sem við töpuðum sorglega á móti Dönum með einu marki. Það kemur mót eftir þetta mót og vonandi er botninum náð, nú rífum við okkur upp og komumst vonandi á Ólympíuleikana þar sem allt getur skeð og væri flott að kveðja Ólaf Stefánsson úr landsliðinu með eitt stykki medalíu. Ég hef fulla trú á liðinu segi bara ÁFRAM ÍSLAND!!! 

Þröstur Ernir Viðarsson

 

                                        


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir