Atvinnumennirnir okkar - Árni Þór Sigtryggsson

Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Árni Þór Sigtryggsson

Fæðingardagur: 13.janúar 1985

Núverandi lið: EHV Aue (Þýska B-deildin)

Leikmannaferill: Þór, Haukar, Granollers, Akureyri Handboltafélag, Rheinland, Bittenfeld, TSG Ludwigshafen-Friesenheim. Aue.

Landsleikir: 4

Mynd: Aue

Árni Þór Sigtryggsson hefur farið víða á löngum atvinnumannaferli sínum en hann spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki í 2.deildinni á Íslandi með Þór árið 2001, þá 16 ára gamall. Ári síðar var Árni orðinn lykilmaður í liði Þórs og á sínu síðasta tímabili með liðinu, árið 2005 var hann valinn efnilegasti leikmaður Íslandsmótsins. Sama ár var hann valinn Íþróttamaður Þórs. Í kjölfarið færir hann sig um set og leikur með Haukum þar sem hann sló í gegn og varð markahæsti leikmaður liðsins á sínu fyrsta tímabili með Hafnarfjarðarliðinu sem lenti í 2.sæti í deild og bikar það ár.

Eftir tvö ár hjá Haukum reyndi Árni fyrst fyrir sér í atvinnumennskunni þegar hann samdi við spænska úrvalsdeildarliðið Granollers. Eftir eitt ár á Spáni ákvað Árni að snúa aftur heim til Akureyrar og leika með liði Akureyri Handboltafélags. Hann var í lykilhlutverki hjá liðinu í tvö ár en samdi svo við þýska úrvalsdeildarliðið Rheinland sumarið 2010. Hann lék með liðinu í eitt ár en færði sig svo til Bittenfeld og þaðan til Friesenheim en Árni leikur nú með B-deildarliðinu Aue og hefur gert frá árinu 2013. Hann hefur skorað 21 mark í 12 leikjum á tímabilinu en liðið situr í 4.sæti og á því góðan möguleika á að komast upp í úrvalsdeildina.

Þjálfari Aue er Rúnar Sigtryggsson, bróðir Árna, en Rúnar átti farsælan feril sem leikmaður og varð meðal annars Evrópumeistari með spænska liðinu Ciudad Real árið 2003. Rúnar lék að auki yfir 100 landsleiki með íslenska landsliðinu.

Landsliðsferill Árna hefur hinsvegar ekki náð sömu hæðum en hann hefur aðeins leikið fjóra A-landsleiki. Árni á reyndar fjöldann allan af leikjum fyrir yngri landslið Íslands og varð til að mynda Evrópumeistari U-18 ára landsliða árið 2003.

Sjá einnig

Atvinnumennirnir okkar - Hallgrímur Jónasson

Atvinnumennirnir okkar - Arna Sif Ásgrímsdóttir

Atvinnumennirnir okkar - Oddur Gretarsson

Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson

Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason

Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Þór Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir