Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason

Atvinnumennirnir okkar er nýr liður á Landpóstinum en hér munum við gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Arnór Atlason

Fæðingardagur: 23.júlí 1984

Núverandi lið: St. Raphael (Franska úrvalsdeildin)

Leikmannaferill: KA, Magdeburg, FCK, AG, Flensburg, St. Raphael.

Landsleikir: 169

Mynd: St. Raphael

Arnór Atlason var aðeins tvítugur að aldri þegar hann gekk í raðir þýska stórliðsins Magdeburg sem þá var stýrt af Akureyringnum Alfreði Gíslasyni. Arnór hafði slegið í gegn með KA liðinu en árið 2004 var hann til að mynda valinn besti leikmaður Íslandsmótsins, efnilegasti leikmaður mótsins, besti sóknarmaðurinn og var markahæstur. Arnór hefur allar götur síðan leikið í hæsta gæðaflokki í evrópskum handbolta en hann spilar nú með franska úrvalsdeildarliðinu St.Raphael sem situr í 4.sæti deildarinnar þegar þetta er skrifað.

Arnór hefur á ellefu ára atvinnumannaferli sínum leikið í Þýskalandi, Danmörku og nú í Frakklandi. Hann lék í sex ár í Danmörku og vann þrisvar til gullverðlauna í dönsku úrvalsdeildinni, einu sinni með FCK og tvisvar með AG.

Þá hefur Arnór verið í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu undanfarinn áratug en hann hefur skorað 391 mark í 169 A-landsleikjum og að auki lagt upp fjöldann allan af mörkum fyrir liðsfélaga sína. Hann var í stóru hlutverki á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 þegar Ísland vann til silfurverðlauna en Arnór skoraði meðal annars fjögur mörk í úrslitaleiknum gegn Frökkum. Tveimur árum síðar var Arnór svo markahæsti leikmaður Íslands á EM í Austurríki þegar liðið vann til bronsverðlauna.

Arnór á ekki langt að sækja handboltahæfileikana þar sem faðir hans, Atli Hilmarsson, var mikil skytta á árum áður og lék yfir 100 landsleiki fyrir Íslands hönd. Atli hefur einnig getið af sér gott orð sem þjálfari og þjálfaði meðal annars Arnór á sínum tíma hjá KA.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir