Atvinnumennirnir okkar - Aron Einar Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Aron Einar Gunnarsson

Fæðingardagur: 22.apríl 1989

Núverandi lið: Cardiff City (Enska B-deildin)

Leikmannaferill: Þór, AZ Alkmaar, Coventry, Cardiff City.

Landsleikir: 55

Aron Einar

Aron Einar Gunnarsson var 16 ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Þór í 1.deildinni og hélt ári síðar í atvinnumennsku í Hollandi þar sem hann samdi við AZ Alkmaar. Aron lék aðallega með unglinga- og varaliði félagsins á þeim tveim árum sem hann var í herbúðum félagsins en hann kom við sögu í einum aðalliðsleik. Þess má til gamans geta að knattspyrnustjóri AZ Alkmaar á þessum tíma var Louis van Gaal, núverandi knattspyrnustjóri Man Utd.

Þegar Aron var nýorðinn nítján ára gamall var hann keyptur til enska B-deildarliðsins Coventry.  Hann sló í gegn á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu og var valinn leikmaður ársins af stuðningsmönnum félagsins. Þegar samningur hans við Coventry rann út sumarið 2011 gekk Aron til liðs við Cardiff City. Þar hefur Aron stimplað sig inn sem einn af lykilmönnum félagsins. Aron hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í ensku úrvalsdeildinni árið 2013 og skoraði fyrsta úrvalsdeildarmark í sögu félagsins þegar hann skoraði eitt mark í 3-2 sigri á Man City. Cardiff féll engu að síður úr úrvalsdeildinni og leikur nú í ensku B-deildinni en Aron hefur unnið sér inn sæti í byrjunarliðinu að nýju eftir að hafa þurft að verma varamannabekkinn í upphafi tímabils eftir að hafa glímt við meiðsli á undirbúningstímabilinu.

Aron hefur leikið 55 landsleiki fyrir Íslands hönd og er landsliðsfyrirliði í dag. Með landsliðinu hefur Aron tekið þátt í miklum uppgangi sem nær hápunkti næsta sumar þegar hann mun leiða landsliðið út á völlinn í lokakeppni EM í Frakklandi en það verður í fyrsta skipti sem íslenska karlalandsliðið tekur þátt í lokakeppni stórmóts.

Aron þótti einnig efnilegur handknattleiksmaður á sínum yngri árum og var aðeins 15 ára gamall þegar lék hann sinn fyrsta meistaraflokksleik í handbolta þar sem Þór vann sigur á Val í Íþróttahöllinni á Akureyri. Aron ákvað hinsvegar að velja fótboltann en bróðir hans, Arnór Þór, valdi handboltann og hefur stimplað sig inn í íslenska landsliðið á undanförnum árum.

 

Sjá einnig

Atvinnumennirnir okkar - Sveinbjörn Pétursson

Atvinnumennirnir okkar - Sigtryggur Daði Rúnarsson

Atvinnumennirnir okkar - Árni Þór Sigtryggsson

Atvinnumennirnir okkar - Hallgrímur Jónasson

Atvinnumennirnir okkar - Arna Sif Ásgrímsdóttir

Atvinnumennirnir okkar - Oddur Gretarsson

Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson

Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason

Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Þór Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir