Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson

Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Haukur Heiðar Hauksson

Fæðingardagur: 1.september 1991.

Núverandi lið: AIK (Sænska úrvalsdeildin)

Leikmannaferill: KA, KR, AIK.

Landsleikir: 3

Mynd - Allsvenskan

Sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta lauk á dögunum. Norrköping bar sigur úr býtum eftir hatramma baráttu við Gautaborg og AIK. Með liði AIK leikur Akureyringurinn Haukur Heiðar Hauksson en hann var á sínu fyrsta tímabili með liðinu og festi sig í sessi í stöðu hægri bakvarðar hjá sænska stórliðinu. Haukur spilaði 23 af 30 leikjum liðsins í deildinni.

17 ára gamall var Haukur Heiðar orðinn fastamaður í 1.deildarliði KA og var hann í lykilhlutverki hjá liðinu í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við KR í lok árs 2011. Haukur vann einn Íslandsmeistaratitil og tvo bikarmeistaratitla á þrem árum hjá KR áður en hann var keyptur til AIK í lok síðasta árs. Á síðasta ári sínu hjá KR var Haukur Heiðar valinn í úrvalslið Pepsi-deildarinnar af vefmiðlinum Fótbolti.net en Haukur hélt í kjölfarið til Svíþjóðar og gerði fimm ára samning við AIK.

AIK er stórveldi í sænskum fótbolta en félagið er staðsett í Stokkhólmi og hefur ellefu sinnum orðið sænskur meistari. Heimavöllur liðsins er stærsti íþróttaleikvangur Norðurlandanna, hinn stórglæsilegi Friends Arena, en hann tekur 50 þúsund áhorfendur í sæti og var tekinn í notkun árið 2009 en hann hýsir einnig landsleiki Svíþjóðar í fótbolta. Að meðaltali mættu 21 þúsund áhorfendur á leiki Hauks og félaga á nýafstaðinni leiktíð.

Haukar Heiðar lék sína fyrstu landsleiki í byrjun árs þegar hann lék vináttulandsleiki gegn Kanada og Eistlandi.  Hann bætti svo þeim þriðja við í fyrradag þegar Ísland beið lægri hlut fyrir Slóvökum 3-1 en Haukur þótti standa sig einna best af íslensku leikmönnunum.

Sjá einnig

Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason

Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Þór Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir