,,Það þarf þorp til að ala upp barn", Rannsóknir um velferð og menntun barna.

 

Rannsóknir á vegum Háskólans á Akureyri

Börn eru vinsælt viðfangsefni rannsakenda. Líklega vegna þess að þau skipta okkur flest miklu máli. Það eru þau sem koma til með að taka við keflinu af eldri kynslóðinni. Þau taka við samfélaginu. Því er mikilvægt að samfélagið í heild taki höndum saman við að aðstoða þessi börn við að verða besta mögulega útgáfan af sjálfum sér.

Eitt af helstu einkennum nútímasamfélags í dag er þörfin til þess að rannsaka allt í þaula. Háskólinn á Akureyri er þar engin undantekning. Hann hefur frá því hann var stofnaður árið 1987 alltaf verið að stækka og dafna jafnt og þétt. Á vegum skólans eru birtar hinar ýmsu rannsóknir og greinar. Þessar rannsóknir eru eins ólíkar og þær eru margar ekki síst vegna þess að við Háskólann starfa ólíkir starfsmenn, en líka vegna þess að við skólann eru kennd þrjú megin svið, heilbrigðisvísindasvið‚ hug- og félagsvísindasvið og viðskipta- og raunvísindasvið. Við öll sviðin starfa sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum sem starfa margir við rannsóknir á vegum Háskólans á Akureyri. Rannsóknirnar takast því á við ólík viðfangsefni en hér á eftir verður fjallað um greinar sem snúa að börnum á einn eða annan hátt.

Byrjendalæsi í grunnskólum ,,Foreldrar eru himinsælir".

Eitt er það sem skiptir flesta foreldra miklu máli í daglegu lífi, það er velferð barnanna. Menntun þeirra og vellíðan skiptir gríðarlega miklu máli og á mikinn þátt í að móta þau í þær manneskjur sem þau koma til með að verða. Því var rætt við Hólmfríði Árnadóttur, sem er ein af sérfræðingum þróunarverkefnisins Byrjendalæsi sem var gefið út á vegum MSHA (Miðsöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri). Byrjendalæsi er aðferð í læsikennslu í fyrstu bekkjum grunnskólanna.  ,,Árangurinn hefur komið fram í fjölbreyttari kennsluháttum, aukinni ánægju kennara og nemenda og aukinni færni fleiri nemenda en áður. Komið er til móts við breiðari nemendahóp með nálgun aðferðarinnar", sagði Hólmfríður.

Nemendur eru almennt mun ánægðari og þeim þykir námið skemmtilegra en áður. Nemendur eru jafnari í námi og aðferðin hentar öllum börnum sama hversu langt í læsi þau eru komin. Þau fá aukið svigrúm til þess að vinna á eigin hraða og tækifæri til þess að tjá sig um upplifun og reynslu. ,,Verkefninu hefur verið vel tekið af öllum. Það sem helst skortir er að kennarar og stjórnendur tileinki sér og séu trúir vinnubrögðum Byrjendalæsis. Kennarar þurfa að helga sig aðferðinni, tileinka sér fjölbreytt vinnubrögð og starf í anda námsaðlögunar", sagði Hólmfríður.

Það dugir ekki til að kynna sér aðferðina lítllega og ætla síðan að starfa eftir henni á suma vegu en aðra ekki. Þá nær aðferðin ekki tilætluðum árangri. Aðferðin krefst mikillar vinnu stjórnenda og kennara og það þarf að gera ráð fyrir því þegar innleiðing aðferðarinnar er hafin í skólunum. En innleiðingin getur tekið allt að tíu árum. Stjórnendur virðast ekki gera ráð fyrir því. ,,Foreldrar eru himinsælir, nefna frekast skort á þekkingu á aðferðinni. Nemendur eru afar hrifnir, þeir upplifa að áhuga þeirra sé mætt, að þeir hafi val og eins er ýtt undir sköpun og fjölbreytni", sagði Hólmfríður.

nemendur
Nemendur við Oddeyrarskóla á Akureyri, sem hefur innleitt Byrjendalæsi. Mynd af oddeyrarskoli.is.

Það hefur því sýnt sig að aðferðin virkar á þann hátt að nemendur eru almennt jákvæðari þegar kemur að námi og líður almennt betur í skólanum. Þeir hafa meiri trú á sjálfum sér og upplifa sig síður utangátta í kennslustundum. Þeir kennarar sem eru farnir að tileinka sér aðferðir Byrjendalæsis af fullum krafti eru jafnvel farnir að færa þessa nálgun yfir á eldri nemendur líka, ekki bara yngstu tvo bekkina. ,,Ég sé fyrir mér að Byrjendalæsi eigi sér varanlegan sess í kennslu í framtíðinni. Kennarar sem hafa farið í gegnum ferlið, það er innleiðingu og nám í aðferðinni, vilja ekki snúa til baka (http://netla.hi.is/greinar/2013/ryn/011.pdf). Þeir telja vel haldið um innleiðingarferlið og starfslíkanið af hálfu MSHA en þeir eru óöruggir á vettvangi, það er þegar á hólminn er komið og beita þarf kennsluaðferðunum á vettvangi", sagði Hólmfríður. Það er því ljóst að stjórnendur grunnskólanna þurfa að gera ráð fyrir meiri tíma í innleiðingu aðferðarinnar og gera ráð fyrir að vinnutími kennara fari ekki eingöngu í kennslu heldur einnig í skipulag kennslunnar. Það er allt undir því komið að kennarar fái tækifæri til að undirbúa sig vel til að koma námsefninu til skila.

Aðferðin hefur nú þegar verið innleitt í 80 grunnskólum landsins. En misjafnt er hversu vel hefur tekist að halda þróun og vinnu áfram í skólunum. ,, Markmiðið er fyrst og fremst að koma Byrjendalæsi í alla grunnskóla landsins; fá kennara, foreldra og suma fræðimenn til að sjá og skilja jákvæðan tilgang þess og markmið. Að allir nemendur fái námsþörfum sínum mætt í almennri kennslu. Að læsisnám sé fjölbreytt, skapandi, gefandi og lærdómsríkt fyrir alla, líka kennara og foreldra", sagði Hólmfríður.

Skóli án aðgreiningar: Hvernig hentar það börnum með sérþarfir?

Í framhaldi af umfjölluninni um mikilægi menntunar og vellíðan barnanna komum við hér inná börn með sérþarfir. Þau þurfa á meiri aðhlynningu og aðstoð að halda. Skólastarfið þarf að gera grein fyrir því og starfa eftir einhverju ferli sem er ætlað til þess að aðstoða þessi börn. Hermína Gunnþórsdóttir er lektor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Doktorsritgerð hennar fjallaði um skóla án aðgreiningar. Ritgerðin greinir frá rannsókn á hugmyndum grunnskólakennara um hugmyndafræðina að baki skóla án aðgreiningar.

Þeir sem hafa skrifað‚ eða eru að skrifa doktorsritgerð vita, að vinnan á bak við slíkar ritgerðir er gríðarleg. Það þarf að safna gögnum og gera heljarinnar rannsóknir en það getur einnig verið töluvert ferli að finna út um hvað ritgerðin á að fjalla. Hugmyndin að taka skóla án aðgreiningar kviknaði hjá Hermínu eftir að hún hafði búið í þremur löndum‚ Íslandi‚ Hollandi og Þýskalandi, með börnin sín þrjú þar sem hún tók eftir því hvernig skóli án aðgreiningar virkar mismunandi eftir löndum. Þótti henni bæði hugmyndin, um slíka skóla sem og framkvæmdin vera með ólíkum hætti í þessum löndum og víðar. Hún hafði skoðað þetta fræðasvið lítillega í meistaraprófsverkefni sínu og þar með var áhuginn á að kanna þetta betur vakinn.

Holland varð fyrir valinu til samanburðar við Ísland þar sem Hermína hafði búið þar í fjögur ár og kynnst þar menntakerfinu í gegnum börnin sín. Hún sagði að það mætti segja að hollenska skólakerfið sé algjör andstæða þess íslenska hvað varðar flokkun nemenda. Sonur Hermínu er fæddur með klofinn hrygg en þrátt fyrir það hefur hann ekki neinar námslegar sérþarfir. Það kom þó ekki í veg fyrir að Hermína þyrfti að hafa töluvert fyrir því að hann fengi að vera í almennum skóla í Hollandi. Eftir töluvert stapp tókst að hafa hann í almennum skóla í fjögur ár. Eftir það flutti fjölskyldan til Þýskalands þar sem sonur Hermínu var einnig í almennum skóla. Í dag er hann á þriðja ári í Menntaskólanum á Akureyri.

Eftir að hafa aflað sér gögnum og skoðað skólakerfin í þessum löndum var ljóst að niðurstöður ritgerðarinnar voru á margan hátt áhugaverðar. Hermína hafði‚ fyrir ritgerðina‚ skrifað einn bókarkafla um niðurstöðurnar fyrir Holland og Ísland sem og tvær erlendar tímaritsgreinar. Hún er hlynnt hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar því það sé í samræmi við hugmyndir okkar umnútímaskóla. Það sem færri vita hins vegar er að skóli án aðgreiningar er opinber menntastefna á Íslandi. Það sé hins vegar ekki nóg að stefnan sé til staðar til þess að skóli geti kallað sig skóla án aðgreiningar. Allt skólastarfið þarf að einkennast af hugmyndafræðinni. Að sögn Hermínu var ferlið í kringum vinnslu þessarar doktorsritgerðar bæði áhugavert og lærdómsríkt. Það sýndi að við Íslendingar erum ekki komin eins langt og við kannski teljum okkur vera hvað varðar skóla án aðgreiningar.

Jafnrétti í skólum ,,Línurnar hafa skerpst mjög, sérstaklega meðal drengja".

Jafnrétti er viðfangsefn sem á að skipta okkur öll máli. Þetta viðfangsefni er svo rótgróið í samfélaginu að reynst hefur erfitt að breyta því til hins betra. Breytingarnar gerast þó, hægt og bítandi. En breytingarnar verða ekki nema við höldum umræðunni á lofti og mikilvæg og árángursrík leið til þess er að fræða unga fólkið okkar strax frá upphafi.

Árið 2010 birti Arnfríður Aðalsteinsdóttir doktorsritgerðina sína í samvinnu við Háskólann á Akureyri, en hún var afrakstur meira en fjögurra ára rannsókna á jafnrétti í skólum landsins. Rannsóknarvinna Arnfríðar hófst áður en verkefnið var síðan sett af stað árið 2006 af fulltrúum bæjarins. Verkefnið var unnið í tíu skólum á Akureyri og í Reykjavík.

Niðurstöður verkefnisins sýndu fram á að nemendur, bæði strákar og stelpur, öðluðust dýpri skilning á jafnrétti. Stelpurnar öðluðust jafnvel meiri skilning en strákar. Þrátt fyrir það, bentu niðurstöðurnar einnig til vandamála þegar kom að viðhorfum um hlutverk kynjanna í húsverkum. Þær bentu almennt til þess að það væri rótgróið í samfélaginu að þau væru kvennaverk. Þetta er eitthvað sem á sér djúpar rætur í samfélaginu okkar og er nauðsynlegt að vinna frekar í því til þess að hægt sé að breyta þessum viðhorfum. En til þess að það sé hægt, er mikilvægt að skólar landsins haldi áfram kennslu sinni á jafnrétti í skólunum og nýti niðurstöður verkefnisins til þess að sýna fram á mikilvægi þess og jafnvel til þess að hægt sé að dreifa boðskapnum enn lengra.

Til þess að meta ástandið í dag, fimm árum eftir verkefnið, höfðum við samband við Ágúst Frímann Jakobsson skólastjóra í Naustaskóla á Akureyri. Við báðum hann um upplýsingar um það hvernig verkefnið hefði haft áhrif á viðhorf nemenda til jafnréttis og hvernig jafnréttiskennsla gengi. Hann sagðist ekki muna eftir neinum ákveðnum atriðum sem hefðu breyst eftir verkefnið, jafnrétti væri samt sem áður mikilvægur hluti af námsáætlun og starfi skólans. ,,Stjórnendur bæjarins eru líka alltaf í nánu sambandi við okkur um þetta og úthluta okkur verkefni tengt þessu og passa upp á að þessu sé framfylgt", sagði Ágúst.

Rætt var um ráðandi hlut kvenna innan veggja heimilisins. Ágúst var sammála því að skólar ættu að eiga sinn þátt í að útrýma slíkri hlutdrægni. Ágúst minntist hins vegar á að að hans mati hefðu línurnar skerpst töluvert hjá ungu fólki hin síðari ár og bætti við: ,,Mér finnst línurnar, sérstaklega á meðal drengja, hafa skerpst mjög frá því sem áður var og við höfum þannig unnið að jöfnun”, sagði Ágúst.

Hvað varðar þær áherslur sem að skólinn hefur til þess að stuðla að frekari jöfnuði lagði Ágúst mikla áherslu á að jafnrétti væri hluti af öllum tímum og starfsemi skólans, án þess þó að hlutirnir væru sérstaklega merktir “jafnréttisfræðsla". Börnunum væri frekar gert það ljóst í umræðum og á fundum að þau væru öll jöfn. ,,Ég trúi því að það sé mjög mikilvægt og þetta er eitthvað sem við erum stöðugt að fókusa á í gegnum kennslustundir sem og bekkjarfundi þar sem við látum nemendur setja sig í spor annarra og fá þau til að vera meðvituð hvert um annað sem manneskjur á jafnréttisgrundvelli”, sagði Ágúst. Einnig voru rædd þau framlög sem jafnrétti gæti fært samfélaginu og hversu lengi það tæki að ná því.

,,Það væri gott að hafa fleiri karlkyns kennara. Það er eitthvað sem mann dreymir um; að allir myndu geta haft jöfn tækifæri á hvaða starfi sem er og ég held að við stefnum í rétta átt hvað varðar jafnréttissamfélag. Við þurfum bara að halda baráttunni áfram og upplýsa almenning um málefnið”, sagði Ágúst.

Viðhorf kvenna til sársauka í fæðingu ,,Sannkallaður hamingjuverkur”.

Í gegnum tíðina hafa kvikmyndir gefið áhorfendum ákveðna hugmynd um hvað fæðingar geta verið hættulegar og hvað gríðarlega mikið getur farið úrskeiðis í fæðingu.  Í mörgum myndum virðast mæðurnar nær dauða en lífi með tilheyrandi öskrum og drama. En er þetta raunveruleikinn?  

Sigfríðar Inga Karlsdóttur er ljósmóðir og dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Hún hefur starfað sem ljósmóðir í 24 ár og unnið að mörgum rannsóknum sem tengjast ýmsum þáttum fæðingar. Árið 2013 birti hún meðal annars rannsókn og svo á viðhorfum kvenna til sársauka í fæðingu. Þessi rannsókn var eigindleg, þar sem tekin voru viðtöl við fjórtán konur, bæði frumbyrjur og fjölbyrjur, sem höfðu átt heilbrigða meðgöngu og gengið í gegnum eðlilega fæðingu. Þær voru meðal annars spurðar um hvernig þær hefðu búið sig undir fæðinguna, hvernig þær hugsuðu til sársaukans á meðan og eftir fæðingu stóð og hvaða áhrif þær töldu að þessi sársauki hefði haft á þær eftir fæðingu.                                                                      

Hér má sjá barn í móðurkviði
Hér má sjá barn í móðurkviði. Mynd úr safni.

Niðurstöður rannsóknanna bentu m.a. til þess að konurnar hefðu almennt jákvætt viðhorf til sársauka í fæðingu þrátt fyrir að þær litu á þetta sem erfitt og strembið verkefni. Þær voru jafnan á því að sársaukinn í fæðingunni hefði styrkt þær andlega og líkamlega. Konurnar áttu það sameiginlegt að þær voru duglegar að afla sér upplýsinga bæði á netinu og hjá ljósmæðrum í mæðravernd. Einnig hefðu þær undiðbúið sig vel andlega. Sigfríður segir að það hafi hjálpað þeim að hugsa til þess að aðrar konur hefðu gengið í gegnum þennan sama sársauka.  Konurnar hefðu farið með því hugarfari inn í fæðinguna að þær ætluðu að gera sitt besta og nota þau verkfæri það er að segja lyf og verkjastillingar, sem þær þyrftu á að halda og þeim stæði til boða til að hjálpa þeim í gegnum fæðinguna.

Í rannsókn Sigfríðar kemur fram að konunum fannst hjálpa að horfa á styrkleika sína, gera það besta úr þeim og og taka hlutunum eins og þeir væru. Sigfríður sagði að margar vildu lýsa þessari upplifun eins og fjallgöngu upp á Súlur.  Þá þarf að undirbúa sig andlega og líkamlega, hafa til nesti og búa sig eftir veðri.  Þegar lagt er af stað í ferðina byrjar erfiðið hægt og rólega, svo kemur erfiðasti kaflinn. Þegar þú ert kominn á toppinn hefur þú unnið sigur. Sigfríður vill þó benda á að það séu ekki allar konur sem upplifi sársaukann vel í fæðingu en þær konur sem hún tók viðtal við í þessari rannsókn hefðu ekki viljað fara í keisaraskurð til að losna við þennan sársauka, verkinn sem þær töldu sannkallaðan hamingjuverk og sem endaði með stórkostlegum verðlaunum. Bendir Sigfríður á að með keisara séum við einungis að fresta sársaukanum því oft fylgja miklir verkir eftir keisara og konur eru lengur að ná sér.

Samkvæmt svörum kvennanna gerðu þær sér grein fyrir því að fæðingar í kvikmyndum eru sviðsettar og ættu lítið sameiginlegt með raunverulegri fæðingu.

Mikilvægi rannsókna

Rannsóknir eru okkur öllum og samfélaginu í heild sinni mikilvægar. Þær hjálpa okkur að skilja bæði flókna og einfalda hluti betur. Þær veita okkur yfirsýn yfir það sem gengur vel og það sem betur mætti fara. Þær geta veitt okkur upplýsingar sem gæti annars verið flókið að komast yfir sjálfur. Því er mikilvægt að stofnanir á borð við Háskólann á Akureyri leggi sitt af mörkum við þessa rannsóknarvinnu. Við flesta háskóla starfa nefnilega margir merkir og reyndir fræðimenn á hinum ýmsu sviðum. Þeir leggja sitt af mörkum við að betrumbæta samfélagið og er Háskólinn á Akureyri þar engin undantekning.

Katrín Lilja Kolbeinsdóttir

Kolbrún Ósk Baldursdóttir

Kristína Björk Arnórsdóttir

Tomas Olason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir