Flýtilyklar
Háskólanum á Akureyri refsað fyrir góðan rekstur
Í hvaða átt er ríkisstjórnin að stefna? Hvert er þeirra framtíðar markmið þegar kemur að fjárframlögum til háskóla í landinu? Er verið að mismuna skólum eftir landssvæðum og taka höfuðborgina fram yfir önnur svæði?
Fjárframlög til háskólanna hafa verið mikið í umræðunni eftir að þau voru gerð opinber síðasta haust. Um var að ræða aukin fjárframlög upp á 617 milljónir króna, sem skipta átti á milli háskóla landsins. Þá hafa margir gagnrýnt þessi framlög opinberlega vegna mismunun sem gerð var á milli skólanna. Ólafur Halldórsson, framkvæmdarstjóri Háskólans á Akureyri segir að hann hefði gjarnan viljað að hlutdeild HA hefði verið meiri en 10 milljónir af þessum 617 milljónum. ,,Þá hefði svigrúm verið víðara, ef meira hefði fengist út úr þessum reikningum og væri það til þess að auka fjölbreytni og gæði í starfi".
Dreifing fjárframlaga
Háskóli Íslands fær 298,6 milljónir af heildarupphæðinni en 257 milljónir fara til Háskólans í Reykjavík. Landbúnaðarháskólinn fær síðan 17,9 milljónir en Háskólinn á Akureyri aðeins 10,3 milljónir. Eins og sjá má á þessum tölum fer meirihlutinn til Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur. Háskólinn á Akureyri er ekki með mikið lægra hlutfall en Háskólinn í Reykjavík, af háskólanemum landsins, en engu að síður fá háskólar höfuðborgarsvæðisins ansi stóran hlut af upphæðinni. Háskólinn á Akureyri er þriðji stærsti háskóli landsins en fær einungis 2% af heildarupphæðinni.
Hér hlýtur að vera um mismunun að ræða en hvað ætli það geti verið sem útskýrir þennan gríðarlega mun á milli skólanna?
Gert ráð fyrir fækkun nemenda
Í bréfi frá Menntamálaráðuneyti segir að í tillögum fyrir fjárlagafrumvarp 2015 sé gert ráð fyrir fækkun nemenda á komandi árum og stjórnvöld áformi að styrkja háskólakennslu með því að nýta það svigrúm sem fækkunin gefur og hækka framlög á hvern nemenda. Hingað til hefur vaxandi fjöldi ársnemenda í háskólum ekki verið mætt með auknum fjárframlögum og mætti því gera ráð fyrir að ársnemendur í háskólum séu fleiri en fjárlög gera ráð fyrir. Í upprunalegu tillögunni áður en þessar 617 m. kr. koma inn var ekki gert ráð fyrir að þessi mismunur yrði jafnaður. Í Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur fjölgaði ársnemum talsvert árið 2013 og 2014 og urðu fleiri en gert var ráð fyrir í fjárframlögum fyrir þau ár. Þessar 617 m. kr. voru ætlaðar til þess að borga fyrir þá umfram nemendur. Í HÍ hafa lengi verið talsvert fleiri nemendur en greitt hefur verið með en aukningin til HR er ný af nálinni. Þær 617 milljónir sem fara aukalega í fjárlög til háskólanna eru því ætluð fyrir umfram nemendur í hverjum skóla.
Takmarka þarf aðgengi nemenda í HA næsta haust
Í fundargerð háskólaráðs HA í desember síðastliðnum, var lýst yfir áhyggjum með hlutdeild skólans í núverandi frumvarpi til fjárlaga 2015. Á fundinum kom meðal annars fram að Háskólinn á Akureyri hefur uppfyllt allar opinberar gæðakröfur, sýnt mikla ráðdeild í rekstri og greitt upp að fullu hallarekstur fyrri ára. Í núverandi fjárlagafrumvarpi þá nýtur skólinn ekki þess þegar kemur að því að fjármagn sé aukið til háskólastigsins að nýju. Háskólinn á Akureyri er í dag með rúmlega 100 nemendaígildi umfram fjárveitingar og allt stefnir í að sá munur aukist á næsta ári. Án aukningar í fjárframlögum, umfram þá lágmarksaukningu sem komin er nú þegar vegna kostnaðarhækkana, er ljóst að takmarka verður aðgengi nemenda að námi á haustmisseri 2015 sem og takmarkað námsframboð.
Upphaflega einungis ætlað HÍ og HR
Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar segir að þegar breytingartillaga Menntamálaráðuneytisins um 617 miljónir til háskólanna barst meirihluta fjárlaganefndar, hafi þetta fjármagn einungis átt að fara til HÍ og HR. Að frumkvæði hjá meirihluta fjárlaganefndar hafi tillagan verið send í ráðuneytið með óskum um að allir háskólar fengju framlag úr þessum potti. Vigdís segir að Menntamálaráðuneytið þyrfti að svara því hvers vegna Háskólinn á Akureyri fengi ekki hærri upphæð en eftir ítrekaðar tilraunir fréttamanna bárust því miður engin svör þaðan.
Ábyrg stofnun tapar
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar Framtíðar, hafði orð á því að henni og þingmönnum kjördæmisins, sem þekkja vel til skólans, þætti þetta ósanngjörn mismunun. Nú hefði Háskólinn á Akureyri verið afar vel rekinn um árabil og tekist að greiða niður uppsafnaðan skuldahala. Það var krafa á skólana eftir hrun að bæta við sig nemendum. HA hefði væntanlega ekki getað tekið við fleiri nemendum og á sama tíma haldið rekstrinum innan fjárheimilda og átt afgang til að greiða upp gömlu skuldina. Það er því óneitanlega öfugsnúið að þegar Háskólarnir fái loksins aukafjármagn þá sitji HA eftir. Brynhildur segir rekstur skólans hafa verið til fyrirmyndar og hefur einnig orð á því að markmiðið sé að allar stofnanir reki sig innan fjárheimilda, hvort sem það eru skólar eða annað. Það sé þess vegna mjög mikilvægt að stjórnvöld sendi aldrei þau skilaboð að vel reknum stofnunum sé refsað fyrir árangurinn. T.a.m. hefur Landbúnaðarháskólinn lengi vel verið í skuld en honum hefur þó alltaf verið veitt aukin fjárframlög. Það er engin undantekning þetta árið þar sem að hann, eins og áður kom fram, fékk meiri fjárframlög heldur en HA. Í þessu samhengi mætti svo að orði komast að HA væri verið að refsa fyrir skynsamlegan rekstur, sem margir eru sammála um að sé ekki gott fordæmi fyrir aðrar menntamálastofnanir.
Stefnulaust fjárlagafrumvarp
Það virðist ekki vera nein sjáanleg regla sem á að fara eftir árlega varðandi fjárveitingar til háskólanna. Miðast fjárframlögin við nýnemafjölda? Munu þau kannski miðast við fjölda á skilum BA-ritgerða árið 2016? Háskólar landsins, nemendur þeirra og starfsfólk, krefjast svara við þessum spurningum, enda verður það að teljast mikilvægt að svara þeim. Með takmörkuðum fjárframlögum þarf skólinn að hlýta niðurskurði innbyrðis á mörgum sviðum, t.d. rannsóknarmisseri kennara og prófessora. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í þágu skólans, en þessi rannsóknarmisseri hafa ekki verið möguleg fyrr en nú, eftir hrunið 2008. Ef HA heldur áfram að fá jafn takmörkuð fjárframlög á komandi árum, eins og núna 2015, er hætt við því að rannsóknarmisserin leggist af.
Við nánari athugun á fjárlögum sem menntamálaráðherra gaf frá sér var ekki hægt að sjá að um einhverja skýra stefnu væri að ræða hvað varðar þessar umfram fjárveitingar og, eins og áður sagði, hefur ekki borið á neinum svörum frá Menntamálaráðuneytinu. Vigdís Hauksdóttir og Brynhildur Pétursdóttir höfðu báðar orð á því að menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, þyrfti að svara fyrir þetta reiknilíkan og þessa mismunun á úthlutun þess. Bæði kennarar við HA, sveitastjórnarmenn og nemendur hafa krafist svara hvers vegna það er svona mikill mismunur á fjárframlagi til þessara þriggja stærstu háskóla landsins en því miður fátt um svör.
Það verður ekki aftur snúið með fjárframlögin þetta árið en þá er spurningin hvað gerist næst.
Þarf Háskólinn á Akureyri að gera varúðarráðstafanir í fjármálum sínum og byrja að skipuleggja fjáraflanir fyrir komandi ár eða mun reiknilíkanið taka einhverja allt aðra stefnu 2016? Ef til vill hlýtur HA gjafmildari meðferð 2016 en þetta árið, þar sem að þetta fór svona eða ef til vill ekki.
Það þætti landsbyggðinni líklegast sterkur leikur, eins og sagt er á góðri íslensku, að menntamálaráðuneytið svari fyrir sig. Fortíðarinnar og framtíðarinnar vegna.
Ingibjörg Bergmann Bragadóttir
Ingólfur Stefánsson
Inga Hrönn Ólafsdóttir
Snævar Óðinn Pálsson
Heimildir
Hagstofa Íslands. (2014, desember). Tæplega 28% þjóðarinnar á aldrinum 25-64 ára
eingöngu með grunnmenntun árið 2013. Sótt 1. Mars 1015 af
http://www.hagstofa.is/Pages/95?NewsID=11067
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir