Háskólasamfélag nær og fjær

Egill P. Egilsson í faðmi fjölskyldunnar. Mynd: HG

Akureyri er þekktur skólabær og þykir einstaklega  fjölskyldu- og nemavænn. Nemar í Háskólanum á Akureyri hafa aðgengi að stúdentaíbúðum í stúdentablokkum víðs vegar um bæinn. Þær eru reknar af Félagsstofun Stúdenta á Akureyri eða FÉSTA. Fjölmörg fyrirtæki eru í samstarfi við Félag Stúdenta við Háskólann á Akureyri eða FSHA og bjóða stúdentum afslætti af þjónustu sinni; má þar nefna afslætti frá mörgum veitingastöðum og börum, gistingu frá gistheimilum og hótelum og einnig afslætti af klippingu og jafnvel bensíni. Fyrirtæki keppast því við að bjóða stúdentum góð kaup og kjör í bænum sem sýnir vel áhrifin sem stúdentar hafa á bæjarlífið á Akureyri. Frá því að Háskólinn á Akureyri var stofnaður fyrir 28 árum hefur hann vaxið og dafnað og orðið órjúfanlegur partur af bæjarlífi Akureyrar. Landpósturinn fór og athugaði hvernig reynsla mismunandi einstaklinga væri af skólanum og áhrifum hans á bæjarlífið.

Lotukennslan stór partur af náminu

Eydís Hentze er 35 ára gömul og búsett í Reykjanesbæ ásamt eiginmanni og fjórum börnum. Eydís stundar fjarnám í Sálfræði við Háskólann á Akureyri og segist gríðarlega ánægð með reynslu sína af skólanum. Nefndi hún sérstaklega að námslotur væru stór partur af náminu og að upplifun hennar af bænum væri mjög góð. „Mér finnst virkilega dásamlegt að koma í lotur. Nemendafélagið sér um einhverja viðburði fyrir fjarnemana. Háskólaafsláttur er víða og því hagstæðara en ella að fá sér hressingu með skólafélögum á þeim fjölmörgu veitingahúsum sem úr er að velja. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægur hluti námsins.“ Námsloturnar eru því stór partur fyrir fjarnema til þess að tengjast betur og kynnast. Einnig reynast þær nemendum vel til að kynnast kennurum sínum betur.

Heillandi að læra heima

Ástæðan fyrir því að Eydís valdi Háskólann á Akureyri var meðal annars vegna þess að henni fannst það hrífandi tilhugsun að geta stundað nám í sínum heimabæ. „Við hjónin eigum fjögur ung börn og maðurinn minn er vinnuveitandi. Því er mikilvægt fyrir okkur að nýta tímann vel og það finnst okkur best takast með fjarnámi“, segir Eydís. „þar sem ég á stóra fjölskyldu þá fannst mér mjög heillandi að geta setið heima hjá mér og lært og þurfa ekki að keyra bæja á milli. Eins hafði ég nær eingöngu heyrt jákvæða hluti um skólann.“ Ljóst er því að Háskólinn er góður valkostur fyrir fólk þegar velja skal fjarnám og góðar sögur fara af náminu.

 

Fjölskylduvænn bær

„Háskólinn á Akureyri hefur að nær öllu leyti farið langt fram úr mínum björtustu vonum; frábært og notalegt umhverfi, skemmtilegt nám og kennarar allt frá því að vera fínir upp í að vera frábærir”, segir Egill Páll Egilsson, 36 ára Húsvíkingur, sem fluttist til Akureyrar ásamt unnustu sinni, Birgittu Káradóttur, í leit að háskólamenntun. Í dag er Egill fjölmiðlafræðinemi á fyrsta ári, en Birgitta leggur stund á hjúkrunarfræði á þriðja ári. Saman eiga þau tvo stráka, 3 ára og 9 mánaða, og líður að eigin sögn ákaflega vel hér á Akureyri. „Bærinn er afar fjölskylduvænn, ekki of stór, ekki of lítill. Ég held að ég hefði ekki nennt að standa í þessu í Reykjavík, það er, að vera í námi með tvö lítil börn”, segir Egill sem viðurkennir þó blendnar tilfinningar gagnvart því að flytja lögheimili sitt í bæinn sem Húsvíkingar kalla í daglegu tali „skurðinn”.

Aftur í nám

Ástæðuna fyrir því að þau fluttust búferlum og fóru til Akureyrar var löngunin til að byrja í aftur í námi. „Það hafði alltaf blundað í mér að fara í háskóla frá því að ég hætti í framhaldsskóla í einhverju kennaraverkfallinu undir lok síðustu aldar”, segir Egill sem starfaði sem málari í 12 ár, þar af í 9 ár í Noregi. Það var þó ekki fyrr en hann rakst á auglýsingu um Háskólabrú Keilis, sem kennd er í samstarfi við Símey, sem að ákvörðunin um að leggja pensilinn á hilluna var tekin. Egill ákvað að klára stúdentspróf og ganga í háskóla. Ákvörðunin reyndist heldur betur afdrifarík. Birgitta hafði þá þegar hafið háskólagöngu sína frá Húsavík og lokið fyrsta árinu, en þegar leiðir þeirra beggja lágu í nám var strax tekin ákvörðun um að flytja fjölskylduna á stúdentagarðana á Akureyri. Aðeins tveimur vikum síðar bárust þeim þær gleðifregnir að þau fjölskyldan myndi fjölga um einn, því að Birgitta varð barnshafandi af yngri syni þeirra.

Mynd: Daníel Starrason fengin af vef www.unak.is

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason fengin af vef www.unak.is

Heillandi staðarnám

Fjarnám hentar ekki öllum og þykir sumum nauðsynlegt að mæta í skólann og læra. „Mig langar bara til að mæta og sjá fólkið og kennarana og gera sem mest úr þessum gamla draumi um að vera í námi”, segir Egill um ákvörðun sína að flytja og stunda staðarnám í staðinn fyrir fjarnám. „Barneignir hafa reyndar sett strik í reikningin [...] annað af tveimur börnum okkar er aðeins 9 mánaða og hefur því ekki verið í dagvistun. Við höfum þess vegna þurft að skiptast á að mæta í skólann og inn í þetta bætist svo verknám hjá unnustunni og þá hef ég verið hálfgerður fjarnemi á meðan”, segir Egill en bætir þó við að sá liti hafi verið að byrja hjá dagmömmu á dögunum. „Svo ég er því að njóta þess á ný að skombera um ganga skólans.“

Námið opnar nýjar dyr

Áður fyrr var nær eingöngu yngra fólk í námi en með tilkomu meðal annars Háskólabrúar Keilis ljúka fleiri fullorðnir námi og hefja háskólanám síðar á ævinni en tíðkaðist áður. „Mér líður ekkert kjánalega þó ég sé aðeins fullorðnari en svona gengur gerist hjá háskólanemum”, segir Egill með bros á vör. Hann mælir með Háskólanum á Akureyri og Akureyri sem fjölskyldubæ fyrir aðrar fjölskyldur. Akureyri er þekkt fyrir að taka einstaklega vel á móti fjölskyldufólki með góðu úrvali af leikskólum og grunnskólum. Framtíðin er björt og möguleikarnir margir. „Eins og staðan er í dag er unnusta mín að spá í að sækja um stöðu hjúkrunarfræðings á Húsavík að loknu sínu námi. En stefnan hjá okkur báðum er samt að fara í framhaldsnám og koma útlönd vel til greina. Við erum samt bæði þannig að við erum lítið fyrir það að meitla framtíðina of mikið í stein. Það á líka alveg eftir að koma í ljós hvaða dyr mér tekst að opna með náminu mínu. Eitt er þó alveg víst, við ætlum ekki að drepast á Akureyri”, segir Egill að lokum.

Borgin heillaði ekki

Ingibjörg Bermann Bragadóttir er 22ja ára fjölmiðlafræðinemi á fyrsta ári. Ingibjörg byrjaði fyrstu önnina sína sem staðarnemi en um áramótin hóf hún nám sem fjarnemi. Flest skólasystkini Ingibjargar fluttu til Reykjavíkur til að hefja nám en Ingibjörg kaus að vera á Akureyri. „Það heillaði mig ekki að fara í háskóla fyrir sunnan, því að borgin hefur aldrei heillað mig neitt sérstaklega. Til viðbótar er náttúrulega ekki kennd fjölmiðlafræði þar. Ég væri miklu frekar til í að búa út í París, þar sem ég bjó á síðasta ári og vera í fjölmiðlafræði þar. Í háskóla þar eða bara í fjarnámi frá HA fyrst að fjarnámið þar er jafn gott og raun ber vitni“, segir Ingibjörg.

Fjarnemi á Akureyri

Ingibjörg er búsett á Akureyri en kýs samt fjarnám fram yfir staðarnám. Fyrstu önnina tók hún í staðarnámi samhliða fullri vinnu. „Það fór ekki betur en svo að ég átti erfitt með að einbeita mér í tímum, ef að ég var ekki bara að reyna að halda mér vakandi. Ég komst í gegnum prófin en ákvað á seinni önninni að breyta þessu aðeins. Nú get ég hlustað á fyrirlestra heima og unnið flest verkefni í gegnu tölvuna. Þetta er rosalegur léttir, að finnast maður ekki alltaf knúin til þess að mæta og fá samviskubit þegar maður gerir það ekki“, segir Ingibjörg en bætir þó við „mér myndi ekki detta í hug að taka allan minn háskólaferil í fjarnámi en á þessu fyrsta ári, í þessum almenna grunn, finnst mér það í góðu lagi.“

Háskólanám er verðmæt reynsla

Ingibjörg er vön að fá á sig gagnrýni fyrir að vinna fulla vinnu meðfram skólanum. Margir gagnrýna það helst að hún sinni ekki skólanum eins vel og hún gæti gert ef hún einbeitti sér einungis að náminu. „Fyrir mér er […] þetta spurning um að gera eitthvað, ásamt því að láta drauma mína rætast. Svona er ég ekki að eyða heilu ári í að bara vinna svo ég geti flutt til útlanda aftur, sem er markmiðið, heldur er ég líka í skóla. Hvort heldur sem er að ég haldi áfram í skólanum eða ekki þá er þetta mjög verðmæt reynsla og ég er búin að læra helling sem að mun nýtast mér, bæði í akademísku lífi sem og í daglegu lífi.“

 

Akureyri Backpackers í göngugötunni. Mynd fengin af vef: http://www.akureyribackpackers.com/

Máttarstólpi í atvinnulífi á svæðinu

Geir Gíslason, eigandi Akureyri Backpackers, segir Háskólann á Akureyri vera einn af máttarstólpunum í atvinnulífinu á svæðinu og hann segist hafa mikla trú á honum. Hann telur skólann vera mjög nauðsynlegan til þess að mennta heimamenn og til að draga fleira fólk á staðinn. „Skólinn er mjög nauðsynlegur í ýmsum skilningi, bæði til þess að mennta okkar heimamenn en einnig til að draga fleira fólk á staðinn“, segir Geir. Það sé mikilvægt bæði vegna atvinnu og til að gæða bæinn meira lífi. Geir segir Háskólann á Akureyri vera mjög mikilvægan fyrir samfélagið og telur aðra atvinnurekendur í miðbænum vera sammála sér.

Fög sem skipta máli fyrir samfélagið

Hann segist þó vera eitthvað ósáttur með að tölvunarfræðin hafi verið tekin af námsskrá skólans, hún hafi fög sem að skipta miklu máli fyrir samfélagið og hann telur áhersluna vera of mikla á viðskiptagreinar, en að öðru leyti er hann mjög ánægður með starf skólans. Rannsóknastarfið sem að á sér stað í Borgum telur hann mjög mikilvægt og nefnir þar rannsóknarsetur fyrir ferðamálafræði og telur starfið efla atvinnulífið í bænum.

Jákvætt afsláttarkerfi

Geir segir að hann fái marga af erlendu nemendum skólans til sín, að þeir séu duglegir að mæta og halda ýmis uppákomur eins og til dæmis þorrablót sem að var haldi nýverið. Akureyri Backpackers er eitt af þeim fyrirtækjum sem bjóða námsmönnum upp á stúdentaafslátt í samstarfi við FSHA. „Það er bara gott að vera með gott samstarf við þessi félög“, segir Geir, spurður um samstarf sitt við FSHA. Námsmenn eru duglegir að  nýta sér afslættina sem að hann bíður upp á fyrir nemendur gegn því að sýna háskólaskírteini. Hann verður ekki mikið var við fjarnema í miðbænum. Hann telur afsláttar kerfi FSHA vera mjög jákvætt og að það dragi oftast að viðskipti.

 

Álit fólksins í bænum

Þegar heimamenn á Glerártorgi voru inntir álits á Háskólanum á Akureyri og tengslum skólans við bæjarlífið, kom í ljós að almennt var fólk með mjög jákvætt viðhorf til skólans. Fólk virtist flest vera mjög ánægt með að hafa háskóla á Akureyri og taldi að fólkið sem kæmi í bæinn til að sækja skólann lífga verulega upp á bæjarlífið. Ragnheiður Ólafsdóttir, 59 ára,  gekk í Háskólann á Akureyri á sínum tíma og stundaði þar bæði grunn- og framhaldsnám og hefur miklar mætur á skólanum. Aðspurð af hverju henni finnist skólinn mikilvægur fyrir bæjarlífið segir hún: „Hann eflir bara að menningu og stuðlar að flutningi fólks hingað til bæjarins.“

Aukin fjölbreytni í samfélaginu

Þegar að spurt var hvort skólinn hefði einhver persónuleg áhrif á líf fólksins voru svörin eðlilega mismunandi. Sumir höfðu sótt skólann sjálfir eða eiga maka sem höfðu sótt skólann. Aðrir gátu ekki tengst skólanum á persónulegan hátt af neinu tagi en höfðu samt sem áður bara gott um hann að segja. Sigurður Viðarsson, 39 ára, hefur enga persónulega tengingu við skólann en virðist sáttur með að hafa háskóla með svona fjölbreyttu námsframboði á Norðurlandi. „Ég held að það sé mjög gott, ekki endilega bara fyrir bæjarlífið heldur Norðurland yfir höfuð að hafa háskóla hérna. Ég held að þetta hafi ákveðna sérstöðu fyrir Norðurland“, segir Sigurður. Egill Heinesen, 32 ára, segist vera ánægður með að hafa háskóla á Akureyri en segir þó að námsframboðið mætti vera meira. „Það mætti vera aðeins meira framboð af námsbrautum, eins og tölvunarfræði og íþróttafræði“, segir Egill og aðspurður um áhrif skólans á bæjarlífið segir hann: „Það kemur fullt af fólki utan af landi í skólann og það er bara fjölbreytni af fólki.“

Mikilvægur atvinnulífinu

Háskólinn er stór partur af samfélaginu á Akureyri og hefur verið það allt frá stofnun skólans. Allir eru sammála því að hann er mikilvægur í atvinnulífinu og að hann eigi stóran þátt í því að draga að nýja íbúa. Fjarnemar segja margir það vera frábær reynsla að mæta í námslotur og staðarnemar lofa bæinn og skólann mikið. Margir flytjast búferlum í þeim tilgangi að stunda nám við háskólann. Atvinnurekendur í miðbæ Akureyrar eru sáttir með starf skólans og framlag hans til atvinnulífsins. Bæjarbúar eru almennt mjög ánægðir og finnst nemendur lífga uppá bæjarlífið. Skólinn er sagður efla menningarlíf bæjarins og að hann stuðli að fólksflutningi á svæðið. Almennt viðhorf fólks til skólans er jákvætt og allir virðast sammála því að hann er mikilvægur í atvinnulífi bæjarins.

 

Árni Gísli Magnússon

Bjarki Rafn Ágústsson

Freyja Búadóttir

Skúli Bragi Magnússon


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir