(Umferða)Miðstöð skólaþróunar

Lesið saman. Mynd af vef MSHA.

Miðstöð skólaþróunar er starfrækt í Háskólanum á Akureyri og tilheyrir hún hug- og félagsvísindasviði HA og starfa í nánum tengslum við kennaradeildina. Miðstöðin er sú stærsta sinnar tegunda hér á landi og hefur Birna María Svainbjörnsdóttir verið forstöðumaður miðstöðvarinnar frá árinu 2010. Innan miðstöðvarinnar starfa tíu sérfræðingar sem vinna með starfsfólki í leikskólum og upp í framhaldsskóla um land allt.

Miðstöðin býður skólum upp á ýmis námskeið, fræðslur og samstarf til þess að efla skólastarf og þróun. Skólaþróun er eitthvað sem fáir vita um eða eru að velta fyrir sér dagsdaglega en skiptir okkur öll í raun og veru miklu máli. Það er nærri þriðjungur þjóðarinnar sem stundar nám og vinnur við leik-, grunn- og framhaldsskóla landsins og er því mikill hagur fyrir land og þjóð að einhver þróun eigi sér stað í menntakerfinu.

Skólaþróun í 17 ár

Birna María SveinbjörnsdóttirMiðstöðin verið starfræk síðan 1998 og byrjaði þá sem lítil eining innan Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri en varð svo sjálfstæð eining innan Háskólans með eigin fjárhag og þarf að fjármagna reksturinn með útseldri ráðgjafavinnu.

Starfsfólk miðstöðvarinnar vinnur með þeim skólum sem óska eftir aðstoð og sérsníður þróunarverkefni að þörfum þeirra. Þar er unnið að frekari þróun á því starfi sem gott er og aðrir þættir bættir. Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk fær ráðgjöf og fræðslu og annað það sem þau þurfa og er slíkt metið í hverju tilviki.

Frá árinu 2002 hefur ráðstefnuhald verið fastur liður í starfsemi miðstöðvarinnar og snúa viðfangsefnin helst að mikilvægum þáttum í menntun og uppeldi og er leitast við að fá færustu sérfræðinga, bæði innlenda og erlenda, til samstarfs á hverjum tíma til að miðla þekkingu sinni og undirbúa jarðveginn fyrir frekari þróun.

Innan miðstöðvarinnar hefur orðið mikil uppbygging margvíslegrar þekkingar, t.d. um samskipti heimilis og skóla, lestrarkennslu, ritun og stærðfræðikennslu yngri barna, einstaklingsmiðaða kennsluhætti og fjölbreytta starfshætti í skólum. Þá er lögð áhersla á að starfa með starfsfólki skóla á vettvangi, við að þróa hugar- og starfshætti. Með fagleg vinnubrögð og hugarfar sem stuðlar að námsvitund, námshvata og hlutdeild allra í skólasamfélaginu að leiðarljósi.

Einnig stuðlar miðstöðin að því að efla nemendur í námi, sjálfstæðri hugsun og frumleika og kenna þeim fagleg og sjálfstæð vinnubrögð. Kennarar auka þekkingu með námskeiðunum og koma út með nýjar og sterkar kennsluaðferðir. Þannig eflast þeir sem kennarar i vinnubrögðum og samskiptum við nemendur. Það er mikið unnið með krökkunum í hópum til að efla samskipti og hópavinnu en einnig er komið að fullu afli til móts við einstaklingsþarfir.

Miðstöð skólaþróunar vinnur að ýmsum þróunarverkefnum sem hafa gildi fyrir alla skóla, nemendur og foreldra.


Tæplega 18 milljón króna samningur

Frá AkureyriReglulega sækir miðstöðin um styrki í endurmenntunarsjóði, háskólasjóð, til Sambands íslenskra sveitafélaga o.fl. en innkoman kemur að mestum hluta frá útseldri þjónustu. Í dag þjónar miðstöðin rúmlega helmingi skóla landsins. Annað hvort kaupa sveitafélögin þjónustu miðstöðvarinnar fyrir alla skóla sveitarfélagsins eða einstaka skóla, en samningarnir eru yfirleitt til eins árs í senn. Akureyrarbær hefur t.d. gert samning um alhliða starfsþróun í leik- og grunnskólum innan bæjarfélagsins og er sá samningur grundvöllurinn fyrir því að hægt er að reka miðstöðina í dag. Þannig fær sveitarfélagið aðstoð allra starfsmanna miðstöðvarinnar til að vinna að starfsþróun í skólum bæjarins.

Akureyrarbær ver um 18 milljónum króna á ári í starfsþróun í skólum bæjarins. Samkvæmt lögum ber skólum landins að ráða til sín sérfræðiþjónustu til stuðnings nemendum og kennurum í leik- og grunnskólum .

Á ferð og flugi um allt land

Jenný GunnbjörnsdóttirEin af sérfræðingum miðstöðvarinnar er Jenný Gunnbjörnsdóttir. Sérfræðingar hafa meðal annars það hlutverk að fara í skólana sem miðstöðin hefur gert samning við og vinna þeir mjög náið með skólatjórnendum og kennurum. Vegna þessa er mikið um ferðalög á starfsfólkinu og dvöl þeirra fjarri heimili og fjölskyldu er oft til lengri tíma og stundum allt upp í eina viku. “Eins og gefur að skilja eru starfsmenn miðstöðvarinnar á nokkrum ferðalögum um landið og nafnið umferðamiðstöð skólaþróunar þykir stundum réttnefni á vinnustaðnum okkar”, segir Jenný. Hún hefur á ferðalögum sínum lent í ýmsum ævintýrum eins og að sitja föst, ein í bíl, uppi á heiði seint um kvöld og fáir á ferli. Helstu verkefni starfsfólks miðstöðvarinnar auk Byrjendalæsis, eru innleiðing nýrrar aðalnámsskrár fyrir grunnskóla, byrjendastærðfræði og ráðstefnur um skólamál.

Þá sagði Jenný að miðstöðin héldi utan um svokallað lærdómssamfélag þar sem stjórnendur skóla hittast og læra saman og það sé mjög mikilvægur þáttur í því að skiptast á skoðunum og læra um nýjungar svo og hvert af öðru.

Byrjendalæsi í 80 skólum

Frá kennslu í lestri.  Mynd: MSHA.ISStærsta verkefnið hjá miðstöðinni er Byrjendalæsi en það er þróunarverkefni sem miðstöðin hefur staðið að síðan 2004. Höfundur verkefnisins er Rósa Eggertsdóttir en hjá miðstöðinni starfa fjórir sérfræðingar við þetta verkefni og er Jenný ein af þeim. “Byrjendalæsi er fyrir 1. og 2. bekk í grunnskóla en þessari aðferð hefur einnig verið beitt upp í 3. og 4. bekk”, segir Jenný og er greinilegt af ákafa hennar að hún hefur mikla trú á verkefninu. Samkvæmt Jenný eru í dag 80 skólar þátttakendur í þessu verkefni og bætast við 10 skólar í ár en innleiðingaferlið tekur 2 ár. Á þessum tveimur árum eru kennarar þjálfaðir upp til að kenna samkvæmt aðferðinni og þá eru einnig þjálfaðir upp leiðtogar í hverjum skóla sem leiðir starfið að innleiðingu lokinni. Þegar tveggja ára innleiðingu er lokið býður miðstöðin upp á áframhaldandi símenntun fyrir starfandi kennara og leiðbeinendur í skólum sem lokið hafa við að innleiða Byrjendalæsi.

Að sögn Jennýjar er aðalmarkmið Byrjendalæsis að börn nái sem fyrst árangri í lestri og er gert ráð fyrir að hægt sé að kenna börnum sem hafi mismunandi þekkingu þegar þau hefja skólagöngu sína. Þannig sé hægt að kenna börnum með mismunandi lestrarkunnáttu hlið við hlið. Reynt er að brjóta upp námsefnið og gera það eins fjölbreytt og skemmtilegt og hægt er til þess að vekja áhuga hjá börnunum.

Önnur verkefni en ekki síður mikilvæg

Á núverandi skólaári er verið að þróa námskeið fyrir kennara í samræðuaðferðum. Verkefnið heitir Hugleikur - samræður til náms og er unnið í samstarfi við kennaradeild Háskólans á Akureyri og valinna leik,- grunn- og framhaldskóla á Akureyri og nágrenni. Þessar samræðuaðferðir felast í því að spyrja spurninga sem vekja gagnrýna hugsun hjá nemendum og umræðum um efnið. Meginmarkmiðið er að rannsaka áhrif samræðu á nám og kennslu. Í þróunarferlinu læra kennarar þessar samræðuaðferðir sem þeir síðan nota til að þjálfa nemendur við skólana.

Miðstöðin hefur einnig verið í átaki gegn einelti og sérstaklega er verið að taka á eineltismálum stúlkna. Miðstöðin reynir að kynna aðferðir til að fyrirbyggja einelti þar sem einelti er að aukast mjög mikið með netvæðingunni og er því erfiðara að hafa auga á og geta komið inn í. 8. nóvember er dagur baráttu gegn einelti og var fyrst haldinn árið 2011. Markmiðið er að vekja athygli á málefninu. Miðstöðin hefur haldið námskeið með kennurum um einelti stúlkna. Stúlkur beita gjarnan öðruvísi aðferðum en strákar þótt ekki sé hægt að alhæfa það, en þær með oft með meira falið áreiti þar sem þær stýra hegðun með útilokun og ráðskast með vináttu og tilfinningar. Mikilvægt er að stúlkur átti sig á afleiðingunum.
Önnur tegund af læsisverkefnum sem miðstöðin sinnir snýst að stærfræði. Þar er lögð áhersla á að þróa vinnubrögð og kennsluhætti sem tengjast stærðfræði fyrir mið- og unglingastig í grunnskólum. Miðað er við að út frá aðalnámsskrá sé samfella í skólanámskrá og markmið og leiðir í kennsluáætlunum séu samræmd þörfum nemenda og kröfum um hæfni í stærðfræði.

Fágæti og furðuverk.  Mynd: MSHA.IS

Eitt af lesverkefnum miðstöðvarinnar er Fágæti og furðuverk. Það verkefni er ætlað börnum á aldrinum 9 –11 ára og er sérstaklega ætlað að vekja áhuga stráka á lestri. Alþjóðlegar samanburðarkannanir benda á nauðsyn þess að efla læsi stráka. Lengi hefur verið að stelpur standa framanr í læsi og í íslenska hluta PISA rannsóknanna frá 2000-2009 kemur kynjamunur í lesskilningi vel fram í drengjum í óhag. Árin 2000, 2003 og 2006 voru íslenskir drengir vel fyrir neðan meðallag innan OECD. Árið 2009 kom í ljós að ekki einungis íslenskir drengir, heldur drengir í öllum 65 þáttökulöndum, stóðu sig mun verr en stúlkur. Að meðaltali er lesskilningur drengja 39 stigum lægri en stúlkna. Strákum hefur farið aftar í lesskilning og einnig stærðfræðilæsi og eru nú um 30% þeirra á tveimur neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis. Þetta verkefni er unnið af miðstöðinni upp úr ensku verkefni sem heitir “Curiosity Kit” í samvinnu við Ingibjörgu Auðunsdóttur sérfræðing. Þó svo þessu verkefni sé sérstaklega ætlað að vekja áhuga stráka þá sé það þó hentugt bæði fyrir stráka og stelpur og eru það aðallega efnistökin sem höfða vel til strákanna. Tvisvar á önn er hverjum nemanda gefinn poki sem inniheldur til dæmis bók og blað um sama eða svipað efni sem ætlað er foreldrum og leiðbeiningar og hugmyndir um hvernig hægt væri að nýta innihald pokans fyrir lærdóm sem og leik. Með verkefninu er reynt að fá foreldra til að hjálpa til við lestrarnámið heimavið.


Samkvæmt niðurstöðum sem bornar voru fram á ársfundi Háskólans á Akureyri árið 2010 hefur verkefnið fengið jákvæðar niðurstöður frá kennurum, foreldrum og nemum. Í pokunum er að finna bækur sem fanga athygli og áhuga stráka. Með lesefni um ýmiskonar þemu sem talið er samræmast áhugasviði drengja, sést að lestaránægja hefur aukist hjá þeim strákum sem sýndu ekki mikinn áhuga á lestri áður. Foreldrar gátu einnig léttilega notast við efnið í pokanum til að skapa samræður í kringum lesefni og þess vegna tekið virkan þátt í verkefninu.

Margir fræðimenn telja samstarf heimilisins og skóla geta haft mikil áhrif á árangur barna í námi. Í rannsókn árið 2012 voru lestrarvenjur 2965 barna á aldrinum 8-11 ára í fjórum löndum, þar á meðal Ísland, ýtarlega skoðað. Niðurstöður sýndu að bækur og bókakostur á heimili hafi mikla fylgni með áhuga barna á lestri. Ingibjörg telur að þó sé þörf á enn betri samvinnu milli drengja og feðra. “Meiri umræða um mikilvægi feðra sem fyrirmynda er þörf”, segir Ingibjörg. Fágæti og furðuverk leggur mikla áherslu á að foreldrar taki virkari þátt í námi barna sinna. Verkefnið lofar góðum árangri í framtíðinni ef miðað er við árangur þess nú þegar. Það sýnir möguleika á að minnka mismun árangurs drengja og stúlkna í læsi.

Fyrir þá sem vilja kynna sér enn frekar niðurstöðurnar sem kynntar voru á ársfundi HA árið 2010 er hægt að skoða þær á vef skólans með því að slá inn slóðina: http://www.unak.is/static/files/Arsfundir/ingibjorg.pdf

Skólaþróun á erindi við alla

Á hverju ári stendur miðstöðin fyrir vorráðstefnu og annað hvert ár er einnig ráðstefna á haustin. Vorráðstefnan í ár verður haldin 18. apríl næstkomandi í Háskólanum á Akureyri. Ráðstefnan verður tileinkuð hæfnimiðuðu skólastarfi. Aðal markmiðið verður að varpa ljósi á hvaða starfshættir og hugarfar í skólastarfi stuðla að hæfni nemenda. Þrír fyrirlesarar flytja erindi og er hefð fyrir því að bjóða ávallt einum erlendum fyrirlesara.

Á annað hundrað manns sækja ráðstefnuna árlega og er hún orðin partur af skólaáætlun margra skóla. Haustráðstefnan tengist byrjendalæsi og er yfirleitt haldin í kringum alþjóðadag læsis í september. Sú ráðstefna er yfirleitt fjölmennari en hana sóttu yfir 300 manns síðastliðið haust. Þessar ráðstefnur eru ekki einungis fræðsla fyrir kennara, heldur einnig félagslegur stuðningur þar sem fólk hittist og myndar vinskap.

Starfsemi miðstöðvar skólaþróunar hefur vaxið ár frá ári. Með sínum ýmsum þróunarverkefnum hefur miðstöðin sannað mikilvægi sitt fyrir skóla og menntun í landinu. Þá sérstaklega hafa læsiverkefnin sem miðstöðin hefur verið að byggja upp reynst mjög árangursrík og þeim vel tekið Foreldrar eru orðnir virkari í námsframvindu barna sinna og tengingin milli heimilis og skóla hefur styrkst með tilkomu miðstöðvarinnar og þeirra verkefna sem þar eru þróuð. Það er því óhætt að segja að Miðstöð skólaþróunar vinni í þágu allra.

Frekari upplýsingar um Miðstöð skólaþróunar og verkefni þeirra er að finna á vef þeirra, www.msha.is.

Höfundar: Eydís Ösp Þorsteinsdóttir, Fjóla Oddgeirsdóttir, Frímann Birgir Baldursson og Sól Margrét Bjarnadóttir.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir