Akureyri – lof og last. Vangaveltur námsmanns að sunnan

Pistlahöfundur er 23 ára námsmaður

Þegar flutt er frá einum stað til annars fer maður að velta fyrir sér muninum á stöðunum. Sjálf hef ég aldrei flutt á milli bæjarfélaga á Íslandi fyrr en nú í haustbyrjun. Ég er uppalin á Akranesi og viti menn, ég fór strax að sakna einhvers en annað var ég mjög ánægð með.

Það sem ég tók strax eftir að væri ábótavant á Akureyri eru þá helst lágvöruverslanir eins og Krónan. Það er allt morandi út í okurbúllum eins og Samkaup, Hagkaup og Nettó en Bónus er EINA matvörubúðin sem hægt er að gera stórkaup í. Ég fann strax fyrir söknuðu til Krónunnar aðallega vegna gæðanna á ávextum og grænmeti miðað við aðrar búðir, svo ekki sé minnst á að sem námsmaður með aukakrónur Landsbankans, er Krónan eina matvöruverslunin þar sem þær nýtast og þykir mér það stór galli að geta ekki verslað í matinn fyrir þær á Akureyri.

Ég hafði heyrt ýmislegt um Akureyri og þá sem þar búa áður en ég flutti, eitt af því sem mér hafði verið sagt var að það væri sko ekkert mál þó ég væri bíllaus, ég tæki bara strætó á milli staða sem væri sko ókeypis fyrir alla! Áhyggjulaus legg ég því leið mína norður en viti menn! Strætó gengur á KLUKKUTÍMA fresti, sem er bara mjög óhentugt því annað hvort þyrfti ég að vera mætt í skólann klukkutíma of snemma á morgnanna (ekki í boði) eða klukkutíma of seint sem er auðvitað fráleitt. Ef þú svo missir af strætó er voðinn vís og þú þarft bara að gjöra svo vel að bíða í klukkutíma eftir næsta. Já frekar borga ég nokkra hundrað kalla til að hafa almenningssamgöngur hentugri hér á Akureyri. Þessar brekkur.. þessi snjór.. þessi hálka.. fyrir þá sem fara allar sínar ferðir fótgangandi eru þetta enginn gleðiefni og jújú ég fjárfesti kannski einhverntíman í mannbroddum.. kannski.. einhverntíman..


Hvað háskólann varðar er ég mjög ánægð og sé jákvæðan mun á honum og Háskóla Íslands. Komandi úr bókmenntafræði við HÍ, þar sem félagslífið var ekki upp á marga fiska og menn supu hveljur ef þú hafðir ekki lesið Paradísarmissi, upplifði ég mig sem félagsveru á ný við komuna í HA. Hér er enginn leið að týnast enda skólinn lítill og persónulegur sem hentar manneskju eins og mér afar vel. Námið er skipulagt og jafnt yfir önnina, enda er skólinn af allt annarri kynslóð en HÍ og tileinkar sér nýstárlegri kennsluhætti. Kennararnir heilsa nemendur út í búð, hringja í þá ef svo ber við og bjóða þeim far heim eins og ekkert sé eðlilegra, sem það er! Sæi ég prófessorana í HÍ í anda gera það sama.. En svo er það líka bara svoleiðis hérna á Akureyri að allir taka vel á móti manni, hvar sem er og hvenær sem er. Eitt smáatriði sem bæta mætti úr í sambandi við líkamsræktarsalinn í HA er að hann vanhagar um spegla, og þá er ég ekki að tala um til þess að flexa vöðvana heldur er mér (og mörgum öðrum) alveg lífsins ómögulegt að beita mér rétt með lóð án þess að sjá líkamsstöðuna.


Rauðu ljósin á Akureyri, semsagt þau sem eru í formi hjarta, kæta mann í umferðinni og gera sko sitt gagn. Það ættu að  vera rauð hjörtu um allt land! Snjórinn er ekki eins slæmur og ég var búin undir, í rauninni lýsir hann bara upp skammdegið og setur fallegan blæ á umhverfið. Verðum að elska Akureyri.
 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir