Akureyringar og borg óttans

Þessi sívinsæla leið suður í spillinguna.
Nýlega heyrði ég af könnun sem sýndi það að Akureyringar eru manna hræddastir þegar þeir koma til Reykjavíkur. Enda Akureyri heimsins besti staður, hvaða vitleysa er það þá að hætta sér suður í spillinguna, í borg óttans?

Öllum þeim árum sem ég hef lifað hef ég eytt á Akureyri. Ég er veðurgrobbari af bestu (ja, eða verstu) gerð, ég er hrædd við umferðina í Reykjavík og ég get að sjálfsögðu fundið borg óttans allt til foráttu. Fólkið þar talar kjánalegt mál og kann ekki að keyra. Það er svona það fyrsta sem poppar upp í hugann. Fyrir utan þá almennu vitneskju að það er alltaf rigning í Reykjavík.

Einu sinni þegar ég var fyrir sunnan talaði ég um Reykjavík sem borg óttans. Það geri ég reyndar oft í daglegu tali. Sunnlenskir félagar mínir skildu ekki um hvað ég var að tala, hvaða borg er borg óttans? Reykjavík? Bíddu, hvað er það hér sem þú ert svona hrædd við?
Því gat ég reyndar ekki svarað.

Mér þykir óskaplega vænt um Akureyri. Ég er stolt af því að vera frá Akureyri. Sunnlenskum vinum mínum finnst það skemmtilegt og það að vera Akureyringur er mun meira stríðnisefni en að vera rauðhærð og undir meðalhæð. Þetta tvennt er kannski mjög skylt, stoltið og stríðnin. Kannski erum við (nú leyfi ég mér að fullyrða að þetta gildi um fleiri Akureyringa) svona stolt því okkur er strítt, kannski eru það varnarviðbrögð eða minnimáttarkennd. Kannski er okkur strítt vegna þess hversu stolt við erum, þetta hlýtur jú að vera óþolandi fyrir alla aðra.

Að fara til Reykjavíkur er góð skemmtun. Um það held ég að flestir, allavega mjög margir, Akureyringar geti verið sammála. Vetrarfrí í skólanum, förum suður! Ég á pening, förum suður! Þriggja daga helgi, förum suður! Þriggja daga helgi og þú varst bara í bænum, er nokkuð að? Það er engin tilviljun að t.d. þegar skólar á Akureyri gefa vetrarfrí þá virðist vera meira af Akureyringum en öðrum í Kringlunni. Finnst okkur þá svona óskaplega gaman í þessari borg sem við annars hallmælum í hvert skipti sem við fáum tækifæri til þess?

Eitt er víst, ég er Akureyringur, ég elska bæinn minn og ég tala svo sannarlega niður til borgar óttans...en tel samt niður dagana þangað til ég kemst næst suður yfir heiðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir