Akureyringur rannsakar fjöldamorđ

Jóhannes ásamt ţýskrum starfsbróđur

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég frétti af því að lögreglumaður á Akureyri hefði tekið að sér að rannsaka fjöldamorð, nánar tiltekið fjöldamorð í Líberíu. Mér lék forvitni á að vita meira um málið og mælti mér mót við Jóhannes Sigfússon varðstjóra en hann kom heim í desember eftir að hafa eytt hálfu ári við löggæslustörf í Líberíu.

Það sem mig langaði fyrst að vita var hvernig í ósköpunum stæði á því að hann hefði verið að vinna í Líberíu.

Jóhannes segir þetta í raun hafa byrjað árið 1999 en þá hafi honum boðist að fara til Bosníu á vegum  Sameinuðu þjóðanna og þar hafi hann fengið það verkefni ásamt írskum starfsbróður  sínum að vinna í lítilli rannsóknardeild sem var þá að rannsaka morð á aðstoðarinnanríkisráðherra landsins. Fólst  starf þeirra í því að fylgja þessu máli eftir og aðstoða heimamenn við rannsóknina.

Það var svo á síðasta ári að Jóhannes sótti aftur um starf hjá  friðargæslunni  og bauðst þá að fara til Líberíu en það er mjög stríðshrjáð land á vesturströnd Afríku. Þar geisaði borgarastríð í 14 ár, að undaskildu einu ári (1998-1999). Landið er í miklum sárum og innviðir samfélagsins laskaðir, þar á meðal löggæsla og dómskerfið.

Sameinuðu þjóðirnar hafa haft geysilega fjölmennt lið í landinu síðastliðin 3 ár, bæði  hermenn og lögreglumenn auk borgaralegra starfsmanna. Í landinu hafa tveir lögreglumenn starfað á vegum Íslands og var Jóhannes  annar þeirra.  Vegna bakgrunns Jóhannesar  í Bosníu, auk reynslu sem rannsóknarlögreglumaður,  fékk hann það verkefni að rannsaka fjöldamorð.

Málið var í raun afleiðing langvinnrar landamerkjadeilu. Tvær fylkingar töldu sig eiga tiltekið land sem er talið mjög verðmætt vegna þess að demantar kunni að vera þar í jörðu. Heimamenn,  með stuðning þingmanns síns, töldu sig eiga landið og höfðu opinbera pappíra þess efnis en það var einnig embættismaður í landbúnaðarráðuneytinu sem taldi sig eiga erfðarétt á þessu landi og hafði einnig opinbera pappíra þess efnis. Það er skemmst frá því að segja að embættismaðurinn safnaði liði verkamanna  og  sendi þá til að ryðja  skóginn og undirbúa landið fyrir námugröft. Þegar heimamenn fréttu af því réðust þeir að verkamönnunum og var 21 drepinn en aðrir komust undan á flótta.

Mál þetta var talið mjög viðkvæmt þar sem pólitík blandaðist í það og eins hafði mál af þessari stærðargráðu ekki komið upp síðan stríðinu lauk og höfðu æðstu menn Sameinuðu þjóðanna áhyggjur af því að málið gæti hrint af stað ófriðaröldu í landinu.

Jóhannes segir sitt starf hafa verið margþætt. Fyrir það fyrsta að sjá til þess að málið yrði rannsakað, að vera staðarlögreglunni til ráðuneytis um það hvernig rannsaka ætti málið og auk skýrslugerðar, gæta að mannréttindum hjá grunuðum og halda yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna upplýstum um málið.

Gekk rannsókn málsins ágætlega þrátt fyrir bágbornar aðstæður í höfuðstöðvum lögreglunnar þar sem Jóhannes starfaði. Þar var ekkert rafmagn þó lagt hefði verið fyrir því í upphafi,  rotturnar höfðu séð fyrir því fyrir löngu, rafkerfið handónýtt.  Handskrifa þurfti  allar skýrslur sem gat verið mjög flókið þar sem lögreglumenn í Líberíu eru misvel skrifandi.

Menntunarstig er mjög bágborið og eru margir sem fara með ákæruvald ekki lögfræðimenntaðir  og ákæruvaldið því á brauðfótum líkt og lögreglan. Átak hefur þó verið gert í því að manna stöður saksóknara með lögfræðimenntuðu fólki. Eitt af hlutverkum Jóhannesar var að koma á samstarfi milli saksóknara og rannsóknaraðila en því hefur ekki verið fyrir að fara hingað til. Með því var stefnt að því að mál yrðu betur rannsökuð og betur undirbúin fyrir dómstólameðferð. Jóhannes starfaði m.a. með ríkissaksóknara Líberíu að þessu. Gekk það vel og sáu menn hagsmunina sem lágu í því fyrir báða aðila að koma þessu samstarfi á og telur Jóhannes að það hafi kannski verið það sem skildi mest eftir sig í þessu starfi.

Það veitir ekki af að reyna að laga réttarkerfið því oftar en ekki er það dómstóll götunnar sem kveður upp dóm, algengt er að ef fólk verður uppvíst að þjófnaði sé það barið til óbóta og svo kveikt í því.  Þegar lögreglan kemur svo á staðinn eru allir á bak og burt og ekkert nema brunarústir eftir.

Nú er ég orðin forvitinn að vita um öryggismál.  „Er ekki stórhættulegt að vera þarna og hvað með matinn og heilbrigðismál, hvernig er fyrir Íslending að vera á svona stað?“

„Það er mikil glæpatíðni og enginn er öruggur í sjálfu sér. Það eru gerðar miklar öryggisráðstafanir og eru Sameinuðu þjóðirnar með útgöngubann fyrir sitt fólk frá tólf á miðnætti til klukkan sex á  morgnanna og öryggisdeild Sameinuðu þjóðanna tekur út allt húsnæði sem starfsfólk býr í. Það verður að vera sólarhringsgæsla við húsin og gaddavírsgirðing í kring,  rimlar fyrir gluggum og fleira í þeim dúr.“  Þrátt fyrir þetta var brotist inn í íbúð við hliðina á íbúð Jóhannesar.

„Þetta með matinn var ekki flókið.  Sameinuðu þjóðirnar eru með verslun fyrir sitt fólk þar sem hægt er að fá innfluttan mat, dósamat aðallega. Kjöt af heimaslátruðu lætur þú eiga sig.

Varðandi heilbrigðismál  þá sjá Sameinuðu þjóðirnar um sitt fólk en mikið er um erfiða sjúkdóma eins og malaríu en það er landlægur sjúkdómur  þarna auk margra annarra sem við þekkjum ekki hér á norðurhjara. 

Hinn almenni íbúi í Líberíu er mjög heppinn ef hann fær læknisaðstoð því læknar eru fáir í landinu og ekkert almannatryggingakerfi svo fólk þarf að borga fyrir þjónustuna fullu verði og það eru ekki margir sem hafa efni á því.

Atvinnuástand er slæmt, mikið atvinnuleysi og erfitt að fá vinnu og launin mjög lág, t.d. hefur lögreglumaður innan við 100 dollara á mánuði.“

Þá að lokum:  „Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að fara í þessa ferð?“

Það stóð ekki á svari.  „Ævintýraþrá, það er ekki spurning, þetta er ævintýraþrá og þegar maður hefur farið einu sinni langar mann aftur. Þetta er baktería en jafnframt er þetta ómetanleg reynsla fyrir lögreglumann og þarna kynnist maður fjölda fólks alls staðar að úr heiminum.“  Jóhannes segist vel geta hugsað sér að fara að minnsta kosti eina ferð enn.

Ég þakka fróðlegt og skemmtilegt spjall en áður en ég fer fæ ég að skoða myndir frá Líberíu. Þá fyrst geri ég mér það almennilega ljóst við hvers konar aðstæður fólkið býr. Húsin einungis kofar, börnin í mölétnum fötum, fátæktin og hörmungarnar blasa við alls staðar og þegar ég geng út í febrúarkuldann þakka ég fyrir að fá að búa á Íslandi þrátt fyrir „kreppu“.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgđ ţeirra sem ţćr skrá. Landpósturinn áskilur sér ţó rétt til ađ eyđa ummćlum sem metin verđa sem ćrumeiđandi eđa ósćmileg.
Smelltu hér til ađ tilkynna óviđeigandi athugasemdir.

Svćđi

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiđlafrćđinema viđ Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guđmundsson, Hjalti Ţór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir