Álfabrenna - hvað er það?

Álfadans á Ísafirði 2012 - Myndir: Hrafn Snorrason
Þrettándagleði, álfadans, þrettándabrenna, allt eru þetta orð sem mætti nota í stað álfabrennu.

Þetta orð hefur farið illa í mig frá því ég var barn, en ég var 6 ára þegar foreldrar mínir örkuðu af stað með okkur systkinin og sögðu okkur, þegar allir voru klæddir og komnir út að nú værum við að fara á “álfabrennu”, ég streyttist strax á móti og harðneitaði að fara, pabbi reyndi að lempa mig og skyldi lítið í þessum mótbárum. Þegar hann spurði mig afhverju í ósköpunum ég vildi ekki koma með, svaraði ég því til að ég vildi ekki sjá álfa brenna. 

Væntanlega hafa foreldrar mínir hlegið dátt, en pabba tókst að tala mig til og útskýrði að alls ekki ætti að brenna neina álfa, þeir ættu bara að dansa í kringum bálið. Af hverju heitir þetta þá álfabrenna spurði ég og hreinlega sá í anda blessaða álfana sprikla á bálinu, ég hef eiginlega ekki fengið almennileg svör enn þann dag í dag annað en að þetta sé málvenja, svipað og á Ísafirði er alltaf sagt “á helginni” ekki um helgina.


Ég hef verið iðin við að senda tölvupósta á hina ýmsu vef- og fréttamiðla í gegnum tíðina og benda á öll hin orðin sem mætti nota í staðinn. Þegar ég ræði þetta við fólkið í kringum mig, segir það yfirleitt, “já, þetta er rétt hjá þér, ég hafði bara ekki hugsað þetta svona” Eini vefurinn sem hefur brugðist við beiðni minni er vefurinn bb.is og tala þeir bara um álfadans í dag.

Í ár mátti sjá talað um álfabrennur á hinum ýmsu vef miðlum, eins og mbl.is, visir.isreykjanesbaer.is og víðar.

Það er eindregin ósk mín að þetta orð verði fjarlægt úr almennri málnotkun og álfadans notaður í staðinn.

Ingibjörg Snorrad. Hagalín


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir