Allir menn forsetans – dæmi um góða blaðamennsku

Dustin Hoffman og Robert Redford í hlutverkum sínum í myndinni.
Það er ekki svo langt síðan ég horfði á myndina All the president´s men mér til skemmtunar og einnig til að afla mér heimilda um rannsóknarblaðamennsku. Myndin er frá árinu 1976 og gerð eftir samnefndri bók. Hún fjallar um vinnu þeirra Bob Woodward og Carl Bernstein í tengslum við hið fræga Watergate-heyksli sem varð til þess að Richard Nixon sagði af sér embætti Bandaríkjaforseta.

Stórleikararnir Robert Redford og Dustin Hoffman fara með aðalhlutverkin í myndinni og gera það mjög vel. Myndin lýsir einkar vel atburðarrásinni í málinu og þeirri vinnu sem þeir Woodward og Bernstein lögðu á sig í lengri tíma til að púsla saman heildarmyndinni. Þeir sættu sig ekki við opinberar skýringar og fóru því að kanna málið nánar. Woodward og Bernstein fengu mikið lof fyrir sína vinnu í þessu máli og unnu til Pulitzer verðlauna árið 1973 fyrir verk í almannaþágu.

Það er áhugavert fyrir fólk sem hefur komið nálægt nútíma blaðamennsku að sjá hvernig vinnuskilyrðin voru fyrir tæpum 40 árum síðan, þ.e.a.s ef við gefum okkur það að myndin sé lýsandi fyrir hvernig vinnuskilyrðin voru. Ekkert internet þar sem hægt var að leita að fólki, heimildum, símanúmerum eða netföngum, heldur einungis skífusími og óteljandi símtöl. Vissulega þurfa blaðamenn í dag enn að nota símann mikið en allt hitt hjálpar mikið til. Þá voru engar tölvur til að vinna og púsla saman fréttum, heldur bara ritvélar og minnisblöð.

Þrátt fyrir að tæknin hafi verið verri í þá daga hefur hlutverk blaðamannsins, í þessu tilfelli rannsóknarblaðamannsins, lítið sem ekkert breyst. Að komast að sannleikanum og fjalla um hann jafnvel þótt einhverjir verði kunni að verða ósáttir við útkomuna. Að einhverjum hluta vantar þetta tvennt í nútíma blaðamennsku.

Persónulega held ég að fjölmiðlar segi ekki alltaf allan sannleikann vegna þess það gæti komið sér illa fyrir einhvern. Kannski má segja að blaðamenn í dag hefðu ekki sagt eins ýtarlega frá Watergate-málinu og þeir Woodward og Bernstein gerðu. Að sama skapi má segja að það sé ábótavant hjá nútíma blaðamönnum að komast að sannleikanum. Hvort sem litið er til slúðurblaða sem eiga það til að segja fréttir sem eru uppspuni frá rótum til að selja blöð eða þeirra blaðamanna sem taka alltaf opinberum skýringum án þess að lýta gagnrýnið á hlutina.

Hvað sem þessu líður og þegar vangaveltur mínar eru settar til hliðar er sjálf myndin góð. Hún er góð heimild um sögulega atburði og upplýsandi fyrir fólk sem vill þekkja söguna vel eða jafnvel kynnast starfi blaðamannsins.

vev.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir