Allt sem segja þarf

Trans-Ísland. Mynd / truno.is

Á mínu daglega vafri um netið, lenti ég fyrir tilviljun inni á bloggsíðu konu nokkurrar, Önnu Jonna Ármannsdóttur. Hún er kona sem hefur undirgengist kynskiptiaðgerð og hefur hún m.a. verið formaður Trans á Íslandi. Í einni bloggfærslu fjallar hún um það, hvað það er að vera transgender og ein málsgreinin finnst mér sérstaklega merkileg.

Þó að ég sé kona nú, var ég aldrei stelpa. Ég er fædd karlkyns og án nokkurra líkamlegra merkja um að ég hafi verið nokkuð annað en venjulegur drengur. Einhverjir lifa í tímaskekkju og lýsa mér sem karlmanni sem er orðin kona, en hið sanna er að ég er kona sem fæddist drengur.

Þessi málsgrein er svo einföld, svo sönn og svo frábær. Hún segir allt sem segja þarf.

Anna Jonna er kona, en hún fæddist í drengslíkama. Ég veit að ég fæddist í þann líkama sem mér var ætlaður, en til þess að hún fengi sinn líkama, þann sem henni var ætlaður - í því formi sem hann hefði upphaflega átt að vera - þurfti hún að ganga í gegnum ótrúlegustu hluti og ótrúlegustu tilfinningar og tel ég þurfa mikinn styrk til þess að gera það sem hún hefur gert og ber ég mikla virðingu fyrir baráttu hennar.

Tilgangur með þessum pistli er mjög einfaldur; að leyfa ykkur hinum að lesa þessa stórmerkilegu málsgrein sem hefur setið í mér síðast liðna viku, frá því ég las hana fyrst.

- Katrín Eiríksdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir