Atvinnumennirnir okkar - Arna Sif Ásgrímsdóttir

Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Arna Sif Ásgrímsdóttir

Fæðingardagur: 12.ágúst 1992

Núverandi lið: Kopparbergs/Gautaborg (Sænska úrvalsdeildin)

Leikmannaferill: Þór/KA, Kopparbergs/Gautaborg.

Landsleikir: 7

Mynd: Kopparbergs/Gautaborg

Arna Sif Ásgrímsdóttir hóf ung að árum að spila með meistaraflokki en hún var orðin fastamaður í úrvalsdeildarliði Þór/KA þegar hún var aðeins 15 ára gömul. Sumarið 2012 leiddi Arna Sif liðið til sigurs í Pepsi deild kvenna en það var fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins, og sá eini hingað til. Í lok árs 2012 var Arna valin íþróttamaður Akureyrar. Árið eftir leiddi hún lið Þórs/KA alla leið í bikarúrslitaleik þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Breiðabliki á Laugardalsvelli. Arna Sif lék alls 155 leiki fyrir Þór/KA áður en hún hélt í atvinnumennsku til Svíþjóðar síðastliðið haust.

Þá samdi hún við sænska úrvalsdeildarliðið Kopparbergs/Gautaborg. Arna stimplaði sig inn af krafti hjá sænska liðinu en hún lék 19 af 22 deildarleikjum liðsins á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu. Kopparbergs/Gautaborg endaði í 6.sæti deildarinnar.

Arna Sif hefur lengi verið viðloðandi landsliðið og á hún 40 landsleiki að baki fyrir yngri landsliðin. Hún lék svo sinn fyrsta A-landsleik haustið 2014 og eru landsleikirnir nú orðnir sjö talsins. Í þessum sjö leikjum hefur Arna Sif skorað eitt mark en hún leikur jafnan í stöðu miðvarðar með landsliðinu.

Arna er eini fulltrúi akureyskra kvenna í atvinnumennsku í dag en vert er að nefna að þær Rakel Hönnudóttir og Sandra María Jessen eiga báðar fast sæti í íslenska landsliðinu en þær ólust upp hjá Þór, líkt og Arna Sif. Rakel leikur í dag með Íslandsmeisturum Breiðabliks á meðan Sandra María er í lykilhlutverki í liði Þórs/KA.

Sjá einnig

Atvinnumennirnir okkar - Oddur Gretarsson

Atvinnumennirnir okkar - Haukur Heiðar Hauksson

Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason

Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Þór Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir