Atvinnumennirnir okkar - Arnór Þór Gunnarsson

Atvinnumennirnir okkar er nýr liður á Landpóstinum en hér munum við gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir  en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.

Arnór Þór Gunnarsson

Fæðingardagur: 23.október 1987

Núverandi lið: Bergischer (Þýska úrvalsdeildin)

Leikmannaferill: Þór, Valur, Bittenfeld, Bergischer

Landsleikir: 49

Mynd - Bergischer

Arnór Þór Gunnarsson hóf ungur að leika með meistaraflokki Þórs í handbolta en 17 ára gamall var hann orðinn fastamaður í hægra horninu.  Leiktímabilið 2005/2006 var Arnór langmarkahæsti leikmaður Þórs þegar hann skoraði 172 mörk í 25 leikjum í úrvalsdeildinni. Í kjölfarið ákvað Arnór að söðla um og skipti yfir til Reykjavíkurstórveldisins Vals. Á sama tíma sameinuðust erkifjendurnir Þór og KA undir merkjum Akureyri Handboltafélags.

Arnór Þór lék með Val við góðan orðstír í fjögur ár en hann varð Íslandsmeistari á sínu fyrsta tímabili með liðinu og vann tvo Bikarmeistaratitla með Hlíðarendapiltum auk þess að leika með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu

Framganga Arnórs með Val vakti athygli erlendra liða og sumarið 2010 gekk hann í raðir þýska B-deildarliðsins Bittenfeld. Eftir stutt stopp hjá Bittenfeld færði Arnór sig um set og gekk í raðir Bergischer þar sem hann hefur verið í lykilhlutverki undanfarin ár. Hann var valinn leikmaður ársins hjá félaginu árið 2013 og á síðustu leiktíð var hann markahæsti leikmaður liðsins með 167 mörk í 36 leikjum sem gerði hann jafnframt að markahæsta Íslendingnum í þýsku úrvalsdeildinni.

Arnór hefur verið að stimpla sig inn í landsliðið á undanförnum árum. Hann hefur skorað 107 mörk í 49 landsleikjum fyrir A-landslið Íslands og var til að mynda hluti af liðinu á EM í Danmörku árið 2014 þegar Ísland lenti í 5.sæti.

Yngri bróðir Arnórs, Aron Einar Gunnarsson, er landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu og verður fjallað frekar um hann síðar hér á Landpóstinum.

Sjá einnig

Atvinnumennirnir okkar - Arnór Atlason


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir