Flýtilyklar
Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson
Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.
Atli Ævar Ingólfsson
Fæðingardagur: 6.maí 1988
Núverandi lið: Savehof (Sænska úrvalsdeildin)
Leikmannaferill: Þór, Akureyri Handboltafélag, HK, SonderjyskE, Nordsjælland, Eskilstuna GUIF, Savehof
Landsleikir: 6
Atli Ævar Ingólfsson fór í gegnum unglingastarf Þórs og 18 ára gamall lék hann 22 leiki með Þór í efstu deild. Ári síðar var búið að sameina Þór og KA undir merkjum Akureyri Handboltafélags. Þá lék Atli átta meistaraflokksleiki ásamt því að leika með 2.flokki þessa nýstofnaða félags en hann sleit krossband og missti af nær öllu tímabilinu 2007/2008 vegna meiðslanna. Sumarið 2009 hélt Atli svo suður yfir heiðar til að leika með HK. Þar sló Atli rækilega í gegn en hann spilaði þrjú tímabil með Kópavogsliðinu og skoraði yfir 100 mörk öll árin. Hápunktinum var svo náð á síðasta tímabili Atla í Kópavogi þegar HK stóð uppi sem Íslandmeistari en Atli var lykilmaður í meistaraliðinu.
Í kjölfarið kallaði atvinnumennskan og Atli gekk í raðir danska liðsins SönderjyskE. Eftir eitt ár í herbúðum SönderjyskE lá leið hans til annars dansks liðs, Nordsjælland en liðið féll úr úrvalsdeildinni á eina tímabili Atla með liðinu. Þá færði Atli sig yfir til Svíþjóðar og samdi við úrvalsdeildarliðið GUIF. Atli stimplaði sig inn í sænska boltann af krafti og var valinn í lið ársins á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð þegar lið hans lenti í 3.sæti deildarinnar. Atli færði sig svo yfir til Savehof í sömu deild síðastliðið sumar en liðið situr í 2.sæti deildarinnar þegar þetta er skrifað og hefur aðeins tapað einum leik.
Atli hefur verið viðloðandi A-landslið Íslands á síðustu árum og hefur leikið sex leiki og skorað í þeim sex mörk en hefur ekki verið valinn í lokahóp fyrir stórmót hingað til.
Sjá einnig
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir