Flýtilyklar
Atvinnumennirnir okkar - Birkir Bjarnason
Atvinnumennirnir okkar er liður hér á Landpóstinum þar sem við munum gera grein fyrir þeim atvinnuíþróttamönnum sem Akureyri hefur alið af sér á undanförnum árum. Akureyringar geta státað af því að eiga marga framúrskarandi íþróttamenn og ætlum við að skoða þau þeirra sem nú stunda íþrótt sína erlendis. Liðurinn einskorðast við boltaíþróttir en nokkrir af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar hafa tekið sín fyrstu skref á Akureyri.
Birkir Bjarnason
Fæðingardagur: 27.maí 1988
Núverandi lið: Basel (Svissneska úrvalsdeildin)
Leikmannaferill: Viking Stavanger, Bodo/Glimt (lán), Standard Liege, Pescara (lán), Sampdoria (lán), Pescara, Basel.
Landsleikir: 42
Birkir Bjarnason er eini knattspyrnumaðurinn á listanum sem ekki hefur leikið með meistaraflokki á Akureyri en tenging hans við bæinn er sterk og hann fær því að fljóta með.
Birkir er sonur Bjarna Sveinbjörnssonar og Höllu Halldórsdóttur sem bæði léku með meistaraflokki Þórs á sínum tíma og er Bjarni markahæsti leikmaður Þórs í efstu deild frá upphafi. Birkir æfði hinsvegar með yngri flokkum KA þar til hann fluttist til Noregs þegar hann var á táningsaldri. Birkir vakti snemma athygli fyrir hæfileika sína og þegar hann var 16 ára gamall var hann kominn á samning hjá norska stórliðinu Viking Stavanger, sem þá var stýrt af Roy Hodgson, núverandi þjálfara enska landsliðsins.
Birkir sló í gegn í norska boltanum og í byrjun árs 2012 var hann keyptur til belgíska stórliðsins Standard Liege. Birkir staldraði stutt við í Belgíu því hann var fljótlega lánaður til ítalska liðsins Pescara, sem lék þá í úrvalsdeildinni þar í landi. Pescara féll úr deildinni og í kjölfarið færði Birkir sig um set innan Ítalíu og spilaði eitt tímabil með Sampdoria. Birkir hélt svo aftur til Pescara og lék með liðinu í B-deildinni þar sem hann var fyrirliði liðsins og skoraði 12 mörk en Pescara tókst ekki að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni.
Í kjölfarið var Birkir keyptur til Basel, sem leikur í Sviss, síðasta sumar en liðið borgaði rúmlega eina milljón evra fyrir Birki sem samsvarar um 140 milljónum króna. Óhætt er að segja að Basel sé besta lið Sviss um þessar mundir en liðið hefur hampað meistaratitlinum þar í landi sex ár í röð og situr nú í efsta sæti deildarinnar með tíu stiga forskot á næsta lið þegar mótið er hálfnað. Birkir hefur fest sig í sessi á sínu fyrsta tímabili með liðinu og hefur byrjað flesta leiki liðsins í vetur.
Birkir á sömuleiðis fast sæti í íslenska landsliðinu sem vann sér sæti í lokakeppni EM á dögunum en hann byrjaði alla leiki liðsins í undankeppninni. Alls hefur Birkir leikið 42 A-landsleiki og skorað í þeim sex mörk.
Sjá einnig
Atvinnumennirnir okkar - Atli Ævar Ingólfsson
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
Athugasemdir