Bannsettir froskarnir -

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar ég var að taka til inn í skáp fann ég eldgamla gúmmí-froskinn sem afkvæminu var gefinn þegar hún var nýfædd. Hún var svo skelfingu lostin við hann, að ég henti honum ofan í kassa og inn í skáp þar sem hann gleymdist - enda svo sem ekki margt merkilegt við hann. Hann er illa farinn, ljótur og ég er ekki frá því að það sé skrýtin lykt af honum.
Allavega, ég tók froskinn út og henti honum á rúmið á meðan ég þreif skápinn - þar sem ég gleymdi honum svo. Nokkrum dögum seinna rak ég augun í hann þar sem hann lá á gólfinu, við hliðina á rúminu. Já, þið lásuð rétt.. ég sumsé þríf aldrei heima hjá mér! En mér til varnar, fer ég alltaf upp í rúmið sömu megin, og framúr því sömu megin - kenni OCD um það. Mér til mikillar furðu, stökk ég ekki hæð mína af hræðslu og DÓ þegar ég rak augun í kvikindið. Þoli ekki svona gúmmídrasl. 

Svo var það einn morguninn ekki löngu seinna, þegar við mæðgur lágum upp í rúmi, hálfsofandi að ég missti vitið örlítið. Ég teygði mig í helvítis froskinn og kastaði honum í áttina að afkvæminu. Afhverju? Afhverju geri ég svona hluti!? Það þarf einhver að grípa inní. Alfa! Hættu að gefa barninu þínu ástæður til að vakna upp öskrandi!

Þannig að hún FAH-REAKS out. Hún öskrar og skríður næstum því fram úr rúminu, hendir sér á mig og festir sig á handlegginn á mér, eins og ég hafi sveiflað henni yfir laug fullri af hákörlum. Mér auðvitað dauðbrá sjálfri og fór að telja upp þær óteljandi ástæður fyrir því afhverju hún þarf ekki að vera hrædd við kvikindið. 

Þetta er gervifroskur, Lilja. Sjáðu, þetta er gúmmí. Þetta er ekki alvöru. Hann finnur ekki til, hann verður ekki dapur. Sjáðu hvernig mamma getur sett allan puttann upp í munninn hans..

Þá fannst mér sniðugt að troða öllum frosknum upp í mig, sem reyndist vera ein sú allra allra versta hugmynd sem ég hef nokkurn tíma fengið. MAMMA, ÞÚ ERT MEÐ FROSK Í MUNNINUM! Ég mátti hafa mig alla við að hrækja útúr mér froskinum og grípa í hana áður en henni tækist að fleygja sér head first á gólfið og rjúka út. 

Ég eyddi svo meiri hluta morgunsins í að sannfæra hana um að það væri allt í lagi að snerta bannsettann froskinn. Svo um kvöldið þegar ég var að undirbúa kvöldmatinn, labbar ekki dýrið - Lilja, ekki froskurinn (hann er úr gúmmí) - til mín með kvikindið hálft upp í sér! Svo réttir hún mér hann brosandi, allan löðrandi í slefi - með svip á andlitinu sem getur ekki þýtt annað en: Sjáðu mamma, hvað ég er dugleg.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir