Baráttan við krabbamein

Mynd úr einkasafni - tekin um páska 2006.
Ég sat uppi í rúmi með bók, undir tveimur sængum og teppi – ég var Au pair í Noregi árið 2002 og hafði aldrei á ævinni kynnst þvílíkum kulda! Ég skalf öll kvöld og allar nætur. Þetta kvöld var alveg eins og öll hin – fyrir utan símtalið frá bestu vinkonu minni sem tjáði mér það að hún hefði greinst með krabbamein. 

Ég grét eins og lítið barn – og hún eyddi hálfu símtalinu í að hugga mig, sagði mér að hún vildi ekki tárin mín, hún ætlaði að berjast og væri ekki að fara neitt. Ég kom heim mánuði seinna.

Oftast gleymdi ég því að hún væri með krabbamein – stundum stóð ég mig að því að kvarta undan því hvað lífið mitt væri ömurlegt. Strákurinn sem ég var skotin í svaraði ekki sms-unum mínum, ég var með bólu á hökunni, ég var að fitna.. ég var ekki með krabbamein.

Yfirleitt hló hún bara og benti mér á að hún væri að hugsa nákvæmlega það sama, hún var skotin, hún fékk bólu á hökuna.. en hún var með krabbamein.

Fyrir tvítugt hafði legið verið fjarlægt úr henni, og allir möguleikar um að ganga með barn fyrir bý – hún gafst samt aldrei upp og talaði oft um það hvað hún hlakkaði til að ættleiða nokkur kríli og gefa þeim gott heimili.

Þann 1. Maí 2006 var ég að vinna á Greifanum, þegar 1. Maí hlaupið átti sér stað – þá stóð ég fyrir utan Greifann og afhenti þreyttum hlaupurum drykk og mat. Eftir að hafa staðið vaktina í dágóðan tíma kom vinkona mín upp að mér og hvíslaði: ‘Alfa, ég samhryggist þér.’

Ég leit varla upp frá því sem ég var að gera, en spurði hana óviss hvað í ósköpunum hún væri eiginlega að tala um. Það kom á hana fát, og hún leit hikandi á mig áður en hún sagði lágt: ‘Lilja.. Lilja er dáin..’

Næstu mínútur eru mér ennþá ótrúlega óljósar – en ég sneri við og fór inn, án þess að segja orð. Ég náði í símann minn, sló inn númerið hjá mömmu og þegar hún svaraði mér um hæl með orðunum; ‘Ó, elsku stelpan mín..’ þá vissi ég að þetta væri satt.

Ég missti símann sem fór í sundur, og ég slagaði fram í eldhús þar sem ég hné niður og grét stjórnlaust. Ég kom ekki uppúr mér orði, en grét með ekkasogum. Strákarnir í eldhúsinu urðu dauðhræddir, og vissu ekkert hvaðan á sig stóð veðrið svo þeir hlupu fram í sal og náðu í litlu systur mína sem vildi svo vel til að var einmitt að vinna með mér þennan dag. Hún kom hlaupandi og dró mig afsíðis, það tók mig nokkrar mínútur að koma orðunum frá mér. Að segja það upphátt. Að gera það raunverulegt.

Ég settist undir stýri og keyrði heim til mömmu og pabba í sveitina – þegar ég labbaði inn um dyrnar tók mamma á móti mér með arminn opinn og mér leið eins og ég væri aftur orðin að litlu barni þar sem ég sat í fanginu hennar og grét. Ég skreið inn í gamla herbergið mitt, dró gluggatjöldin fyrir og sængina yfir haus og var þar í tæpa viku. Án þess að tala við nokkurn mann. Mér leið eins og hjartað mitt hefði verið brotið í þúsund mola, og tilhugsunin um að ég fengi aldrei að sjá hana aftur – aldrei að hlægja með henni aftur – aldrei að heyra röddina hennar aftur náði mér í hvert sinn og ég brotnaði aftur niður.

Hún var mér svo mikið – svo miklu meira en hún vissi.

Árið 2007 varð ég ólétt – ég sem á ekki að geta eignast börn, og ég sem var á getnaðarvörn, og ég sem vildi aldrei verða foreldri. Ég vissi það áður en nokkur læknir sagði mér það, að ég gengi með stelpu – að ég myndi eignast mína eigin litlu Lilju.

Það var svo í fyrradag sem Lilja Dögun spurði mig hvaða stelpa þetta væri sem væri með mér á myndinni sem hún handlék – og ég fékk að segja henni söguna um það hvaðan fallega nafnið hennar væri komið.

Lilja tapaði baráttunni aðeins 21 árs gömul. Ég styrki krabbameinsfélagið á hverju ári -  


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir