Barnagæsla á meðan á sýningu stendur

Í dag fór ég á árshátíð hjá dóttur minni í Síðuskóla á Akureyri. Þar horfði ég á frábær skemmtiatriði hjá 1-3. bekk, 5. bekk, 7. bekk og 10. bekk. Þar nýtti ég mér einnig barnagæslu sem var boðið uppá á meðan á sýningunni stóð og er ég hæst ánægð með þetta framtak.

Margir kannast við það að vera að fara á árshátíð eða aðrar skemmtanir hjá börnunum sínum og þá kemur oftar en ekki upp spurningin um hvar sé hægt að koma yngri börnunum fyrir á meðan? Oft eru þessar sýningar á dagvinnutíma og því ekki hlaupið að því að fá barnapössun. Það er oft mjög erfitt að sitja á sýningu vera með órólegt barn í fanginu, reyna að fá það til að vera kjurrt og hljótt og einnig að ná að njóta sýningarinnar . Finna svo fyrir því þegar aðrir í kringum þig fara að ókyrrast vegna barnsins.

En þetta var ekki málið á árshátíðinni sem ég fór á í dag. Það vakti forvitni mína þegar ég fékk upplýsingarnar í sambandi við árshátíðina sendar að þar stóð „barnagæsla á meðan á sýningu stendur“. Ég ákvað því að leita ekki að pössun fyrir þessa 2. ára og tók hana með mér á árshátíðina. Þegar ég kom út í skóla var mér vísað á stofu þar sem ég gæti fengið pössun fyrir þessa litlu ef ég vildi. Ég fór þangað og hitti fyrir nokkrar stelpur úr 9. bekk sem tóku vel á móti stelpunni og fór hún strax að leika sér þarna inni. Ég talaði við eina stelpuna sem tjáði mér það að þessi barnagæsla væri eitthvað sem 9. bekkur byði uppá á hverri árshátíð og væri foreldrum að kostnaðarlausu. Þarna var dóttur minni boðið upp á að kubba, lita og mála svo eitthvað sé nefnt. Þarna undi hún sér vel í rúman klukkutíma meðan ég naut þess að horfa á eldri dótturina syngja og leika ásamt fleiri frábærum skemmtikröftum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir