Bergnuminn Jóhann risi

Jóhann risi fagnar markinu. Mynd: Aftonbladet.

Íslenska þjóðin er bergnumin. Jóhann Berg Guðmundsson er nýjasti ástmögur þjóðarinnar. Frækið jafntefli Íslands gegn Sviss 4:4 í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á Stade de Suisse fer í sögubækurnar sem fræknasta endurkoma íslensks landsliðs fyrr og síðar. Hinn smái en knái Jóhann var eins og nafni sinn risi Svarfdælingur innan um svissnesku vörnina sem virkaði eins og versti mygluostur, alltaf fann hann holuna í vörninni.  

Jöfnunarmarkið var listaverk út af fyrir sig. Mark af þessu tagi, frá svipuðum stað, með svipaðri skrúfu á boltanum, hefur Jói risi reyndar gert áður, á ögurstundu fyrir Breiðablik á Grindavíkurvelli 11. ágúst 2008 þegar hann jafnaði metin 2-2 í uppbótartíma, nánar tiltekið á 95. mínútu. Afreks íþróttafólk sækir alltaf í reynslubankann.

Sænski landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck var með böggum, en aðallega hildar, fyrir leikinn.  Hinn sjóðheiti Alfreð Finnbogason var meiddur og því stóð Lars frammi fyrir því að setja annað hvort Jóhann Berg eða Eið Smára Guðjohnsen í byrjunarliðið.  Sænski trjáræktandinn og aðstoðarmaðurinn hans sem sífellt glottir við tönn, tannlæknirinn Heimir Hallgrímsson, veðjuðu á Jóhann Berg og settu hann meira að segja á rangan kant eins og spekingurinn í sjónvarpinu benti á. En þetta herbragð heppnaðist fullkomlega. Jói risi var bergnuminn af andrúmsloftinu á vellinum  og náði sjaldséðri þrenni hjá íslensku landsliði.

Eiður Smári var settur inn í hálfleik í vonlausri stöðu. Ég hafði samúð með honum. En hann sýndi það í seinni hálfleik að gæði íslenska liðsins aukast til mikilla þegar töfraskór hans komast í gang, hann lyfti öllum í kringum sig á hærri stall. Leikur liðsins breyttist úr ofþornuðu prins pólói í eðal svissneskt súkkulaði.

En fjögur mörk gegn Sviss eiga á venjulegum degi í vinnunni að gefa þrjú stig. En varnarleikur íslenska liðsins var vandræðalegur á köflum, það var eins og gleymst hefði að taka hann fyrir á æfingasvæðinu. Birkir svaf á verðinum í fyrsta markinu, Helgi Valur hreinsaði ekki með tánni í burtu í öðru markinu og gaf heimamönnum boltann í þriðja markinu sem Hannes markvörður hefði jafnframt átt að verja. Fjórða markið var svo einkaframk Birkis. Næst þurfum við að fá Gunnlaug aftur í markið. Hvað varð um alla okkar frábæru varnarmenn?   Er það kannski Eiði Smára að kenna að varnarmenn eru af skornum skammti því Jói risi, Gylfi, Kolbeinn, Alfreð og allir hinir sóknarsnillingarnir okkar höfðu hann sem fyrirmynd? Hvar eru Hemmarnir og Guðnarnir? Hvenær munum við eignast heimsklassa markvörð? Með góðum markverði ertu hálfnaður að byggja upp frábært lið.

Að hlúa að visnuðu tré

En hvers vegna byrjaði Eiður Smári á tréverkinu eftir að hafa gert tilkall til þess að vera í byrjunarliðinu í ljósi fjarveru Alfreðs, og eftir frábæra innkomu gegn Færeyingum á dögunum?  Jú, stigið í kvöld var óvæntur bónus, lykilleikur Íslands er næsta þriðjudag, á heimavelli gegn Albaníu, mikilvægasti landsleikur Íslands fyrr og síðar. Þá þurfum við á Eiði Smára að halda í 90 mínútur. Það þarf að hugsa vel um mann á þessum aldri sem ekki er í sínu allra besta leikformi. Þetta vissi trjáræktandinn, að visnuð tré þurfa sérstaka umhyggju og hvíld til að þau blómstri á ný. Eiður Smári mun blómstra á þriðjudaginn.

Sænskir fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á Lars og velgengni íslenska landsliðsins. Mesta afrek kvöldsins sagði Aftonbladet í fyrirsögn. „Ég hef aldrei upplifað leik með átta mörkum síðan ég byrjaði sem landsliðsþjálfari,“ sagði Lars við Expressen.

Knattspyrna er vinsælasta íþróttagrein heims. Íslendingar eiga í fyrsta skipti í sögunni raunhæfa möguleika að komast á lokakeppni HM, í Brasilíu á næsta ári, þökk sé Jóa risa og hans mönnum.

Þorsteinn G.Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir