Bjórsafnari á Dalvík

Kristján við safnið

Dalvíkingurinn Kristján Ólafsson býr ásamt konu sinni Valgerði þar sem hann heldur úti stórt og mikið bjórsafn. Blaðamenn Landpóstsins fengu að líta á fjársjóðinn sem geymdur er í kjallaranum á heimili þeirra hjóna.

„Ég safna nánast öllu en það eru nú ekki nema um 12 ár síðan bjórsöfnunin hófst, þetta byrjaði svona óafvitandi. Þegar bjórflöskurnar voru orðnar um 20-30 stykki fór ég að taka þær til hliðar. Kjallarinn hérna var nú fullur af gömlum munum til 1986 en þá gaf ég um 1500 muni á byggðasafnið og var það stofnað út frá því. Þetta voru munir allt frá saumnálum og upp í dráttarvél.“

 

Safnið hefur stækkað ár frá ári og telur Kristján að bjórarnir séu nú orðnir um 1800 talsins. Að eigin sögn hefur hann ennþá gott sjónminni svo hann veit hvað hann á og hvað ekki. Enginn flaska í safninu er eins og þó útlitið og tegund sé sú sama, skipta smáatriði eins og framleiðsluártal og áletranir máli. Kristján heldur mest upp á íslenska bjórinn vegna mismunandi merkinga á sömu tegundinni, en hann segir þá erlendu ekki gefa eins heilsteypt safn.


Kristján segir það vera eins með bjórinn og þegar hann byrjaði að safna bókum og tímaritum, þá var stundum hringt og honum boðið að taka á móti þremur kössum af bókum, sem annars færu á haugana. „Maður hendir aldrei neinu, það er nú ókosturinn við mann.“

Hann telur að um 90% bjóranna hafi hann fengið gefins en ýmis starfsmannafélög og einstaklingar eru á meðal þeirra sem hugsa til Kristjáns þegar þau láta einkamerkja bjórinn fyrir hin ýmsu tilefni. Til dæmis er í safninu bjór merktur með mynd af brúðhjónum sem einhver hefur hnuplað úr brúðkaupsveislu. Aðspurður hvort Kristján hafi ekki látið útbúa bjór með mynd af sjálfum sér á, segir hann það ekki vera svo alvarlegt ennþá. Stærsti hluti bjórsafnsins eru erlendir bjórar sem fjölskylda og vinir hafa tekið með sér úr ferðalögum. En eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september fær hann færri flöskur að utan vegna herts eftirlits þar sem ekki má ferðast með neitt í vökvaformi. „Menn hafa þó laumað flöskum í ferðatöskurnar hjá sér og gefið mér.“

Kristján hefur ekki tök á því að raða öllu bjórmagninu upp eftir tegundum eða framleiðslulöndum en hann hefur þó íslenska og færeyska bjórinn öðru megin í einu herbergjanna og erlenda bjórinn hinum megin. „Það er best að ganga frá bjórflöskunni um leið og maður fær hana í hendurnar og gefa bjórnum sinn ákveðna stað, annars missir maður tökin.“ Eftir því sem bætist í safnið hefur Kristján þurft að setja upp auka vegg með hillum. Hann lætur svo smám saman útbúa plastgler yfir hillurnar þar sem bjórnum er snyrtilega raðað. „Ég þarf að setja þetta hérna fyrir allt því við búum á jarðskjálftasvæði og það yrði nú svakalegt ef allt færi á versta veg. En til allrar lukku höfum við nánast ekki fundið fyrir neinum skjálftum hingað til.“ Kjallaraplássið er allt gjörnýtt en bjórum er jafnvel raðað í gluggakarma og á milli bókahillna.


Kristján leggur upp úr því að hafa allar flöskur fullar en hann er sjálfur lítið fyrir bjórinn. „Ég kaupi mjög sjaldan bjór en lít stundum við í Heiðrúnu, áfengisversluninni í Reykjavík, þegar ég á leið þar hjá.“ Sú verslun er oft með laususölu á bjór til reynslu til að sjá hvort markaður sé fyrir honum.

Flestir bjórarnir í safni Kristjáns eru útrunnir og mesta alkóhólið hefur horfið með tímanum, en að hans sögn hefur tappi aldrei farið af flösku, sem betur fer. „Ég hef einu sinni fengið gat á bauk og tók allt í einu eftir að farin væri að myndast mygla, svo það var ekki annað hægt en að taka plastglerið af og laga það bara.“ segir þessi þaulreyndi safnari að lokum.


Kristín Þóra Jóhannsdóttir

Regína Björk Sigurðardóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir