Brátt sést til sólar

Skutulsfjörður

Í mörgum þröngum fjörðum og dölum landsins, einkum á Vestfjörðum og Austfjörðum, líða oft nokkrar vikur eða mánuðir í skammdeginu, þar sem sólin sést ekki yfir fjallabrúnir. 

Þegar hún birtist aftur, er víða venja að fagna henni með kaffi og pönnukökum. Tímasetningin er mismunandi eftir staðsetningu einstakra húsa, svo ekki er beint um sameiginlega hátíð að ræða fyrir allt sveitarfélagið.  Á síðari áratugum hafa sum átthagafélög í stærri bæjum, einkum Reykjavík, tekið upp þann sið að hafa sólarkaffi einhvern dag í nánd við endurkomu sólarinnar í þeirra heimasveit.

Sólarkaffi Ísfirðinga rennur upp á sólardeginum sjálfum þann 25. janúar, en í meira en 100 ár hafa Ísfirðingar fagnað komu sólar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum. Sólardagur er miðaður við þann dag er sól sleikir Sólgötu við Eyrartún, (ef veður leyfir), eftir langa vetursetu handan fjalla. Sólin hverfur á bak við fjöll seint í nóvember og birtist loks aftur í lok janúar. 
\"götukort
Í ár boðar Ísfirðingafélagið til sólarkaffis í Reykjavík, þann 27. janúar í Iðnó kl. 20:00. Ísfirðingafélagið var stofnað 1945 og hefur starfað ósleitt í 67ár. Boðið verður upp á vandaða vestfirska, hressilega dagskrá, pönnukökur, skemmtiatriði og dans. Löng hefð er fyrir pönnukökubakstri þegar sólin nær í Sólgötuna á Ísafirði, en einnig er hefð fyrir því innan sveitarfélagsins að hver og einn baki sínar pönnsur þegar sól skín á þeirra hús og það er mismunandi eftir búsetu í Skutulsfirðinum. Má því segja að haldið sé sólarkaffi fram í lok febrúar á Ísafirði, enda ekki fyrr en þá, sem sólin sleikir fjarðarpúka jafnt sem eyrarpúka. 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir