Bresk sjónvarpssería og tæknin á Reyðarfirði

Reyðarfjörður

Í gær komu með leiguflugi frá London til Egilsstaða  leikstjórar, leikarar og aðrir sem koma að töku bresku þáttaraðarinnar Fortitude á Íslandi. Alls eru þetta um 45 manns. Aðal tökustaðurinn verður á Reyðarfirði en einnig verða tökur á öðrum stöðum á Austfjörðum.  Fólkið mun dvelja á  Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Eskifirði og verða hér á landi fram til 15. Febrúar.

Þættirnir fjalla um morð sem er framið í litlu þorpi. Fram að því hefur þorpið verið talið öruggur staður sem er laus við ofbeldi og glæpi og málið hefur áhrif á alla íbúa þess. Alls munu um 100 manns koma að verkefninu og er töluvert af Íslendingum þar á meðal. Einhverjir hafa tekið að sér að leika í aukahlutverkum en auk þess eru bílstjórar, aðstoðarfólk tökuliðs og fleiri. Það má því búast við að það verði óvenju líflegt víða á Austfjörðum næstu vikur.

Samkvæmt viðmælanda blaðamanns sem kemur að þessu verkefni eru fá ár síðan að eftir hverja töku á kvikmynd sem tekin var upp á Íslandi þurfti að senda filmurnar úr landi með flugi til framköllunar og eftirvinnslu. Í dag er sífellt meira tekið upp á stafrænar kvikmyndatökuvélar og venjan er sú að tökurnar séu svo sendar í gegnum tölvu til eftirvinnslu svo ekki þarf að senda allt í flugi með tilheyrandi kostnaði. Til þess að þetta sé þó mögulegt þarf öfluga og hraðvirka nettengingu og það er ekki til staðar á Reyðarfirði eins og mörgum öðrum smærri stöðum á landsbyggðinni. Nú er verið að skoða að setja upp ljósleiðara á staðnum svo hægt sé að notast við tæknina. Ef ekki er háhraðanet til staðar þá er fljótlegra  að setja tökurnar á harðan disk og senda þær þannig með flugi til Bretlands heldur en að senda þær á tölvutæku formi. Tíminn er það sem skiptir öllu máli í þessum atvinnugeira. Nú er að sjá hvort Reyðfirðingar verði svo heppnir að fá ljósleiðara í hús hjá sér á næstu dögum.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir