DV vill Akademíska samvinnu

Stefán Torfi Sigurðsson, framkv.stjóri DV. Mynd Ingibjörg Snorra

Landpósturinn hitti Stefán Torfa Sigurðsson framkvæmdastjóra DV á rölti á Ísafirði, tók hann vel í beiðni um viðtal og settumst við niður yfir kaffibolla. Það lá beinast við að spyrja hvað honum fyndist um það neikvæða orð sem færi af DV og umræðuna um þau komment sem skrifuð væri undir fréttir blaðsins.

DV er frjáls og óháður fjölmiðill, vinnureglur innan fyrirtækisins tryggja algert sjálfstæði ritstjórnar til dæmis gagnvart eigendum og öðrum utanaðkomandi áhrifum. Ritstjórnarstefna DV er í sex liðum en í henni segir til dæmis í  fjórða lið „DV leitast við að gefa borgurum tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum og athugasemdum við fréttir.“

Mér finnst að þetta kommentakerfi sem hefur verið við DV og reyndar á fleiri stöðum opni vettvang fyrir fólk að segja óhindrað það sem það vill um fréttir eða aðra hluti í skjóli nafnleyndar og gengur  lengra  en það þorir augliti til auglitis við fólk og þar af leiðandi fáum við hömlulausari athugasemdir við fréttir, en jafnframt auknar umræður um þau málefni sem efst eru á baugi. Hins vegar finnst mér DV oft vera dæmt að ósekju að því leitinu til að blaðið er að fjalla um fréttir. Nærtækt dæmi væri  harmleikurinn, sem átti sér stað í Hafnarfirði um daginn, þar sem blaðið er gagnrýnt fyrir að fjalla um málið og birta myndir af viðkomandi einstaklingum og nafngreina þá. Það er nú einu sinni þannig að morð er frétt, hvað sem hver segir, það er líka alltaf harmleikur. Þegar málið í Hafnarfirði kemur upp, þá á það sér stað aðfararnótt mánudags og er í fjölmiðlum allan mánudaginn og þriðjudag,  það er ekki fyrr en á miðvikudegi sem DV kemur út og þá er nafn birt með myndum. Það liggur í hlutarins eðli að það er að sjálfsögðu búið að hafa samband við alla aðstandendur og ganga úr skugga um að það komi engum að óvörum, sem eru málinu tengdir. Það er athyglisvert að þeir sem kjósa að dæma og segja að þetta sé léleg fréttamennska og DV ekki þess virði að lesa, þetta er allt saman fólk sem er búið að lesa fréttirnar. Hafa ber í huga að  fjölmiðlar reyna að skrifa um það sem fólk vill lesa og heyra, það er alltaf verið að eltast við það að selja blöðin. Við reynum að vera með efni sem fólk vill heyra, sjá og lesa.

Varðandi ímynd DV þá er blaðið ekki það sama og áður,  engu að síður er blaðið “tabloid” eða gul pressa og tekur mið af því í fréttaflutningi sínum, þá sérstaklega í ljósi skemmtanagildis fréttanna, en svo er það líka með alvarlegt ívaf varðandi pólitískar fréttir og fréttir úr fjármálaheiminum þá sérstaklega hruni og öðru. Við erum með sterka og öfluga blaðamenn sem fara djúpt í rannsóknir á þess háttar málum. Blaðið er einnig  duglegt að sinna  mannlegu hliðunum, jafnt jákvæðum sem neikvæðum.   Einn af okkar blaðamönnum fékk  verðlaun 2010 frá  Blaðamannafélagi Íslands fyrir t.d. umfjöllun sína um mansal og vændi  og má segja að blaðið hafi vakið mikla athygli á mansals-  og vændismálum á Íslandi.

Þú spyrð um orðspor og ímynd, þá glímir blaðið við fortíðarvanda tengdan þessu byggðarlagi, Ísafjarðarbæ. Sú umræða kemur oft og víða  upp og maður heyrir um það jafnvel í félagsfræðikennslu  í menntaskólum, þá er fjallað um „Ísafjarðarmálið“  og því miður stíga  kennarar ansi oft  í þann „drullupoll“ að fjalla ekki um málið á óhlutlægan hátt, það er alltaf DV, sem er vondi karlinn sem drap mann og barnaníðingurinn gerður að fórnarlambi, lyft upp á stall, sem hann verðskuldar ekki. Hef líka heyrt af kennurum sem gera þetta ekki og fjalla um þetta á óhlutlægan hátt, en menn verða að vara sig, til eru  dæmi þess að fólk jafnvel tengt málinu er í þessum kennslustundum og líður verulega illa í þeim. Hinsvegar voru  á þeim tíma  bæði aðrir ritstjórar og  eigendur og  önnur ritstjórnarstefna í gangi. DV myndi aldrei flytja fréttina á þennan hátt í dag. Stæðum við frammi fyrir því að flytja svona frétt í dag, þá  yrði aldrei talað um einhentan kennara, það yrði  talað um manninn með nafni og skilmerkilega sagt frá því að hann  væri grunaður og hann nafngreindur ef ástæða þykir til. Það ber þó að hafa í huga að fréttagildi er ekki það sama ef hinn grunaði er landsþekktur eða ekki. Því má segja að líklegra sé að hinn landsþekkti yrði nafngreindur en hinn óþekkti ekki. Enda lítið fréttagildi í því að segja frá því hver viðkomandi er þegar fáir eða enginn þekkja til hans. Með þeim orðum má vitna í  nauðgunarákæru á hendur Agli Einarssyni, Gillzenegger, það er ekkert verið að segja, “sko þekktur líkamsræktarfrömuður sem er framan á símaskránni gerði þetta“ og allir geta komist að því  hver maðurinn er, það er bara ljóst að einhver hefur verið ákærður og er grunaður, þá er sagt frá því hver hann er, tala nú ekki um þegar  einstaklingar eiga í hlut sem leggja sig fram við að vera þekktir í þjóðfélaginu. Það á þá eðlilega meira erindi til almennings og það er það sem fólk vill vita og lesa enda kemur það berlega fram í sölutölum blaðsins þegar svoleiðis fréttir eru fluttar.

Nú hefur blaðið oft fengið á sig kærur og dómar hafa fallið, ýmist fyrir rangan fréttaflutning eða ólöglega myndbirtingu, hvað viltu segja um það. 
Jú, vissulega, blaðamenn ritstjóri eða útgáfan sjálf, hafa bæði verið dæmd og verið sýknuð. Þetta félag sem starfar í dag hefur rekið blaðið frá 2010 hefur ekki verið dæmt sjálft, en einn blaðamaður hefur fengið dóm. Hinsvegar það sem gerist er merkilegt í íslensku réttarfari að blaðinu eða útgefandanum er stefnt fyrir rétt  t.d. í hinu margfræga Aratúnsmáli þar sem  bloggarar voru líka ákærðir og dæmdir fyrir að skrifa athugasemdir við fréttir á DV.is og svo blaðið fyrir að halda úti kerfinu og birta það. Blaðið er sýknað af þessu, en samt ákveður dómari að við séum  svolítið sek því hann fellir niður málskostnað. Nú er það þannig að það átta sig ekki allir á því hvað þetta þýðir, að fella niður málskostnað. Þetta þýðir í rauninni að blaðið þarf að bera sinn lögmannskostnað við að verja sig gegn þeim sem stefnir eða hvor greiðir sinn málskostnað sjálfur. Sá sem stefndi fær engar bætur, því hann tapar málinu og fær ekki stefnuna sína viðurkennda, við erum sýknuð en kostnaður okkar við að ráða lögmann til að verjast þessari stefnu, eða ofsóknum eins og við viljum stundum kalla þær, hann fellur á okkur. Að öllu jöfnu er það þannig að þegar þú stefnir einhverjum aðila, þá þarf að kaupa vinnu lögmanns og leggja fram stefnuna og svo framvegis og viðkomandi tekur til varna, það fer fyrir dómara og ef þú tapar þá berð þú þinn málskostnað og mögulega hins aðilans líka.

Landpósturinn hefur hlerað að einhver blöð séu nú þegar í Akademískri samvinnu með háskólum, stendur það til hjá DV? 
Akademískt samstarf er eitthvað sem mér finnst ofboðslega spennandi og það er eitthvað sem gagnast DV og í rauninni hvaða fjölmiðli sem er. Við erum með í undirbúningi samstarfi við HÍ, þau eru með kúrsa sem henta vel í svona vinnu fyrir skólann og getur það þýtt að nemendur þurfa að koma og vinna á ritstjórninni í tiltekinn tíma. Ég veit að þetta er gert í dag, hjá Morgunblaðinu og 365 það er að segja Fréttablaðið og Stöð 2. Þá er nemendum útvegaður einhver fréttavinkill sem þau þurfa að vinna og fullvinna svo frétt.

Hafið þið verið í samstarfi við HA?
Nei, ekki ennþá, en mér finnst hins vegar mjög spennandi að koma þessu inn í fleiri skóla og fá nemendur til að vinna verkefni tengt DV.  Ég sé mikinn hag í því ásamt því að þá gildir einu hvort það eru nemendur í fjölmiðlafræðum, viðskiptafræðum eða félagsfræðum bara svo fremi sem það tengist starfsvettvangi DV.  Það sem mig langar er til dæmis að fá sýn annarra á DV, hvað það er og hvar það er statt í dag og þá líka hvað það getur orðið og hvað þarf þá til þess að það geti orðið, ef einhverra breytinga er þörf. Það eru þessar utanaðkomandi ábendingar sem maður er að sækjast eftir, fólkið sem sér út fyrir kassann, það sem við hin sjáum ekki. Við erum bara föst í farinu í vinnunni okkar eins og venjulega. Þegar ég ræddi við fólk í HÍ, varð mér strax hugsað til heimahaganna og Háskólans á Akureyri, þar sem ég var í námi á sínum tíma. Þá finnst mér mjög spennandi þverfagleg samvinna innan deilda, þar kæmu til dæmis viðskiptanemandi og fjölmiðlafræðinemandi saman og ynnu verkefni þar sem verið væri að skoða stefnu DV eða einhvers konar vöruþróunarverkefni eða eitthvað sem segir mér hvar DV er statt og í rauninni fá að heyra álit nemenda, hvað þeim finnst DV vera, hvað það eigi að vera og svo framvegis. Þetta væri svona í takt við það sem maður var sjálfur að gera í náminu í samstarfi við önnur fyrirtæki. 

Ingibjörg Snorra


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir