Dýr kaffibolli á leiðinni í Lotu í HA

Lásasmiður í Hrútafirði - Mynd Ingibjörg Snorra
Það kostar tíma og peninga að vera í fjarnámi og mikla vinnu fyrir ómannglögga manneskju, sem er áttavilt að eðlisfari í ofanálag. Búin að lenda í mörgum ævintýrum á ferðum mínum í Lotur. Deili hér einu með ykkur.

Mætti fyrst á Nýnemadaga í ágúst og leið að mörgu leyti eins og ég væri í Kína, allt svo nýtt fyrir manni. Smátt og smátt lærði maður á innviði skólans og fór að kynnast öðrum nemendum. Ég hef ýmist flogið eða mætt akandi, þegar fjarnemar eiga að mæta í skólann, bæði með eiginmanninn mér til aðstoðar við akstur og svo ekið alein.

Í fyrri Lotu haustannar ók ég ein og í fyrsta skipti á ævinni sem ég ek alein á milli landshluta. Mikill lærdómur, t.d. muna að taka lyklana úr bílnum áður en ég læsi honum. Lenti í því í Hrútafirði. Mig langaði svo í kaffibolla, en það var hrikaleg mannmergð í sjoppunni að Staðarskála svo ég hætti við og fer aftur út í bíl. Hugsaði svo, nei fjandinn, ég fæ mér kaffi.

Fór inn og mundi að læsa bílnum, en minn er „gamaldags“ og ekki með sjálfvirkri læsingu. Þegar ég kem aftur að bílnum, alsæl með kaffibollann, var hann að sjálfsögðu læstur og lyklarnir í svissnum. Nú voru góð ráð dýr, eiginlega rándýr. Ég fer í sjoppuna, aftur í röðina og spyr loks afgreiðslumanninn hvað ég geti gert í þessum vanda mínum. Segir hann sveitunga sinn vera lásasmið og hann geti hringt í hann og hann komi mjög fljótlega.

Þetta var á sunnudegi og ég spyr um kostnað. Hann svarar 10-15 þúsund ! Ég ákvað að hugsa málið, en hafði lítið val og lét hringja í manninn, sem vissulega kom og opnaði bílinn á 2 mínútum. Ég bar mig eitthvað aumlega og sagðist nemandi á leið í Lotu, ég slapp með 7.500 kr. 

Mynd Ingibjörg Snorra

Þetta var dýr kaffibolli.

Ingibjörg Snorra


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir