Ég missti trúna á hinu góða í mannkyninu í svolítinn tíma

Þegar ég tók mér smá lærdómspásu í kvöld ákvað ég að gera eins og kannski flestir námsmenn á mínum aldri gera í pásunum sínum – fór á facebook. Þar smellti ég á hina ýmsu þræði sem facebook vinir mínir höfðu verið að deila á milli sín. Ég hentist á milli hina og þessa vefsíðna þar til ferðinni minni lauk á vinsælustu íslensku fréttavefsíðunni (að undanskildnum Landpóstinum, að sjálfsögðu). Endastöð mín að þessu sinni var á mbl.is.

Ég smellti á „erlent“, skrollaði tölvumúsinni örlítið niður eftir síðunni og athygli mín beindist að stóra „Mest lesið“ dálkinum. Þar blöskraði mér, heldur betur.

Þær mest lesnu fréttirnar í erlenda hlutanum voru nær eingöngu um morð, hamfarir  og misþyrmingar.  

Eins og þið sjáið á meðfylgjandi mynd þá þarf fyrsta fréttin vart að útskýra betur, af titlinum að dæma, né þeirri númer tvö.  Sú þriðja er um válegt slys sem átti sér stað í Japan en fimm manns er saknað frá því slysi. Frétt númer fjögur í „mest lesna“ listanum er um sjómann sem gæti fengið 2.500 ára langan fangelsisdóm fyrir að hafa farið frá sökkvandi skipi með 32 farþegum um borð sem allir létust.
Kaldhæðnislegt er að jákvæðasta fréttin er um nýja leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Un. Sú sjötta er um skrímslið hann Anders Behring Breivik og sú allra síðasta þarf eflaust ekkert að útskýra frekar.

Ég spyr er ekkert gott að gerast í þessum risa stóra heimi sem við búum í? Ekkert sem er svo skemmtilega fréttnæmt að það getur lent  á topp 7 listanum?  Verð ég kannski að sætta mig við þá staðreynd að það slæma selur og við mannfólkið virðumst nærast á ljótum fréttum?

Ég vil ekki gera það, ég neita að trúa því. Og þess vegna ætla ég, það sem eftir er af þessari viku, einungis að smella á jákvæðar og skemmtilegar fréttir á vefsíðum. Með því ætla ég að athuga hvort fréttamiðlar séu að senda frá sér eitthvað af virkilega skemmtilegum og jákvæðum fréttum. Ef svo fer að mér tekst ílla að finna samskonar fréttir ætli ég eyði þá ekki minni tíma í að vafra um netið og meiri tíma í að læra..

Win-win situation, eða..

 

Kristín Þóra Jóhannsdóttir


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir