Elizabeth Taylor látin

Elizabeth Taylor //Mynd: www.allposters.com

Elizabeth Taylor lést í dag, 23. mars 2011, á Cedars-Sinai spítalanum í Los Angeles. Hún var lögð inn á sjúkrahús fyrir sex vikum síðan vegna hjartavandamála. Hún lést umkringd börnunum sínum fjórum, tveimur dætrum og tveimur sonum. Auk barnanna sinna fjögurra lætur hún eftir sig tíu barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 

Liz var 79 ára gömul og spannar leiklistarferill hennar yfir fimm áratugi en á honum hefur hún meðal annars unnið til tveggja Óskarsverðlauna. Þó hún væri fræg vegna leiklistarferils síns var hún ekki síður fræg vegna einkalífs síns. Umfjöllun um einkalíf hennar hefur tekið töluvert pláss á síðum slúðurblaða síðustu áratugina en hún giftist átta sinnum og var auðvitað ein nánasta vinkona Michael Jackson heitins sem og guðmóðir tveggja barna hans. 


Elizabeth Rosemond Taylor fæddist í London á Englandi þann 27. febrúar 1932. Foreldrar hennar voru auðugir listaverkasalar, Francis og Sara Taylor. Eftir að seinni heimsstyrjöldin brast á flutti fjölskyldan aftur til Bandaríkjanna og kom sér fyrir í Los Angeles. 

Fegurð Liz vakti snemma athygli og lék sitt fyrsta hlutverk í bíómyndinni There's One Born Every Minute sem kom út árið 1942. Hún varð þó ekki stjarna fyrr en árið 1944 er hún birtist í hlutverki Velvet Brown í myndinni National Velvet. Hún átti mikilli velgengni að fagna sem barnastjarna og einsog við vitum öll í dag átti frægðarstjarnan eftir að skína lengi yfir henni, kannski mismikið á tímum. 

Fyrst myndin sem hún lék í sem fullorðin kona, 18 ára gömul, var Father of the Bride sem kom út árið 1950 og sló í gegn. Sama ár giftist hún hótelerfingjanum Conrad „Nicky“ Hilton en þau skildu í byrjun árs 1951. Það ár lék hún kynþokkafulla og ríka stúlku í myndinni A Place in the Sun og stimplaði sig þar með út sem barnastjarna og inn í heim þeirra fullorðnu. Árið 1952 giftist hún Michael Wilding og eignaðist með honum tvö syni sem komu í heiminn 1953 og 1955. Hjónbandið fór í vaskinn eftir að upp komst um ástarsamband Liz og framleiðandans Michael Todd. Todd og Liz giftust árið 1957, fljótlega eftir að skilnaður Liz og Wilding var orðinn löglegur. Todd og Liz eignuðust eina dóttur saman en Todd lést svo í flugslysi árið 1958 í Nýju-Mexíkó. Hún hóf svo ástarsamband við giftan mann, Eddie Fisher sem hafði jafnframt verið besti vinur Todd. Fisher skildi við konu sína og giftist Liz árið 1959. 

Liz var fyrst tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 1958 fyrir leik sinn í myndinni Raintree County og aftur ári síðar fyrir leik sinn í myndinni Cat on a Hot Tin Roof. Hún vann þó ekki styttuna góðu fyrr en árið 1961 fyrir hlutverk sitt í myndinni Butterfield 8, en þar léku hjónin á móti hvoru öðru. Liz vann sín önnur Óskarsverðlaun árið 1967 fyrir leik sinni í myndinni Who's Afraid of Virginia Wolf? sem kom út árið 1966. 

Liz lék hlutverk Kleópötru í samnefndri bíómynd sem kom út árið 1963. Hún og Richard Burton kynntust við tökur á þeirri mynd en þá hófst ástríðufullt og opinbert samband þeirra sem markaði endalok hjónabands Liz og Fisher. Sambandið leiddi einnig af sér eina dóttur, fædd 1961, tvær giftingar og jafnmarga skilnaði. Fyrst voru þau gift í tíu ár, 15. mars 1964 - 26. júní 1974, og síðar í níu mánuði, 10. október 1975 - 29. júlí 1976. Í lok ársins 1976 giftist hún öldungardeildarþingmanninum John Warner og entist það hjónaband í sex ár. Á níunda áratugnum fór Liz í margar meðferðir við áfengis- og lyfjafíkn og tókst að lokum að sigrast á fíkninni. Árið 1991, þremur árum eftir skilnað númer sjö, giftist Liz húsasmiðnum Larry Fortensky en þau höfðu einmitt kynnst í meðferð. Þau skildu svo fimm árum síðar, árið 1996. Árið 1997 fékk hún viðurkenningu frá samtökum leikstjóra í Bandaríkjunum (e. Directors Guild of America) fyrir lífsframlag sitt til kvikmyndaheimsins. 

Elizabeth Taylor lét ekki sitt eftir liggja þegar kom að góðgerðarmálum. Hún var ötul baráttumanneskja fyrir fræðslu um eyðni og stofnaði meðal annars Elizabeth Taylor HIV/AIDS sjóðinn árið 1991 en hann styður fjárhagslega við beina þjónustustarfsemi við fólk sem hefur greinst með eyðni og einnig við samtök út um allan heim sem hjálpa þeim sem lifa með eyðni.

 


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir