ELTumst við að upplýsa alla EINstaklinga

Hvað skortir þessar stelpur?
Í ljósi þess að netheimar hafa að undanförnu logað af umræðu um einelti langar mig að leggja orð í belg.

Mér krossbrá þegar ég rakst á meðfylgjandi mynd á samskiptamiðlinum Facbook þar sem tvær unglingsstelpur senda ógeðfelld skilaboð til jafnöldru sinnar með því að nota vinsælt popplag. Mér fannst vert að velta því aðeins fyrir mér, og okkur öllum, hvað vantar í huga manneskjunnar.

Ég hef svolítið verið að hugsa um það hvernig hægt sé að sporna við einelti og hvar sé best að byrja. Þetta er mjög erfitt mál því sem fullorðin geturu ekki neytt barn til að umgangast eða leika við annað barn sem því fyrrnefnda finnst ekki skemmtilegt. En varla finnst öllum börnunum í t.d. 20 manna bekk sama manneskjan leiðinleg eða skrítin. En um leið og nokkrir aðilar, jafnvel bara einn "vinsæll" eða tveir taka sig saman og ákveða að einhver einn aðili sé asnalegur og deila því áfram, tekur restin þátt. Oft er tilfellið slíkt að hinir eru hræddir við að taka afstöðu á móti af ótta við að verða sjálfir fyrir barðinu á gerendunum. Að sjálfsögðu er enginn að leggja til að stofna systrafélag á milli allra stelpnanna í einhverjum ákveðnum bekk, en í guðanna bænum, það þarf að kenna börnum (og að því er virðist fullorðnum líka), að umburðarlyndi gagnvart öðrum er nauðsynlegt. Það þarf að sýna fram á að það er þroskandi að umgangast fjölbreytilegan hóp fólks. Jafnvel þó okkur finnist manneskjan óþolandi eða við myndum ekki velja hana sem vin, þá er nauðsynlegt að temja sér kurteisi og taka því sem hverju öðru verkefni að halda samskiptum á jákvæðum nótum. Þannig líður okkur líka svo mikið betur! Einnig þurfa allir að hugsa áður en þeir tala, því orð geta sært, eitthvað sem sumir telja saklaust grín taka aðrir nærri sér, því öll erum við ólík.

Hvað er þetta?

Þetta til dæmis eitthvað sem getur verið fyndið í ákveðnum aðstæðum en getur líka verið notað í öðrum og alvarlegri tilgangi.

Hér eru engin ný fræði til umfjöllunar, en það er brýnt að nefna það að við getum ekki breytt öðrum, við getum í raun ekki breytt neinum nema sjálfum okkur. Allir ættu að tileinka sér þá lífshætti að virða náungann eins og hann er. Einelti er mannskemmandi nauðgun á sálinni og mun alltaf skilja eftir ör.

Eftir að hafa fylgst með umræðunni hef ég tekið eftir því sem mig grunaði. Sú altæka hugmynd um að einelti segi meira um gerandann en þolandann á bara alls ekki við í öllum tilfellum. Oft amar ekkert að gerendum, þau eiga ekki erfitt heima fyrir og gengur ekki illa í skóla. Oft er bara um að ræða einfaldan upplýsingaskort. Gerendurnir eru kannski bara pínulítið ofvirk börn sem vita ekki betur. Þau hafa ekki fengið fræðslu um afleiðingar eineltis eða upplýsingar og/eða reynslu af hversu gefandi það er að umgangast jafn misjafnt fólk og það er margt. Þolendurnir þurfa líka að fá hjálp ef þau eru t.d. verr stödd félagslega en jafningjar þess. Vert er að hafa í huga að það þarf bæði að hlúa að þolendum og gerendum eineltis, og þá ekki á þann hátt að furða sig á ástæðu þess að tiltekin þolandi sé fórnarlambið og að gerandinn eigi erfitt heima fyrir. Það er ástæða fyrir öllu, finnum hana og útrýmum henni með upplýsingaflæði. 

Komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Tökum fjölbreytninni fagnandi og stöndum saman gegn einelti.

Þess má geta að Eineltisdagurinn var 8. nóvember síðastliðinn, en um er að ræða átak gegn einelti en ekki hvatningu til eineltis eins og útúrsnúningar hafa gefið til kynna.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir