Endalausar kröfur

Mynd: visir.is
Eflaust hafa margir setið spenntir fyrir framan sjónvarpið síðustu daga og fylgst með íslenska landsliðinu í handbolta þar sem þeir hafa verið að keppa um heimsmeistaratitilinn. Mikil stemming myndaðist fyrir mótið og voru menn mjög bjartsýnir á gengi liðsins.


Flestir fóru inn í mótið með því hugarfari að liðið næði a.m.k. í undanúrslit, enda er það eðlileg krafa þegar um er að ræða lið sem hefur verið á verðlaunapalli á síðustu stórmótum. Til þess að gera langa sögu stutta hefur íslenska landsliðið ekki náð þeim árangri þrátt fyrir mjög góða byrjun á mótinu. Það voru ekki margar þjóðir sem komust taplaust í gegnum fyrsta riðilinn. Það sem gerðist svo eftir þann árangur er ráðgáta, en í milliriðlinum töpuðu þeir öllum leikjunum jafn „glæsilega“ og þeir unnu hina. Þrátt fyrir þetta mikla bakslag á íslenska landsliðið að spila um fimmta sætið í mótinu og hefur nú þegar tryggt sig inn á forkeppni Ólympíuleikanna.

Í sjálfu sér er þetta mjög góður árangur og í rauninni er það ósanngjarn að fara fram á mikið meira. Samt verða menn að gera sér grein fyrir því að Ísland er orðið stórveldi í handboltanum og hefur verið það í þónokkur ár. Er þá ekki eðlilegt að menn fari inn í mót með það í huga að ná a.m.k. að komast á verðlaunapall? Á fólk ekki að gera miklar kröfur til liðs sem er með topp atvinnumenn í öllum stöðum? Má maður þá ekki gera þá kröfu að þessir sömu atvinnumenn haldi haus í heilt mót? Auðvitað á fólk að gera þessar kröfur til liðsins. En eins og gerist stundum þegar væntingar og kröfur eru miklar þá verður maður fyrir vonbrigðum þrátt fyrir að liðið nái í rauninni mjög góðum árangri. Þetta er eitthvað sem stórþjóðir eins og Frakkar, Þjóðverjar og Spánverjar hafa allar upplifað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Þar á bæ hafa kröfurnar oftar en ekki verið þær að ná gullinu og engu öðru. Það eru ekki margar smáþjóðir sem geta gert álíka kröfur til sinna landsliða. Ísland er fyrir löngu komið í  hóp stórþjóða þegar kemur að handbolta og framundan er leikurinn um fimmta sætið á HM í handbolta. Núna er krafan sú að strákarnir vinni þann leik og tryggi sér þetta fimmta sæti, annað kemur ekki til greina.

 

Sighvatur Örn Björgvinsson


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir