Ringdu í mig!

Dæmigert ílát
Ég ætla hér með að lýsa yfir andúð minni á nýjasta útspili Símans, farsímaþjónustunni Ring. Hvernig væri nú að þetta íslenska fyrirtæki reyndi nú að sjá sóma sinn í því að tala þó það væri ekki nema skítsæmilega íslensku í staðinn fyrir að troða inn enskuslettum þegar þeir eru að reyna að finna eitthvað svalt til að selja grunlausum og áhrifagjörnum unglingum.

Með morgunmatnum núna áðan renndi ég yfir fríblað dagsins. Þar voru nokkrar auglýsingar frá Símanum, þar sem notendur þessarar nýju farsímaþjónustu eru kallaðir „ringjarar“ og þeir eru hvattir til að „ringja“ í annað fólk.  Og baksíðuauglýsingin endar svo á orðinu „ringdu“, er verið að óska eftir rigningu kannski?

 Hvað varð um að hringja og hringdu? Er vísvitandi verið að reyna að hafa slæm áhrif á æsku þessa lands þegar kemur að málnotkun? Er það ósk snillinganna sem gerðu þessa auglýsingu að innan skamms verði fólk hætt að tala um „að hringja“ og noti þess í stað „að ringja“?


Ég hef yfirleitt ekkert á móti slettum og á það sjálfur til að sletta reglulega. En ég dreg mörkin við það þegar íslensk stórfyrirtæki eru farin að búa til nýjar slettur  í auglýsingaskyni.  Mín vegna mega þau selja sálu sína til andskotans eða íslenskra útrásavíkinga(er það kannski sami hluturinn?), en íslenska tungumálið skulu þau láta ósnert.

Og já það er kannski gott að láta það fylgja með að ringja þýðir lítið ílát eða fata, samkvæmt íslenskri orðabók.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir