Móðir Jörð ræður!

Mynd: Reuters
Kom jarðskjálftinn á 17.júní árið 2000 þér á óvart? Eldgosið í Eyjafjallajökli? Jarðskjálftarnir í Chile og á Haiti fyrir rúmu ári síðan? Mjög líklegt er að svo hafi verið. Samt sem áður rembist mannkynið við að spá fyrir um mögulega hluti sem gætu orðið. Enginn hefur þó enn fundið tæknina til þess að sjá fyrir náttúruhamfarir. Við höfum bara ekki alveg áttað okkur á því í tæknikapphlaupinu og teljum okkur alltaf trú um að við getum haft stjórn á náttúrunni. Við erum í sífellt minnt á hið gagnstæða.


Vissulega var jarðskjálftinn í Japan á föstudaginn dæmi um náttúruhamfarir. Flóðbylgjan sem tók með sér heilu þorpin og jafnvel bæi olli ennþá meiri eyðileggingu. Kjarnaorkuver eru í hættu og þá sérstaklega í Fukushima, þar sem kælikerfin hafa klikkað. Kerfi sem voru hönnuð til að standast jarðskjálfta og hafa í raun ekki gefið sig miðað við hönnun þeirra. Sannleikurinn er sá að kerfin eru jarðskjálftaþolin og kjarnaklúfarnir sjálfir eru það einnig. Það sem menn sáu hinsvegar ekki fyrir voru afleiðingar flóðbylgjunnar. Ég mæli með fréttaskýringu fréttastofu Stöðvar 2 á því hvað hefur gerst og gæti gerst í Fukushima sem birt var í kvöld, mánudag.

Við skulum ekki gleyma því að Japan liggur á hinum svokallaða "Eldhring" (e. "Ring of Fire"). Japanir eru engir viðvaningar þegar kemur að byggingu á húsum og þau þoldu langflest jarðskjálftann þó auðvitað sé hætt við að einhver þeirra hafi eyðilagst. Skjálftinn var jú 8,9 á Richter skalanum.

Það er engin tilviljun að í Japan séu 53 kjarnorkuver. Japanir gerðu þetta sjálfir og enginn neyddi þá til þess. Þeir töldu sig geta byggt nógu örugga kjarnakljúfa, á jarðskjálftasvæði, til þess að koma í veg fyrir kjarnorkuslys líkt og í Chernobyl eða Three Mile Island. Nú er ég ekki að segja að Japanir hafi kallað þetta yfir sig sjálfir og eigi þetta skilið fyrir heimsku sína eða þvíumlíkt. Alls ekki. Þvert á móti ber ég mikla virðingu fyrir Japönum. Ég er bara að benda á staðreyndir. Mannkynið telur sig geta haft stjórn á náttúrunni.

Við getum ekki séð fyrir hvað gerist í náttúrunni. Sama hvað jarðfræðingar og aðrir sérfræðingar segja, það er ekki hægt. Enginn sá fyrir gosið í Eyjafjallajökli. Í raun bjuggust allir við því að nú færi Hekla að gjósa. Vissulega er hægt að gera spár og það sem við getum gert er að finna upplýsingar um hvernig jörðin var. Ekki hvernig hún verður. Í ljósi þess þarf mannkynið að fara varlega með þau efni sem það hefur skapað og geta mögulega valdið skaða á því sjálfu. Þá sér í lagi kjarnorku. Sjáið bara hvað er að gerast í Fukushima. Væri ekki nær að reiða sig á annan orkugjafa en kjarnorku á svæði þar sem jarðskjálftar eru algengir? Það væri jafnvel efni í annan pistil.

Sama hvað gerist í Japan, mannkynið þarf að læra af sínum mistökum. Vanmat á náttúrunni kemur okkur sífellt í koll og því þurfum við að athuga hversu langt við erum tilbúin að ganga í því að bjóða henni birginn. Byrjaðu á því að líta í eigin barm. Ekki gleyma því að við erum jú bara gestir og hótel okkar er Jörðin.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir