"Banvænt" blogg

Halldór Kristinn Björnsson var á dögunum rekinn úr starfi sínu hjá Toyota eftir að hafa birt bloggfærslu sem fjallaði um það hvernig forstjóri Toyota hyglaði sjálfum sér með því að endurnýja 14 milljóna króna bifreið sína á kostnað fyrirtækisins á sama tíma og flestir aðrir starfsmenn Toyota urðu fyrir barðinu á stórfelldum niðurskurði.

Halldór fór einungis með staðreyndir í skrifum sínum og nefndi hvorki fyrirtækið eða neina einstaklinga á nafn. Aðspurður segist hann ekki sjá eftir neinu varðandi bloggfærsluna, en honum var vikið úr starfi nokkrum dögum eftir að færslan birtist á netinu.
Halldór er ekki sá fyrsti sem missir starfið vegna bloggfærslu. Nýlegt dæmi er úr Eyjafjarðarsveit þar sem sveitarstjóranum, Guðmundi Jóhannssyni, var vikið úr starfi snemma ársins. Er þessi brottvikning sett í samband við bloggfærslu sem sveitarstjórinn bloggaði 31. desember s.l.  þar sem hann tjáði sig um fréttir af ólátunum við Hótel Borg vegna útsendingar Stöðvar 2 á þættinum Kryddsíldin. Í bloggfærslunni segir Guðmundur m.a. „það má nota eins mikið af piparúða og þarf til að hemja þetta lið, það er óþarfi að senda sjúkraliðið til að skola augu þessa pakks. Það getur hunskast til síns heima og skolað augun sjálft fyrst það hagar sér svona og stoppar útsendingu þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar skiptast á skoðunum“.
Í samtali við Landpóstinn sagði Guðmundur að brottvikningin hafi komið sér mjög á óvart og að hann hafi ekki vitað annað en að í sveitarstjórninni ríkti sátt um störf hans. Hann hefði nú ritað sveitarstjórninni bréf þar sem hann fer fram á skýringar á uppsögninni og bíði svars hennar. Þær skýringar sem hann hafi hingað til fengið séu ekki, að hans mati, haldbærar. Hann hafði þó á orði að hann teldi uppsögnina tengjast bloggfærslunni.
Mál Guðmundar og Halldórs er sambærileg að því leyti að ástæður uppsagnar úr starfi eru bloggfærslur þeirra, en færslurnar eru ólíkar. Halldór lýsir, í sinni færslu, staðreyndum sem ekki hafa verið bornar til baka en Guðmundur er að lýsa skoðunum sínum. Í tengslum við brottvísun Guðmundar mátti í bloggheimum sjá færslur þar sem menn fögnuðu því að Guðmundi var vikið úr starfi og var m.a. talað um dómgreindarleysi hans sem ekki þótti hæfa sveitarstjóra og fleira í þeim dúr. En skyldi sama fólkið fagna brottvísun Halldórs frá Toyota?  Hvað er mergurinn málsins? Ef ekki tjáningarfrelsi, hvað þá?
Er það eitthvað annað en kúgun að mega ekki tjá skoðanir sínar án þess að eiga á hættu að missa vinnuna? Minnir þetta ekki óþægilega mikið á andrúmsloftið í Ráðstjórnaríkjunum gömlu?
Eiga menn ekki að geta tjáð skoðanir sínar eins og þeim lystir á sínum einka-bloggsíðum? Allavega fá þeir Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson að blogga óáreittir. 

heimildir: mbl.is og fl.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Landpósturinn áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Svæði

Landpóstur er fréttavefur
fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. 
KENNARAR OG UMSJÓNARMENN
Birgir Guðmundsson, Hjalti Þór Hreinsson, Sigrún Stefánsdóttir